Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 1187/1973
Gjaldár 1971
Lög nr. 68/1971, 9. gr.
Varasjóður sameignarfélags
Kærandi var sameignarfélag tveggja manna, sem rak verkfræðistofu í Reykjavik. Á eignahlið efnahagsreiknings hinn 31.12.1970 var eignarliðurinn útistandandi skuldir. Þar voru skuldir eigenda við félagið taldar kr. 360.049,00. Í sama efnahagsreikningi var höfuðstóll félagsins talinn kr. 727.473,47 og varasjóður kr. 570.400,00.
Við álagningu tekjuskatts og útsvars gjaldárið 1971 bætti skattstjóri við framtaldar tekjur kr. 360.049,40 ásamt 20% viðbót kr. 72.009,88. Taldi skattstjóri, að með fyrrnefndum útlánum til eigenda félagsins væri verið að ráðstafa hluta af hinum skattfrjálsa varasjóði þess. Bæri því að skattleggja þann hluta varasjóðsins með 20% viðbót með tilvísun til 9. gr. laga nr. 90/1965.
Þessu mótmælti umboðsmaður kæranda. Taldi hann, að hvergi væri að finna í lögum heimild til að leggja tekjuskatt eða tekjuútsvar á fjárhæðir þær, sem eigendur sameignarfélaga tækju út af eigin fé sínu í félaginu. Þvert á móti sé það tekið fram í C-lið 10. gr. laga nr. 90/1965, um tekjuskatt og eignarskatt, að eyðsla höfuðstóls teljist ekki til tekna.
Í úrskurði ríkisskattanefndar segir m.a.:
„Samkvæmt fyrrnefndum efnahagsreikningi nam bókfærð úttekt eigenda af höfuðstól félagsins á árinu 1970, kr. 600.000,00 og höfuðstólsfjárhæðin í árslok kr. 727.473,47. Þótt bókfærð útlán kr. 360.049,40 til eigenda hefðu verið færð sem úttekt af höfuðstól félagsins, hefði höfuðstóllinn samt numið kr. 367.424,07 í árslok 1970 og varasjóðurinn verið óskertur.
Eins og málinu er háttað, þykja úrslit þess ekki velta á því, hvort greiðslur til eigenda félagsins væru færðar á viðskiptareikninga þeirra í bókhaldi þess, enda nam skattlagt eigið fé þess við árslok mun hærri fjárhæð en úttektir þessar. 9. gr. laga nr. 90/1965 telst því eigi veita örugga heimild til að telja, að um sé að ræða skattskylda ráðstöfun á varasjóði.
Ber því að taka kröfu kæranda til greina.“