Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 1129/1973

Gjaldár 1972

Lög nr. 68/1971, 7. gr. E-liður  

Söluhagnaður íbúðarhúsnæðis - Afturvirkni laga

Málavextir eru þeir, að á árinu 1968 hóf kærandi byggingu íbúðarhúss í Garðahreppi. Með afsali dags. 15.3.1971 seldi hann húsið fyrir kr. 1.000.000,00. Skv. húsbyggingarskýrslu með framtali 1972 nam byggingarkostnaður þess kr. 701.412,00 er sala fór fram. Mismunurinn kr. 298.588,00 var með bréfi dags. 14. febr. 1973 færður kæranda til tekna sem söluhagnaður og tekjuskattur hans og tekjuútsvar hækkað til samræmis við það. Árið 1971 keypti kærandi íbúð í Reykjavik í fokheldu ástandi og er afsal eignarinnar dags. 28.9.1971. Eigi var talin ástæða til að ætla, miðað við stærð fasteignanna og matsreglur í Garðahreppi og Reykjavik, að mat hinnar síðar keyptu eignar yrði lægra en íbúðarhússins í Garðahreppi. Framangreinda teknaviðbót vegna söluhagnaðar kærði kærandi til niðurfellingar.

Er sala sú, sem skattlagningin byggðist á, fór fram, voru í gildi ákvæði 2. mgr. E-liðar 7. gr. laga nr. 90/1965, en skv. þeim var hagnaður af sölu fasteignar skattskyldur, ef hið selda hafði verið í eigu seljanda skemur en fimm ár og hann keypti ekki aðra fasteign innan árs eða byggði hús innan þriggja ára, sem að fasteignamati væri jafnhátt eða hærra hinu selda. Ákvæði þetta var fellt úr gildi með 4. gr. laga nr. 30/1971, sem skyldi koma til framkvæmda við álagningu skatta til ríkissjóðs fyrir skattárið 1971. Skattlagning söluhagnaðarins myndi skv. því byggjast á 3. mgr. E-liðar 7. gr. laga nr. 68/1971, en ákvæði 4. tl. 3. gr. laga nr. 7/1972 þóttu ekki skipta máli, þar sem ágreiningslaust var, að húsið í Garðahreppi var ekki íbúðarhæft er sala þess fór fram.

Í úrskurði ríkisskattanefndar segir svo:

„Í máli þessu er á það að líta, að söluhagnaðurinn er sprottinn af einstakri ráðstöfun kæranda, sem er þannig háttað að ætla má, að skattareglur þær sem giltu á þeim tíma, er salan fór fram, hafi verið forsenda fyrir ákvörðun hans um söluna. Ennfremur ber að hafa í huga, að afturvirkar íþyngjandi ráðstafanir af því tagi, sem hér um ræðir, snerta aðeins mjög lítinn hluta gjaldenda. Þegar þetta er virt þykir brýn þörf að vernda hagsmuni gjaldandans í tilvikum sem þessum, enda eigi talið að sú niðurstaða sé andstæð rétti löggjafarvalds og stjórnvalda til að beita íþyngjandi afturvirkum fyrirmælum almennt. Ber því að taka kröfu kæranda til greina.“

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja