Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 1166/1975

Gjaldár 1974

Lög nr. 68/1971, 7. gr. E-liður  

Eignarnámsbætur

Kæruefni snerist um skattlagningu bóta fyrir missi veiðiréttinda en málavextir voru í aðalatriðum sem hér segir:

Með 86. gr. laga nr. 112/1941 var veiðieiganda veittur réttur til bóta, þá er hann missti veiði sína með öllu fyrir þá sök að lögin fyrirmunuðu honum að nota þá veiðiaðferð, sem hann áður mátti við koma. Bætur skyldi ákveða með mati. Ákvæði þetta var tekið upp í 108. gr. laga nr. 53/1957. En við meðferð stjórnarfrumvarpsins, sem lá til grundvallar þeim lögum var á alþingi skotið inn nýju ákvæði þar sem kveðið var á um bætur handa þeim veiðieigendum er urðu fyrir tjóni vegna þess að lögin telja til fastrar veiðivélar fjarlægð hennar frá bakka straumvatns, hvort sem girt er yfir allt svæðið eða ekki, en "þá skal þeim er í missir, bætt að fullu skv. mati það, sem er fram yfir 30% ..." Síðan voru fyrirmæli um útreikning og greiðslu bótanna. Með gerðardómi 29. sept. 1959 voru kæranda úrskurðaðar bætur skv. tilgreindu ákv. laga nr. 53/1957 eins og það taldist rétt skýrt með hliðsjón af 67. gr. stjórnarskrárinnar. Voru honum úrskurðaðar bætur árlega með hliðsjón af veiði hans undanfarin ár.

Árið 1973 fékk hann greiddar bætur fyrir árin 1965 - 69 samtals að upphæð kr. 560.000,-. Gerði kærandi grein fyrir þessari upphæð í G-lið framtalsins, en skattstjóri skattlagði hana að fullu með framtöldum tekjum ársins 1973.

Ágreiningur reis með skattþegni og skattyfirvöldum um það, hvort umrædd upphæð væri skattskyld og ef svo væri, hvort skattleggja bæri hana með öðrum tekjum ársins 1973 eða dreifa skattlagningunni á árin 1965 - 69.

Í kröfugerð ríkisskattstjóra segir m.a.:

"Telja verður að hér sé um bætur vegna tekjutaps að ræða, en ekki eignartjónsbætur sem greiddar eru í eitt skipti fyrir öll og vísast til 35. gr. laga nr. 53/1957 og eiga því ákvæði 4. tl. 20. gr. reglug. nr. 245/1963 ekki við."

Ríkisskattanefnd taldi hins vegar með tilliti til framangreindra málavaxta að um bætur þessar færi eftir ákvæðum 10. mgr. E-liðar 7. gr. laga nr. 68/1971 um eignarnámsbætur og væru þær því skattfrjálsar í þessu tilviki. Voru kröfur kæranda því teknar til greina.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja