Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 287/1974

Gjaldár 1974

Lög nr. 68/1971, 9. gr.  

Varasjóður, óheimil ráðstöfun

Málavextir voru þeir, að í efnahagsreikningi kom fram að hlutafélag sem lagt hafði fé í varasjóð hafði lánað tveim starfsmönnum sínum, sem jafnframt voru hluthafar í félaginu, í reiðufé samtals kr. 867.437,- og var sú fjárhæð tekin til skattlagningar að viðbættu 20% álagi með vísan til 9. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt. Um lán þessi segir svo í kæru til skattstjóra:

"Þau lán, sem um er að ræða eru til:

1. X, sem í árslok 1970 nam kr. 267.437,-. Af láni þessu eru greiddar afborganir árlega kr. 24.000,-, en vextir eru reiknaðir árlega af láni þessu m.a. 1970 kr. 9.253,-.

2. Y, sem í árslok nam kr. 600.000,-. Þar af var skyndilán veitt í des. 1970 vegna viðskipta Y í hans eigin fyrirtæki kr. 500.000,-. Lán þetta endurgreiðir hann í janúar 1971, og eru reiknaðir vextir á hann vegna þess."

Af hálfu kæranda var byggt á því, að m.a. sé tilgangur félagsins skv. samþykktum þess að stunda útlánastarfsemi. Jafnframt eigi félagið allverulegar bankainnstæður og ekki sé óeðlilegt að reynt sé að ávaxta fé þess á einhvern þann hátt, sem fyrir sé mælt í stofnsamningi þess og samþykktum.

Í úrskurði ríkisskattanefndar segir:

"Þegar atvik málsins eru virt, þykir kærandi eigi hafa leitt nægilega í ljós, að lánveitingar þær, sem í málinu greinir, hafi ráðist af hagsmunum hans sjálfs, svo unnt sé að taka kröfu hans til greina að þessu leyti, enda hefir kærandi eigi sýnt fram á, að útlán peninga séu í reynd þáttur í starfsemi hans almennt. Sundurliðun sú á skuldum viðskiptamanna, sem kærandi hefir lagt fram, bendir til þess að þær innstæður sem þar greinir, séu til orðnar vegna vörukaupa viðskiptamanna hans. Þá þykir áðurgreint ákvæði um útlánastarfsemi í samþykktum kæranda eitt út af fyrir sig ekki ráða úrslitum um niðurstöðu málsins."

Voru kröfur kæranda því eigi teknar til greina.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja