Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 293/1974

Gjaldár 1972

Lög nr. 68/1971, 9. gr. B-liður  

Varasjóður, úttekt af höfuðstól - Lagabreytingar - Afturvirkni laga

Á skattárinu 1971 nam úttekt eigenda af höfuðstóli sameignarfélags nokkurs, sem var kærandi í máli þessu kr. 1.800.000,-, en höfuðstóllinn var þ. 1. jan. 1971 kr. 6.967.858,-. Varasjóður félagsins var í ársbyrjun kr. 427.089.- og hækkaði skattstjóri skattgjaldstekjur kæranda gjaldárið 1972 um þá fjárhæð að viðbættu 20% álagi með vísan til B-liðs 9. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt eins og henni hafði verið breytt með 4. gr. laga nr. 7/1972. Þessum úrskurði áfrýjaði kærandi til ríkisskattanefndar.

Í úrskurði ríkisskattanefndar er fyrst rakið, að með 4. gr. laga nr. 7/1972 hafi það nýmæli komið í lög, að úttekt af höfuðstól í sameignarfélagi, sem sé meiri en svari til 10% ársvaxta af bókfærðu eigin fé félagsins teljist skattskyld ráðstöfun á fé varasjóðs. Þegar úttekt sú, sem hér var um að tefla fór fram, var slíkt ákvæði ekki í lögum, og var úrlausnarefnið því, hvort lög nr. 7/1972 tækju til slíkra ráðstafana sem gerðar voru á árinu 1971.

Ríkisskattanefnd taldi, að í máli þessu bæri að líta á það að skattlagning varasjóðsins væri sprottin af einstakri ráðstöfun kæranda, sem væri þess eðlis að ætla mætti að skattareglur þær, sem í gildi voru á þeim tíma er ráðstöfunin fór fram, hafi verið forsenda fyrir ákvörðun hans um úttektina. Þá er tekið fram að hin afturvirka lagagrein hafi aðeins snert lítinn hluta gjaldenda. Sé brýn þörf á að vernda hagsmuni gjaldenda í tilvikum sem þessum, enda eigi talið að sú niðurstaða sé andstæð rétti stjórnvalda og löggjafarvalds til að beita íþyngjandi afturvirkum fyrirmælum almennt. Voru kröfur kæranda því teknar til greina.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja