Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 1229/1975

Gjaldár 1972, 1974

Lög nr. 68/1971, 11. gr.  

Frádráttur vegna aukastarfa

Ágreiningur var með kæranda og skattstjóra um ýmsa frádráttarliði vegna aukastarfa sem kærandi hafði með höndum, en hann var opinber starfsmaður. Námu tekjur af aukastörfum kr. 133.352,-, en helstu gjaldaliðir voru símkostnaður, ritföng, akstur og fyrning bifreiðar og hiti og rafmagn.

Ríkisskattanefnd leit svo á, að um væri að ræða greiðslu fyrir vinnu, þótt að einhverju leyti væru um greiðslu fyrir kostnað að ræða, en aukastörf kæranda voru fyrst og fremst eftirlits- og prófdómarastörf. Taldi hún hæfilegt að heimila honum frádrátt vegna þeirra að upphæð kr. 25.000,- árið 1972.

Árið 1974 var um svipuð kæruatriði að ræða, nema þá var meginhluti aukatekna, eða kr. 196.568,- vegna stundakennslu hjá Háskóla Íslands.

Um þessi kæruatriði segir ríkisskattanefnd:

"Meðan annað er eigi upplýst, verður að leggja það til grundvallar, að stundakennsla við Háskóla Íslands sé greidd eftir kjarasamningum ríkisins og opinberra starfsmanna og beri kæranda ekki frádráttur slíkur sem um er deilt í máli þessu, frá þeim tekjum. Aðrar aukatekjur kæranda þykja ekki það verulegar, að líklegt megi telja, að þeirra vegna hafi hann haft aukakostnað svo nokkru nemi jafnframt því sem fullnægjandi grein hefur ekki verið gerð fyrir frádráttarliðunum."

Var kröfu kæranda um frádrátt vegna þessara aukatekna því synjað.

Af hálfu kæranda var einnig farið fram á frádrátt skv. 3. gr. 3. mgr. vegna þátttöku eiginkonu í öflun teknanna og var sú krafa ekki heldur tekin til greina.

Sjá einnig 12. gr. C og 41. gr.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja