Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 908/1974
Gjaldár 1973
Lög nr. 8/1972, 23. gr.
Tvíþætt starfsemi
Kærandi, sem er atvinnurekandi, hafði með höndum rekstur tveggja óskyldra starfsgreina á árinu 1972, þ.e.a.s. útgerð og gatnagerð. Útgerðin sýndi halla en gatnagerðin hagnað. Heildartap kæranda af atvinnurekstri hans á árinu 1972 nam kr. 2.144.507,37.
Skattstjóri taldi, að við ákvörðun tekna til útsvars bæri að aðgreina þessar óskyldu starfsgreinar og reiknaði kæranda útsvar af hreinum tekjum hans af gatnagerðinni.
Þessum úrskurði vildi kærandi ekki una og krafðist, að rekstrarreikningur kæranda fyrir sjálfstæðan atvinnurekstur hans á árinu 1972, skoðaðist sem heild með tilliti til útsvarsálagningar.
Í umsögn ríkisskattstjóra sagði, að líta bæri á starfsemi kæranda í heild og bæri að miða tekjur til útsvars við lokaniðurstöðu af rekstri kæranda.
Ríkisskattanefnd taldi, að taka bæri kröfu kæranda til greina með heimild í 2. mgr. 23. gr. laga nr. 8/1972 sbr. A-lið 11. gr. laga nr. 68/1971 og 4. tl. 7. gr. laga nr. 7/1972.