Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 899/1973

Gjaldár 1972

Lög nr. 68/1971, 7. gr. E-liður  

Söluhagnaður búfjár

Úrskurður ríkisskattanefndar er svohljóðandi:

„Kærandi, sem er fæddur 4.5.1896, hætti búskap 1971 og gerðist vistmaður á Elliheimili Akureyrar. Afhenti hann 2 dætrum sínum jörð sína, en seldi öðrum vandamönnum sínum búfé sitt að mestu, sem var 10 kýr, 52 ær auk nokkurra fleiri gripa.

Söluverð búfjárins er samkvæmt landbúnaðarskýrslu kr. 460.000,00

- skattmat sömu gripa........................................................................................ - 214.100,00

Tekjur af sölunni .............................................................. kr. 245.900,00

Þessi fjárhæð var reiknuð kæranda til skattskyldra tekna. Hreinar tekjur hans voru ákveðnar kr. 653.000,00 og tekjuskattur kr. 176.113,00.

Kærandi vill ekki una þessari álagningu og krefst þess, að hún verði lækkuð til mikilla muna.

Af hálfu ríkisskattstjóra er krafist staðfestingar á úrskurði skattstjóra.

Kærandi mótmælir skattlagningu fyrrnefnds söluhagnaðar. Kveður hann þessa framkvæmd skattalaga vafasama og ekki réttláta. Eftir sínum skilningi sé bústofninn samanspöruð eign á mörgum árum eða áratugum, en ekki verslunarvara eða happdrættisgróði. Hann sé í eðli sínu ekki ætlaður til sölu. Sölu búfjár eins og átt hafi sér stað í þessu máli, telur hann ekki vera tekjuöflun, heldur eignaskipti. Hann kveðst ekki hafa haft möguleika á að annast þessa eign og viðhalda henni og því orðið að skipta á henni og öðrum eignum, sem voru honum nýtari og viðráðanlegri. Bendir hann í því sambandi á, að hann sé orðinn aldraður maður og ekki heilsusterkur. Kona sín sé fötluð vegna slyss og ófær til allra verka. Hafi því ekki annað verið fyrir þau að gera, en fá sér vist á elliheimili.

Af hálfu ríkisskattstjóra er því haldið fram, að sala á búfé bónda, sem bregði búi á venjulegan hátt sé lokastig í búrekstri hans og beri að telja fullt söluverð sem skattskyldar tekjur, en til frádráttar komi bústofnsskerðing. Hafi sá háttur jafnan verið á hafður. Skipti því ekki máli, hve lengi bóndinn hafi átt hvern hinna seldu gripa. Atvik að bústofnssölu við lok búrekstrar geti þó verið með þeim hætti, að hagnaður teljist ekki til skattskyldra tekna og vísar hann í því sambandi til dóms Hæstaréttar, XXX. bindi, bls 486 -487. Hins vegar telur hann, að eins og kærumáli þessu sé varið, sé ekki unnt að hafa hliðsjón af nefndum dómi við úrlausn þess.

Kærandi var 75 ára að aldri, þegar hann seldi bústofn þann, sem málið snýst um. Er ljóst, að aldur hans og aðrar þær ástæður, sem greindar voru hér að framan, hafa valdið því, að hann hætti búskap. Lét hann af hendi nær allan bústofninn og jörðina nær samtímis. Bústofninum verður í þessu tilviki ekki jafnað til þeirra verðmæta, sem aflað er í því skyni að selja aftur, svo sem verslunarvara, hráefna til iðnaðar o.s.frv. Þykir hann eðlislíkari þeim fjármunum, sem notaðir eru við stöðugan rekstur í fyrirtæki. Telst því eigi öruggt að 9. mgr. E-liðar 7. gr. laga nr. 68/1971 taki til sölu gripanna eins og á stóð. Fer því um hana eftir 2. mgr. sama liðar. Af framtölum kæranda má sjá, að aðeins óverulegar breytingar hafa orðið á bústofni hans á næstu 2 árum fyrir sölu, en hann hefir ekki gert frekari grein fyrir þeim í málflutningi sínum né heldur söluverði þeirra gripa, sem hann hafði átt skemmri tíma en 2 ár.

Ber því að áætla söluhagnað af þeim gripum.

Þegar á allt þetta er litið þykir bera að taka kröfu hans til greina þannig að hreinar tekjur lækki um kr. 220.000,00.“

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja