Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 615/1978

Gjaldár 1976

Lög nr. 10/1960  

Söluskattur

Til úrskurðar kom álagning sölugjalds á neðangreinda atvinnustarfsemi.

Sölugjald á greiðasölu og gistingu.

Hér var um að ræða, skv. upplýsingum kæranda, kaup á vörum með söluskatti, kr. 219.000,- og herbergisleigu kr. 219.000,-. Í úrskurði ríkisskattanefndar segir, að ljóst sé að söluskattur hafi þegar verið greiddur af öllum aðkeyptum vörum og þjónustu vegna dvalargesta og sjálft herbergisleigugjaldið sé undanþegið söluskatti skv. ákvörðun fjármálaráðuneytisins, sbr. bréf dags. 13.1. 1972.

Leiga á heybindivél.

Skattstjóri hafði lagt söluskatt á leigu af heybindivél. Í umsögn ríkisskattstjóra segir, að vélaleiga sé tvímælalaust söluskattsskyld skv. ákvæðum f-liðar 4. gr. laga nr. 10/1960, sbr. 7. tl. 10. gr. reglugerðar nr. 169/1970. Ríkisskattanefnd felldi söluskattinn hina vegar niður með vísan til þess, að vélbinding á heyi sé undanþegin söluskatti, sbr. ákvörðun fjármálaráðuneytisins með bréfi dags. 12.6. 1972.

Söluskattur af malarsölu.

Skattstjóri gerði kæranda að greiða söluskatt af malarsölu til Vegagerðar ríkisins og krafðist Ríkisskattstjóri, að sá úrskurður hans yrði staðfestur. Um það atriði segir ríkisskattanefnd:

„Greiðsla sú, sem kærandi fékk frá Vegagerð ríkisins, mun vera upp í greiðslu fyrir malartöku og landspjöll í því sambandi. Málið er til meðferðar hjá eignarnámsnefnd og endanleg greiðsla ekki ákveðin. Þykir að svo komnu máli ekki efni til að gera kæranda að greiða söluskatt af þessari uppigreiðslu.“

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja