Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 1166/1973

Gjaldár 1972

Lög nr. 68/1971, 3. gr.  

Tekjur eiginkonu

Málavextir eru þeir, að eiginkona kæranda hafði á hendi umboðssölu fyrir Happdrætti Háskóla Íslands og Happdrætti DAS. Gerði kærandi kröfu til þess að veittur væri 50% frádráttur vegna þessara starfa konu hans, skv. 2. mgr. 3. gr. tekjuskattslaganna. Þá gerði hann kröfu til þess að ferðakostnaður vegna þessara starfa væri tekinn til greina.

Ríkisskattanefnd leit svo á, að umboðsstarfsemi sú, sem um var að ræða, félli undir 3. mgr. 3. gr., enda beri að skýra orðin „fyrirtæki eða félag“ það rúmt, að það taki til hvers konar sjálfstæðrar starfsemi. Taldi hún að kærandi hefði ekki sýnt fram á, að umboðsstörfin væru unnin skv. vinnusamningi. Taldist því frádrátturinn vera háður takmörkunum 3. mgr. og úrskurður skattstjóra staðfestur að þessu leyti.

Þá staðfesti ríkisskattanefnd einnig úrskurð skattstjóra um synjun á frádrætti ferðakostnaðar milli heimilis og vinnustaðar.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja