Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 1182/1975

Gjaldár 1974

Lög nr. 68/1971, 11. gr. B-liður, 15. gr. D-liður  

Tapsfrádráttur - Flýtifyrning

Málsatvik eru þau, að kærandi keypti m/b RB hinn 28. sept. 1972 og seldi bátinn 2. febr. 1973 með 2.345.931,00 króna hagnaði. Til frádráttar á söluhagnaði færði kærandi kr. 1.752.848,00, sem hann kvað vera þátttöku í útgerðarkostnaði bátsins á árunum 1971 og 1972 og eigi hefði fengist greiddur hjá þáverandi eiganda bátsins og hafi kærandi síðan keypt bátinn á nauðungaruppboði.

Skattstjóri taldi að fyrri viðskipti kæranda við seljanda bátsins væru óviðkomandi skattskyldum söluhagnaði af bátnum og reiknaði kæranda til tekna umræddar kr. 1.752.848,00 gjaldárið 1974.

Úrskurði þessum vildi kærandi ekki una og krafðist, að tapaðir útistandandi skuldir kr. 1.752.848,00 sem til var stofnað vegna eigin atvinnurekstrar, yrðu veittar til frádráttar. Vilji ríkisskattanefnd hins vegar ekki taka þessa kröfu til greina, er gerð sú varakrafa, að skattskyldur hagnaður vegna sölu m/b RB færist sem flýtifyrning á nýkeypta eign m/b H sbr. síðustu mgr. D-liðar 15. gr. laga nr. 68/1971. Teljist þessi eign ekki hæf til slíkrar flýtifyrningar krafðist kærandi, að skattlagningu á söluhagnaði yrði frestað, samkvæmt ákvæðum 10. mgr. E-liðar 7. gr. laga nr. 68/1971.

Af hálfu ríkisskattstjóra var fallist á að heimiluð yrði sérstök fyrning skv. D-lið 15. gr. laga nr. 68/1971 jafnhá skattskyldum hluta söluhagnaðar.

Í úrskurði ríkisskattanefndar segir:

"Eins og atvik máls þessa liggja fyrir, skiptir ekki máli hvort talið er, að hin umdeilda fjárhæð kr. 1.752.848,00 sé í skattalegu tilliti skoðuð sem hluti kaupverðs skipsins eða útistandandi skuld, enda stafar hún beinlínis af atvinnurekstri kæranda. Hvort heldur er, er hún í þessu tilviki frádráttarbær, annaðhvort sem hluti kaupverðsins eða eftir B-lið 11. gr. skattalaganna."

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja