Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 588/1992

Gjaldár 1990

Lög nr. 75/1981 — 6. gr. — 7. gr. A-liður 1. tl. 2. mgr. og B-liður — 31. gr. 1. tl. 2. mgr. — 59. gr. 2. mgr. — 65. gr. — 82. gr. — 91. gr. 1. og 2. mgr. — 96. gr. 1. og 3. mgr. — 99. gr. 1. mgr. 4. ml.   Lög nr. 68/1984 — 26. gr.  

Barn — Sköttun barns — Launatekjur — Skattskylda — Skattskylda einstaklings — Sérsköttun launatekna barns — Reiknað endurgjald — Reiknað endurgjald barns vegna vinnu við atvinnurekstur foreldris — Ákvörðun reiknaðs endurgjalds — Ákvörðun skattstjóra á reiknuðu endurgjaldi — Reiknað endurgjald, ákvörðun skattstjóra — Vinnuframlag við eigin atvinnurekstur — Framtalsskylda — Fjárhaldsmaður — Framtalsskylda vegna ófjárráða manna — Lögráðamaður — Lögræði — Fjárræði — Sjávarútvegsskýrsla — Fylgigögn skattframtals — Rekstrarkostnaður — Skattframtal barns — Aðild máls — Málsaðild — Breytingarheimild skattstjóra — Fyrirspurnarskylda skattstjóra — Andmælareglan — Málsmeðferð áfátt — Rökstuðningur — Rökstuðningur ákvarðana skattstjóra — Rökstuðningi áfátt

I.

Kærandi hafði með höndum smábátaútgerð árið 1989 ásamt eiginmanni sínum er lést 17. nóvember 1989. Reiknað endurgjald kæranda nam 520.000 kr. og eiginmanns 852.600 kr. Þá nam reiknað endurgjald barns þeirra, A, við reksturinn 500.000 kr. sbr. og skattframtal barns, er liggur fyrir í málinu. Alls nam reiknað endurgjald samkvæmt þessu 1.872.600 kr. Hreinar tekjur í reit 62 í tekjuframtali kæranda námu 776.656 kr.

Með bréfi, dags. 19. maí 1990, skoraði skattstjóri á kæranda að gera grein fyrir fjárhæð reiknaðs endurgjalds barnsins A, þar eð telja yrði endurgjaldið hærra en barnið hefði haft hjá óskyldum eða ótengdum aðila bæði með hliðsjón af aldri og skólagöngu. Í svarbréfi, dags. 22. maí 1990, gerði kærandi grein fyrir þessu og vék m.a. að því að fiskvinnslan hentaði vel unglingum. Vinna hefði verið stöðug og mikil á árinu 1989 og drengurinn duglegur og hefði ævinlega veitt hjálp, þegar vinnu hans hefði verið þörf. Skattstjóri féllst ekki á þessar skýringar og með bréfi, dags. 20. júlí 1990, til kæranda ákvað hann fjárhæð endurgjalds A 100.000 kr. og hækkaði hreinar tekjur kæranda í reit 62 að sama skapi eða í 1.176.656 kr.

Af hálfu kæranda var þessum breytingum mótmælt í kæru, dags. 15. ágúst 1990. Gerði kærandi grein fyrir vinnuframlagi og vinnutíma A. Sagði svo um þetta:

„Nánari sundurliðun á vinnutíma og kaupi A er þannig: Í fyrrasumar vann hann í fjóra mánuði að meðaltali 250 klst. á mánuði fyrir kr. 300.- á klst. sem gerir kr. 300.000.-Í átta mánuði vann hann með skólanum rúma 80 tíma að meðaltali á mánuði sem gerir kr. 200.000.-

Þannig urðu fyrrnefndar kr. 500.000.- til.

