Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 1127/1973
Gjaldár 1972
Lög nr. 68/1971, 11. gr., 15. gr. D-liður
Opinber gjöld - Flýtifyrning
Málavextir eru þeir, að kærandi færði til frádráttar á framtali 1972 álagt aðstöðugjald 1971 kr. 634.000,00 og áætlaði aðstöðugjald skattárið 1971 kr. 514.000,00 og gerði þannig kröfu til frádráttar á aðstöðugjaldi tveggja ára á framtali 1972. Einnig færði kærandi til gjalda kr. 5.200.000,00 sem flýtifyrningu, en upphæð þessi var greiðsla inn á nýsmíði skips.
Skattstjóri synjaði kæranda um frádrátt þessara gjaldaliða og af hálfu ríkisskattstjóra var krafist staðfestingar á úrskurði skattstjóra.
Fallist var á þá kröfu kæranda með vísun til 11. gr. A-liðar og 19. gr. laga nr. 68/1971, að aðstöðugjald vegna skattársins 1971 væri frádráttarbært frá tekjum þess árs og var að því leyti fallist á kröfur kæranda, enda var verið að breyta um framtalsvenju að þessu leyti.
Hins vegar sagði í úrskurði ríkisskattanefndar, að samkvæmt 6. tl. 7. gr. laga nr. 7/1972 ætti krafa kæranda um frádrátt flýtifyrningar sér ekki lagastoð og slík heimild hefði ekki heldur verið í lögum árið 1970 þá er samningurinn um nýsmíðina var gerður og greiðsla samkvæmt honum innt af hendi. Var kröfu kæranda um þetta atriði því hafnað.