Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 755/1973
Gjaldár 1972
Tekjur eiginkonu
„Kærandi færði til frádráttar á framtali sínu undir liðnum „50% af launatekjum konu“ kr. 345.800,00, en sú fjárhæð nam sem næst helmingi tekjuafgangs af læknisstofu eiginkonu kæranda.
Skattstjóri lækkaði frádrátt þennan í kr. 55.000,00 með þeim rökum, að frádráttur vegna umræddrar starfsemi félli undir 3. gr. 3. mgr. laga um tekjuskatt og eignarskatt. Kærandi krafðist frá-dráttar eins og hann var færður á framtalinu.
Af hálfu ríkisskattstjóra var krafist staðfestingar á úrskurði skattstjóra.
Af gögnum málsins (rekstrarreikningi með framtalinu) má sjá, að aðaltekjur læknisstofunnar eru frá 5 þar greindum sjúkrasamlögum. Tekjur þessar renna eigi alfarið til læknisins, sem þóknun fyrir vinnu, heldur jafnframt til greiðslu kostnaðar við rekstur læknisstofunnar. Þykir því verða að líta svo á, að eigi sé um að ræða tekjur fyrir beina vinnusölu samkvæmt vinnusamningi, heldur tekjur af sjálfstæðri atvinnustarfsemi. Á þann hátt er einnig á málið litið við álagningu annarra gjalda en tekjuskatts t.d. launaskatts samkvæmt lögum nr. 14/1965 og iðgjalda til almannatrygginga samkvæmt lögum nr. 40/1963. Þar sem eigi er einvörðungu um að ræða sölu á vinnu, en 2. mgr. 3. gr. laga nr. 68/1971, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 7/1972 telst aðeins taka til seldrar vinnu samkvæmt vinnusamningi, enda um undanþágureglu að tefla, þá er frádrátturinn réttilega ákvarðaður af skattstjóra eftir 3. mgr. áðurnefndrar 3. gr. laganna. Þótt þessi niðurstaða kunni að leiða til mismununar eftir því, hvort konan stundar sjálfstæða atvinnu (starfsemi) eða vinnur sem launþegi í annarra þjónustu, þá telur ríkisskattanefnd eigi heimild til að víkja frá hinni fortakslausu reglu um hámark frádráttarins í 3. mgr. greinarinnar.“