Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 1218/1975

Gjaldár 1974

Lög nr. 68/1971, 7. gr. E-liður  

Íbúðarhæft húsnæði - Söluhagnaður

Málavextir voru þeir, að kærandi seldi á árinu 1974 húseign í Keflavík, sem hann hafði hafið byggingu á árið 1972. Skv. húsbyggingarskýrslu sem fylgdi skattframtali 1975 hafði kærandi lagt í húsið alls kr. 2.823.825,20, þar af nam eigin vinna seljanda kr. 455.000,-. Söluverð hússins var kr. 4.430.000,-.

Kærandi gaf skattstjóra svofellda lýsingu á húsinu.

"Húsið var fokhelt, í smíðum, búið að hlaða milliveggi og grófmúrhúða að innan.

Því fylgdu opnanleg fög, verksmiðjugler óísett, þrjár (3) útihurðir með körmum og fögum (2 bakhurðir og aðalhurð), ofnar við miðstöð, rörlagnaefni fyrir miðstöð og vatnslögn, hreinlætistæki f. gestasalerni og hreinlætis- og blöndunartæki í baðherbergi, eldavélarsett (ofn og hellur), ísskápur og vifta í eldhús og u.þ.b. 60 spónaplötur, sem voru hugsaðar til klæðningar í loft."

Skattstjóri hækkaði tekjur kæranda á framtali 1975 um söluhagnað kr. 1.516.175,- að frádregnum sölulaunum og kr. 455.000,- vegna eigin vinnu kæranda við byggingu hússins.

Skatthækkun þá sem af þessari hækkun tekna leiddi kærði kærandi og rökstuddi kröfur sínar þannig að hann hefði verið í greiðsluvandræðum og salan því þvinguð. Hann hefði verið búinn að kaupa flest eða allt til hússins til að gera það íbúðarhæft.

Þá benti hann á 10. gr. tekjuskattslaganna, þar sem fram kemur að eignarauki, sem stafar af því að fjármunir skattgreiðenda hækki í verði teljist ekki til tekna.

Ríkisskattanefnd úrskurðaði að "með því að húsið X telst ekki hafa verið íbúðarhæft, þegar það var selt, er söluhagnaðurinn skattskyldur skv. E-lið 7. gr. laga nr. 68/1971.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja