Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 39/1990
Gjaldár 1988
Lög nr. 14/1965 — 2. gr. 3. mgr. Lög nr. 62/1969 Lög nr. 42/1978 Lög nr. 75/1981 — 106. gr. 1. mgr. Reglugerð nr. 151/1986 — 11. gr.
Launaskattur — Launaskattsskylda — Iðnaður — Prentiðnaður — Fjölritun — Atvinnuvegaflokkun Hagstofu Íslands — Hagstofa Íslands, atvinnuvegaflokkun — Síðbúin framtalsskil — Álag — Álag vegna síðbúinna framtalsskila — Valdsvið skattstjóra — Valdþurrð — Valdþurrð skattstjóra — Fyrirtækjaskrá
Kæruatriði eru sem hér greinir:
1. Kærð er sú ákvörðun skattstjóra að bæta 25% álagi á gjaldstofna vegna síðbúinna framtalsskila en skattstjóra barst skattframtal kæranda árið 1988 í kærufresti eftir álagningu opinberra gjalda það ár. Er þess krafist að álagið verði fellt niður með tilliti til þeirra ástæðna fyrir síðbúnum framtalsskilum sem frá er greint í kærunni til ríkisskattanefndar.
2. Í öðru lagi er kærð sú ákvörðun skattstjóra að telja starfsemi kæranda heyra undir atvinnugrein nr. 844 í atvinnuvegaflokkun Hagstofu Íslands í stað atvinnugrein nr. 281, og leggja launaskatt á kæranda í samræmi við það. Er þess krafist að þessi ákvörðun skattstjóra verði felld úr gildi. Til stuðnings þeirri kröfu sinni gerir kærandi grein fyrir starfsemi sinni og leggur fram vottorð Hagstofu Íslands um flokkun í atvinnugrein nr. 281, vottorð Félags íslenska prentiðnaðarins um starfsemi kæranda og vottorð bæjarfógetans á X um að þann 21. maí 1985 hafi kæranda verið veitt iðjuleyfi skv. 3. gr. iðnaðarlaga nr. 42/1978.
Með bréfi, dags. 8. desember 1989, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í máli þessu fyrir hönd gjaldkrefjenda:
„a. Að álagsbeiting skattstjóra verði staðfest með vísan til forsendna hans.
b. Krafist er staðfestingar á úrskurði skattstjóra um launaskattsskyldu. Ekki er á það fallist að starfsemi kæranda hafi á árinu 1987 verið prentiðnaður og þykir bréf frá Félagi íslenska prentiðnaðarins, dags. 4. nóv. 1988, engu fá breytt þar um í þessu tilviki. Samkvæmt fyrningarskýrslu fyrir árið 1987 er helsti rekstrarfjármunur kæranda fjölritunarvél og er ekki unnt að sjá af þeirri skýrslu að prenttæki sem upp eru talin í fyrrnefndu bréfi FÍP hafi verið til staðar á rekstrarárinu 1987.“
Um 1. Eftir atvikum er fallist á kröfu kæranda um niðurfellingu álagsins.
Um 2. Eigi var það á valdi skattstjóra að breyta flokkun Hagstofu Íslands á starfsemi kæranda undir atvinnugrein nr. 281. Með þessari athugasemd er fallist á kröfu kæranda undir þessum kærulið.