Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 48/1974
Gjaldár 1971, 1972
Lög nr. 68/1971, 11. gr.
Leigubílstjórar, rekstrarkostnaður
Skattstjóri synjaði kæranda um frádrátt á stöðvargjaldi til bifreiðastöðvarinnar Hreyfils s.f. að fjárhæð kr. 22.200,- gjaldárið 1971 og kr. 19.000,- gjaldárið 1972. Skírskotaði skattstjóri til þess, að árið 1970 hefði kærandi enga bifreið átt né haft með höndum rekstur bifreiðar. Á árinu 1971 hefði bifreið aðeins verið rekin af kæranda í 2½ mánuð og frádráttur veittur í samræmi við það.
Í úrskurði ríkisskattanefndar segir, að kærandi hafi stundað leiguakstur hluta ársins 1969, engan 1970, hluta ársins 1971 og allt árið 1972. Þótt starfsemi kæranda hafi ekki verið óslitin beri að líta svo á, að afgreiðslugjöld þau sem hann færði á framtöl sín 1971 og 1972 séu svo nátengd tekjuöflun hans með leiguakstri að rétt sé að heimila þau til frádráttar.