Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 275/1973
Gjaldár 1971
Lög nr. 68/1971, 14. gr
Sjómannafrádráttur
Kærandi krafðist sjómannafrádráttar þann tíma er hann dvaldi erlendis við umsjón og smíði m.s. B.S. Taldi kærandi að hann ætti rétt á umræddum frádrætti, þar sem hann hefði verið lögskráður á skipið þennan tíma, slysatryggingariðgjöld hefðu verið greidd fyrir tímabilið og einnig vísaði hann til venju um það, að eftirlitsstörf vélstjóra vegna smíði nýrra skipa hefðu alltaf verið talin sjómannastörf.
Í úrskurði ríkisskattanefndar er vitnað í lög nr. 63, 29.3. 1961 um lögskráningu sjómanna. Í 7. gr. laganna eru rakin þau gögn, sem skipstjóra ber að afhenda lögskráningarstjóra við lögskráningu í skiprúm, svo sem mælingarbréf skipsins og haffærisskírteini. Samkvæmt 20. gr. laganna, skal lögskráningarstjóri gæta þess, að skilríki þau öll, sem nefnd eru í 7. gr. séu fyrir hendi er lögskráð er.
Síðan segir í úrskurði ríkisskattanefndar:
„Telja verður að brostið hafi lagaskilyrði til lögskráningar kæranda á fyrrnefnt skip svo sem raun varð á, þ.e. sem I. vélstjóri, þegar hinn 20. júlí 1970, sbr. vottorð lögskráningarstjóra í Reykjavík. Ennfremur verður eigi talið að störf kæranda við smíði þessa skips hafi verið þess eðlis, eða unnin við slíkar aðstæður, að hann eigi rétt á frádrætti samkvæmt 14. gr. skattalaga.
Rétt þykir hins vegar að heimila kæranda hlífðarfatafrádrátt samkvæmt reglum 1. mgr. 14. gr. skattalaga, þ.e. frá 4. des. 1970, en þann dag var skipið talið fullsmíðað og afhent eiganda.“