Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 1213/1975
Gjaldár 1974
Lög nr. 8/1972
Aðstöðugjald
Kærandi, verktakafélag, sem hafði atvinnustarfsemi víða um land var gert að greiða aðstöðugjald til A-hrepps að fjárhæð kr. 500.000,-, en það var 1% miðað við áætlaðan gjaldstofn, enda hafði fyrirtækið ekki talið fram til aðstöðugjaldsálagningar í hreppnum. Gerði kærandi þá aðalkröfu að aðstöðugjaldið væri fellt niður, en til vara að það væri dregið frá álögðu aðstöðugjaldi í Reykjavík, en þar var kæranda gert að greiða kr. 3.795.700,- í aðstöðugjald sama ár. Af hálfu ríkisskattstjóra var fallist á varakröfu kæranda.
Í úrskurði ríkisskattanefndar segir:
"A" skattári því, sem hér um ræðir, fór starfsemi kæranda fram í ýmsum sveitarfélögum á landinu án þess að séð verði, að hann hafi haft aðalatvinnurekstur sinn í einhverju þeirra. Þykir því með tilvísun til 1. málsl. 1. mgr. 40. gr. laga nr. 8/1972 bera að telja hann aðstöðugjaldsskyldan í heimilissveit sinni. Ekki hefir verið leitt í ljós, að starfsemi kæranda í A-hreppi hafi á skattárinu verið með þeim hætti, að um sé að ræða heimilisfasta atvinnustofnun eða útibú hans þar eftir A-lið 40. gr. áðurgreindra laga."