Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 573/1992

Gjaldár 1989

Lög nr. 75/1981 — 31. gr. 1. tl. — 103. gr.   Reglugerð nr. 245/1963 — 27. gr. D-liður  

Félagsgjald — Félag sjálfstætt starfandi manna — Sjúkraþjálfari — Atvinnugreinafélag — Atvinnurekendafélag — Eigin atvinnurekstur — Vinnufatakostnaður — Rekstrarkostnaður — Kostnaður vegna atvinnurekandans sjálfs — Persónulegur kostnaður — Frádráttarheimild — Sérstakt hæfi — Vanhæfi — Hæfisskilyrði

Málavextir eru þeir, að kærandi rekur sjúkraþjálfun og gjaldfærði á rekstrarreikningi fyrir árið 1988 m.a. félagsgjöld 6.500 kr. og vinnuföt 10.060 kr. Þessa gjaldaliði felldi skattstjóri niður. Í kæru, dags. 25. ágúst 1989, mótmælti umboðsmaður kæranda breytingum skattstjóra og hélt því fram, að umræddir gjaldaliðir báðir teldust frádráttarbær rekstrarkostnaður samkvæmt 1. tl. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Með kæruúrskurði, dags. 15. október 1990, synjaði skattstjóri kröfum kæranda. Taldi hann vinnufatakostnað vera að öllu leyti vegna kæranda sjálfs, þ.e. persónuleg útgjöld. Varðandi félagsgjöldin þá tók skattstjóri fram, að Félag íslenskra sjúkraþjálfara væri fagfélag öllum sjúkraþjálfurum opið án tillits til þess, hvort þeir væru launþegar eða rækju sjálfstæða atvinnu. Kæmi þjónusta félagsins því jafnt launþegum sem atvinnurekendum að gagni. Væri því ekki um eiginlegt atvinnurekendafélag að ræða í merkingu D-liðs 27. gr. reglugerðar nr. 245/1963, um tekjuskatt og eignarskatt, og félagsgjöldin því ekki frádráttarbær.

Af hálfu kæranda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 12. nóvember 1990. Krefst kærandi þess, að breytingum skattstjóra verði hrundið og fyrrgreindir gjaldaliðir látnir óhreyfðir standa. Rök kæranda eru þessi í kærunni:

„Í samningi milli Tryggingastofnunar ríkisins og Félags íslenskra sjúkraþjálfara er rekstrarkostnaðar sjúkraþjálfunarstofu skilgreindur. Kostnaðurinn greinist í 15 liði, þar á meðal fatnað sbr. fylgiskjal 2 frá 11. febrúar 1988.

Stofa sú er undirrituð stendur að hagar sínum rekstri þannig að fastir útgjaldaliðir og hinir stærstu eru greiddir af stofunni. Til að halda launakostnaði niðri heldur hver sjúkraþjálfari utan um sinn rekstur og breytilega útgjaldaliði svo sem fatnað, endurmenntunarkostnað, bifreiðakostnað og fleira.

Fulltrúi skattstjóra vísar í úrskurði sínum til lagaákvæðis þar sem segir að „aðeins sé heimilt að draga frá tekjum af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi rekstrarkostnað, það er þau gjöld er á árinu eiga að ganga til afla teknanna, tryggja þær og halda þeim við.“ Úrskurð sinn byggir hann hins vegar á persónulegu mati sínu á því hvað teljist rekstrarkostnaður, mati sem fer í bág við skoðun Tryggingastofnunar ríkisins á því máli sbr. fyrrnefndan samning.

Félag íslenskra sjúkraþjálfara er fagfélag jafnt fyrir launþega sem sjálfstætt starfandi. Hinir síðarnefndu taka ekki þátt í starfi félagsins er lítur að hagsmunagæslu launþega, greiða ekki atkvæði um samninga þeirra og leggja ekki niður vinnu með launþegum. Eins taka launþegar ekki þátt í starfi félagsins sem snýr að samningum sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfara og sjálfseignarstofnana. Ég tel því að um „eiginlegt atvinnurekendafélag sé að ræða“ þó svo að vegna fámennis stéttarinnar sé þessi starfsemi undir sama nafni og önnur.

Það vekur nokkra undrun mína að sami einstaklingur skuli hafa með höndum breytingar á skattframtali og mat á kæru vegna þeirra breytinga svo sem reyndin var í mínu tilviki.“

Með bréfi, dags. 25. mars 1991, hefur ríkisskattstjóri krafist þess í málinu f.h. gjaldkrefjenda, að hinn kærði úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Ekki verður talið, að neinir þeir annmarkar hafi bagað málsmeðferð skattstjóra, að valdið geti ómerkingu hinna kærðu breytinga af þeim sökum. Kærandi þykir ekki hafa sýnt fram á það, að hinir umdeildu gjaldaliðir geti skoðast frádráttarbær rekstrarkostnaður samkvæmt 1. tl. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Er kröfu kæranda því synjað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja