Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 214/1975

Gjaldár 1973

Lög nr. 68/1971, 5. gr. E-liður, 6. gr.  

Skattskylda

Skattstjóri áætlaði ræktunarsambandi nokkru hreinar tekjur kr. 400.000,- og gerði því að greiða tekjuskatt skv. því, kr. 214.120,-. Ræktunarsambandið vildi eigi una þessari álagningu og kærði hana til ríkisskattanefndar.

Í úrskurði ríkisskattanefndar segir:

"Kærandi er samband hreppabúnaðarfélaga, sem hefir með höndum jarðræktarframkvæmdir fyrir félagsmenn búnaðarfélaganna ásamt verulegri starfsemi í þágu annarra aðila. Telja verður að sambandið hafi með höndum atvinnurekstur. Með því að hvorki það né starfsemi þess er undanþegin skattskyldu eftir sérstökum lögum og 6. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt þykir ekki taka til þess, ber að telja það skattskyldan aðila skv. E-lið 5. gr. laganna. Hins vegar þykir með hliðsjón af framkomnum upplýsingum um tekjur þess rétt að áætla þær að nýju. Þykja þær hæfilega ákveðnar kr. 50.000,-. Samkvæmt þessari niðurstöðu ber kæranda einnig að greiða eignarskatt og áætlast hrein eign hans kr. 350.000,-."

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja