Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 891/1974
Gjaldár 1972
Lög nr. 68/1971, 11. gr.
Rekstrarkostnaður, húsaleiga
Meðal kæruatriða var krafa um að fá húsaleigu vegna aukastarfa heima við dregna frá skatti.
Segir svo um það atriði í úrskurði ríkisskattanefndar:
"Kærandi kveðst reka skrifstofu í íbúðarhúsnæði sínu vegna aukastarfa sinna. Eigi liggur ljóst fyrir hve mikill hluti skrifstofan er af heildaríbúðarhúsnæði kæranda, en hann gjaldfærði húsaleigu kr. 9.000,- fyrir þetta skrifstofuhúsnæði. Samsvarar það um 14,8% af tekjufærðri eigin húsaleigu kæranda. Samkvæmt upplýsingum frá byggingarfulltrúa Garðahrepps er íbúðarhúsnæði kæranda 770 m3 eða 238 m2. Sami aðili hefur einnig upplýst, að forstofuherbergi hússins sé um 12 m2 eða um 5% af íbúðarhúsnæðinu. Sé gert ráð fyrir, að það herbergi sé notað undir skrifstofu, þykir eigi mega fallast á hærri húsaleigufrádrátt en kr. 3.000,00 sbr. 11. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt."