Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 359/1975
Gjaldár 1974
Lög nr. 10/1960
Söluskattur
Málavextir eru þeir, að sex einstaklingar efndu til sýningar á ljósmyndum á Kjarvalsstöðum árið 1973. Skattstjóri taldi sölu þeirra á ljósmyndum söluskattsskylda og gerði þeim sameiginlega söluskatt undir sérstöku firmanafni. Kærði kærandi, einn sexmenninganna, eftirfarandi kröfur að því tilefni:
1. Að álagður söluskattur ásamt viðurlögum og dráttarvöxtum samtals kr. 20.912,- væri felldur niður.
2. Til vara var þess krafist, að söluskattur verði aðeins lagður á sölu eftirprentana á sýningunni að fjárhæð kr. 58.000,- að frádregnum sannanlegum útlögðum kostnaði kr. 24.000,- sem söluskattur hafi verið greiddur af.
3. Þá var farið fram á, að 10% viðurlög kr. 16.500,- á söluskattsstofn verði felld niður.
Til stuðnings þessum kröfum var bent á, að skv. 9. tölulið 1. mgr. 7. gr. laga um söluskatt nr. 10/1960 sé sala listamanna á eigin verkum undanþegin söluskatti og hafi hússtjórn Kjarvalsstaða leigt þeim húsið á svonefndum listamannataxta. Sýning sú, sem hér um ræðir hafi verið listsýning og myndirnar listaverk, sem hver um sig hafi verið unnin af viðkomandi höfundi. Enginn þeirra félaga hafi iðnréttindi sem ljósmyndari.
Í úrskurði ríkisskattanefndar segir:
"Upplýst er í málinu, að sex einstaklingar stóðu að ljósmyndasýningu þeirri, er hér um ræðir. Eigi verður séð, að þeir hafi bundist samtökum um ljósmyndagerð í atvinnuskyni. Heldur að hér hafi verið um tómstundastarf að ræða. Með hliðsjón af þessu og með tilvísun til 2. mgr. 2. gr. laga nr. 10/1960 um söluskatt þykir mega fella niður álagðan söluskatt 1973 ásamt viðurlögum og dráttarvöxtum samtals kr. 20.912,-."