Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 779/1973

Gjaldár 1973

Lög nr. 68/1971, 9. gr., 11. gr. B-liður  

Skattlagning varasjóðs - Tap yfirfært

Málavextir eru þeir, að hlutafélag nokkurt var tekið til skilanefndarmeðferðar árið 1972. Félagið hafði lagt skattfrjálst í varasjóð og nam hann við félagsslit kr. 592.653,00. Umboðsmaður félagsins taldi að það ætti að fá til jöfnunar ofangreindum varasjóði ónotuð rekstrartöp félagsins frá árunum 1968 - 1971, samtals að fjárhæð kr. 848.963,00. Skattstjóri hafði hins vegar skattlagt varasjóðinn með 20% álagi og var sá úrskurður kærður til ríkisskattanefndar.

Í úrskurði ríkisskattanefndar segir:

„Samkvæmt því, sem upplýst hefir verið í málinu, var tilgangur félagsins að reka frystihús, fiskiðnað og aðra starfsemi í því sambandi. Fyrir allmörgum árum eða eigi síðar en á árinu 1964 hafði félagið lagt þessa starfrækslu niður og selt eignir sínar. Voru eignir félagsins eftir það innstæður í bönkum, skuldabréf auk bifreiðar. Við félagsslitin námu bankainnstæðurnar ca. 6,6 millj. kr. og veðskuldabréf kr. 456.000,00.

Kærandi styður kröfu sína við 2. mgr. B-liðar 11. gr. laga nr. 68/1971, en þar segir m.a., að tap, sem verði á atvinnurekstri félaga eða einstaklinga, megi flytja milli ára um fimm áramót og draga frá skattskyldum tekjum þar til það þannig sé að fullu jafnað.

Eins og fyrr greindi lauk eiginlegum atvinnurekstri félagsins fyrir alllöngu. Síðan hefir verkefni þess eingöngu verið fólgið í ávöxtun þess fjár, er því hafði safnast. Fór hún í æ ríkara mæli fram með þeim hætti, að féð var látið liggja á sparifjárreikningum í innlánsstofnunum. Ekki verður séð af framtölum þess, að félagið hafi keypt eða selt verðbréf eða stundað slíka starfsemi. Hafði félagið á þeim tíma, er hér skiptir máli, ekki aðrar tekjur en vexti af þessum eignum.

Með því að eigi verður talið, að ávöxtun fjár með þeim hætti er að framan greinir, falli undir „atvinnurekstur“ í merkingu 2.mgr. B-liðar 11. gr. laga nr. 68/1971, þykir bera að synja kröfu kæranda og staðfesta úrskurð skattstjóra að niðurstöðu til.“

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja