Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 1197/1975
Gjaldár 1974
Lög nr. 68/1971, 9. gr. A-liður B-liður
Varasjóður, óheimil ráðstöfun - Úttekt af höfuðstól eða lánveiting
Málavextir eru þeir, að sameignarfélag hafði fært í efnahagsreikning lán til stjórnarmanns og eins eiganda fyrirtækisins að upphæð kr. 392.671,-. Var sú upphæð færð félaginu til tekna með 20% álagi þar sem skattstjóri taldi vera um að ræða skattskylda ráðstöfun varasjóðs sbr. A-lið 9. gr. Kærandi, félagið, mótmælti þessari teknafærslu og taldi að raunverulega hefði verið um úttekt af höfuðstól að ræða, þrátt fyrir að upphæðin hafi verið færð sem lán í reikningum félagsins.
Í úrskurði ríkisskattanefndar segir:
"Svo sem í málinu greinir lítur kærandi sjálfur svo á, að um hafi verið að ræða úttekt eiganda af eign sinni í félaginu, enda þótt úttektin væri færð á viðskiptareikning hans í bókhaldi félagsins. Samkvæmt gögnum málsins nam úttektin kr. 392.671,- á árinu 1973, en skattskylt eigið fé félagsins var við árslok kr. 11.809.000,-. Ráðstöfun þessi telst ekki brjóta gegn ákvæðum 9. gr. laga nr. 68/1971."