Það skal viðurkennt að A er duglegur að vinna og það gæti reynst erfitt fyrir hann að afla þessara tekna hjá óskyldum aðila. En að lækka launin niður í 20% af raunveruleikanum er fjærri öllu sanni og í reynd umhugsunarefni hvernig starfsmanni á skattstofunni dettur slík fásinna í hug.“

Skattstjóri tók kæruna til úrlausnar með kæruúrskurði, dags. 19. október 1990, og synjaði henni. Vísaði skattstjóri til þess, að skv. 2. mgr. 59. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, bæri honum að ákvarða reiknað endurgjald barns vegna starfa þess við atvinnurekstur forráðanda, teldi hann endurgjaldið hafa verið ákveðið hærra en barnið hefði aflað hjá óskyldum eða ótengdum aðila. Tók skattstjóri fram, að þegar litið væri til aldurs sonar kæranda þætti tortryggilegt, að sá vinnustundafjöldi, er fram kæmi í kæru, fengi staðist. Þá þætti ekki hafa verið gert líklegt, að barnið hefði verið ráðið til vinnu hjá óskyldum eða ótengdum aðila á því tímakaupi, sem fram kæmi í kæru. Þá vísaði skattstjóri til þess, hvernig hagað væri ákvörðun launa við rekstur kæranda.

II.

Af hálfu kæranda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 12. nóvember 1990. Mótmælt er breytingum skattstjóra og vísað til röksemda í kæru til hans, dags. 15. ágúst 1990. Þá víkur kærandi að því í tilefni af athugasemd skattstjóra, að af athugunarleysi og misskilningi hefði ekki verið sett fjárhæð fyrir barnið í sundurliðun á staðgreiðslu hvers mánaðar.

III.

Með bréfi, dags. 25. mars 1991, hefur ríkisskattstjóri gert svofelldar kröfur í málinu f.h. gjaldkrefjenda:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.“

IV.

Samkvæmt 6. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, eru börn innan 16 ára aldurs á tekjuárinu ekki sjálfstæðir skattaðilar séu þau á framfæri foreldra sinna. Um tilhögun skattlagningar tekna og eigna barna þessara er fjallað í 65. og 82. gr. nefndra laga. Sú undantekning er gerð frá þessu, að samkvæmt 6. gr. laganna skulu þær tekjur barna, sem um ræðir í 1. tl. A-liðs 7. gr. þeirra, skattlagðar sérstaklega, sbr. og 2. mgr. 65. gr. s.l. Samkvæmt 2. ml. 2. mgr. 91. gr. laga nr. 75/1981 ber fjárhaldsmönnum að telja fram fyrir þá, sem ekki eru fjárráða. Samkvæmt framtalsskyldu þessari skilaði kærandi skattframtali árið 1990 vegna barns síns í tilskildu formi vegna sérskattlagningar þeirra tekna þess, sem í málinu greinir, enda fór kærandi með fjárhald barns síns sem lögborinn lögráðamaður, sbr. 26. gr. laga nr. 68/1984, lögræðislaga. Hinar umdeildu breytingar skattstjóra vörðuðu skattstofna á tvennan hátt. Annars vegar lækkaði skattstjóri gjaldfært reiknað endurgjald á sjávarútvegsskýrslu kæranda (RSK 4.06) um 400.000 kr. og hækkaði jafnframt hreinar tekjur kæranda í reit 62 í skattframtali árið 1990 um sömu fjárhæð. Beindist breyting skattstjóra að þessu og einvörðungu að skattframtali kæranda. Hins vegar þýddi breyting skattstjóra lækkun á tekjum barnsins til sérskattlagningar samkvæmt sérstöku framtali barns vegna þeirrar skattlagningar, þ.e. lækkun úr 500.000 kr. í 100.000 kr. er skattstjóri hefur í reynd framkvæmt samkvæmt gögnum málsins. Breytingar skattstjóra hafa þó ekki á neinu stigi málsins beinst formlega að fyrirliggjandi skattframtali vegna barnsins og hefur skattstjóri enga tilkynningu sent um þá breytingu sérstaklega. Eins og málum er skipað að lögum varðandi þessa sérskattlagningu tekna barna innan 16 ára aldurs og lýst er að framan verður ekki talið, að fyrrgreind málsmeðferð skattstjóra hafi verið fullnægjandi. Að þessu virtu og þar sem skattstjóri þykir ekki hafa tekið skýringar kæranda á mati á fjárhæð reiknaðs endurgjalds barnsins til nægilega rökstuddrar úrlausnar er hinni kærðu breytingu hnekkt.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja