Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 288/1974
Gjaldár 1972
Lög nr. 68/1971, 9. gr.
Varasjóður, óheimil ráðstöfun
Málavextir voru þeir, að félag nokkurt hafði myndað varasjóð að upphæð kr. 714.477,-. Meðal eigna félagsins þann 31.12.1971 voru taldir peningar í sjóði og banka kr. 846.853,-. Með bréfi dags. 13. okt. 1972 fór skattstjóri fram á að bankabækur yrðu sýndar á skattstofunni. Lagði kærandi þá fram reikningsútskrift yfir ávísanareikning félagsins, og reyndist inneign vera kr. 194.514,- þann 31.12.1971, en mismunurinn var sagður í vörslu framkvæmdastjórans. Skattstjóri taldi að um væri að ræða slíka ráðstöfun á fé varasjóðs að skattleggja bæri kæranda, félagið, af kr. 652.339,-, sem samsvaraði þeirri upphæð, sem var í vörslu framkvæmdastjórans, að viðbættu 20% álagi.
Kærandi byggði kröfur sínar á því, að hvorki framkvæmdastjórinn né eigendur hefðu fengið lán hjá félaginu og framkvæmdastjórinn gæti sýnt fram á, að peningar þessir væru í hans vörslu.
Í úrskurði ríkisskattanefndar segir, að við könnun skattrannsóknarstjóra hafi komið í ljós, að peningaeign félagsins hafi verið talin í vörslum eigenda þess, en ekki aðgreind frá eigin fé þeirra. Var úrskurður skattstjóra staðfestur