Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 455/1974

Gjaldár 1972

Lög nr. 68/1971, 5. gr. A-liður  

Hlutafélög, skattskylda

Hlutafélag var stofnað um rekstur gróðurhúsa og garðyrkju og var stofnfundur haldinn 20. febr. 1971. Skv. stofnsamningi skyldi hlutafélagið yfirtaka rekstur eins stofnandans frá 1. janúar þess árs. Skrásetning félagsins fór ekki fram fyrr en 25. okt. 1971.

Fyrirsvarsmenn félagsins töldu fram fyrir það 1972 og voru á rekstrarreikningi tilfærðar tekjur og gjöld af ofangreindri starfsemi fyrir allt árið 1971. Með tilvísun til 10. gr. laga um hlutafélög taldi skattstjóri að hlutafélagið gæti ekki verið sjálfstæður skattaðili, en skattlagði tekjur þess hjá fyrri eiganda gróðrarstöðvarinnar, sem átti 95% hlutafjár.

Ríkisskattanefnd taldi að skattleggja bæri tekjur af starfseminni hjá hlutafélaginu frá stofnfundardegi þess og segir svo í úrskurði nefndarinnar:

"Í upphafi 10. gr. laga um hlutafélög nr. 77/1921 er svo fyrir mælt, að hlutafélag megi eigi taka til starfa fyrr en það hefir verið skrásett lögum samkvæmt og fyrr geti það eigi heldur öðlast réttindi á hendur öðrum mönnum með samningum né þeir á hendur því sbr. þó 20. gr. laganna. Í 3. mgr. sömu greinar segir, að tilkynna skuli félag til skrásetningar á mánaðarfresti eftir að það var löglega stofnað og tilkynningarskyldan hvíli á stjórn þess.

Nefndin lítur svo á, að af ákvæðum þessum verði ekki leitt, að skyldur opinbers réttar eðlis svo sem skattskylda stofnist ekki á hendur hlutafélagi fyrr en við skrásetningu. Hins vegar kann dráttur á skrásetningu félags umfram fyrrgreindan frest að varða stjórnendur þess refsingu samkvæmt 53. gr. laga um hlutafélög auk persónulegrar ábyrgðar þeirra á skuldbindingum þess."

Áætlaði nefndin skiptingu tekna milli hlutafélagsins og fyrri rekstraraðila miðað við þá niðurstöðu enda lá eigi fyrir í málinu skipting tekna af starfseminni miðað við stofndag.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja