Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 896/1973
Gjaldár 1972
Lög nr. 68/1971, 7. gr. E-liður
Söluhagnaður búfjár
Málavextir eru þeir, að kærandi, sem rak búskap í nágrenni Reykjavíkur, seldi hluta bústofns síns, 8 kýr, fyrir kr. 200.000,00. Með þessari sölu hætti hann kúabúskap, en aðalástæðuna fyrir því kvað hann þá, að þörf hafi verið dýrra framkvæmda á jörðinni, sem hann hefði ekki treyst sér í. Gripina seldi hann til lífs.
Skattstjóri færði söluverð seldra gripa kæranda til tekna. Þá teknafærslu kærði kærandi til niðurfellingar með vísan til 7. gr. E-liðar laga um tekjuskatt og eignarskatt.
Ríkisskattstjóri krafðist staðfestingar á úrskurði skattstjóra með vísan til 17. gr. reglug. nr. 245/1963.
Í úrskurði ríkisskattanefndar segir:
„Bústofni þeim, er í málinu greinir, verður ekki jafnað til þeirra verðmæta, sem aflað er í því skyni að selja aftur, svo sem verslunarvara, hráefna til iðnaðar o.s.frv. Þykir hann eðlislíkari þeim fjármunum, sem notaðir eru við stöðugan rekstur í fyrirtæki. Telst því eigi öruggt, að 9. mgr. E-liðar 7. gr. laga nr. 68/1971 taki til sölu gripanna eins og á stóð. Fer því um hana eftir 2. mgr. sama liðar. Með því, að upplýst er, að kærandi átti kýr þessar 2 síðustu árin fyrir söluna, ber að taka kröfu hans til greina með því að fella andvirði þeirra undan skattlagningu.“