Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 629/1975
Gjaldár 1974
Lög nr. 68/1971, 7. gr. E-liður
Söluhagnaður fasteignar
Málsatvik voru þau, að kærandi seldi húseign sína í Garðahreppi í smíðum á kr. 2.300.000,- á árinu 1973. Byggingarkostnaður og sölulaun námu samtals kr. 1.394.083,- og reiknaði skattstjóri kæranda til skattskyldra tekna söluágóðann kr. 905.917,-, gjaldárið 1974.
Kærandi vildi ekki una þessum úrskurði skattstjóra og áfrýjaði málinu til ríkisskattanefndar. Til rökstuðnings kröfum sínum vísar umboðsmaður kæranda til bréfs, sem ritað var skattstjóra hinn 25. mars 1975, en þar segir m.a.:
"Við áramót 1973/1974 hafði hann skv. húsbyggingarskýrslu lagt kr. 1.348.083,- í húsbyggingu þessa, þegar hann sá sér ekki fært lengur að halda henni áfram og í desember 1973 seldi hann húsið í smíðum fyrir kr. 2.300.000,- og með 10 ára skuldabréfi eftirstöðvarnar kr. 1.032.000,- á 8% ársvöxtum.
"Ágóði" sá, sem hér hefur verið skattlagður er því allur í formi 10 ára skuldabréfs með lágum vöxtum og er þess vegna mjög óréttlátt að tekjuskatt- og útsvarsskattleggja hann að fullu. Ef skuldabréf það, sem hér um ræðir, væri selt, fengist varla meira en 40% af nafnverði fyrir það. Með tilliti til þess, sem hér að framan segir er þess hér með farið á leit að framangreind gjaldahækkun verði færð verulega niður með hliðsjón af því hver raunverulegur gróði varð af þessari fasteignasölu.
Einnig gerir kærandi þá varakröfu, að einungis verði skattlagður ár hvert sá hluti ágóðans, sem borgast hverju sinni.
Af hálfu ríkisskattstjóra var krafist staðfestingar á úrskurði skattstjóra.
Ríkisskattanefnd úrskurðaði að með því að kröfur kæranda ættu sér ekki stoð í lögum nr. 68/1971 um tekjuskatt og eignarskatt, með áorðnum breytingum, bæri að synja kröfum kæranda.