Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 1285/1973

Gjaldár 1970

Lög nr. 68/1971, 15. gr.  

Fyrning - Fyrnanleg eign

Málavextir eru þeir að kærandi seldi síldarnót á kr. 800.000,00. Færði skattstjóri kæranda upphæðina til tekna, en kærandi krafðist þess að þessi tekjuliður væri felldur af framtalinu. Studdi hann kröfu sína þeim rökum, að nót sú, er málið snýst um, hafi verið í sinni eigu í full þrjú ár. Sé því hagnaður af sölu hennar skattfrjáls eins og af öðru lausafé. Hún hafi og verið færð sem sérstakur eignarliður í ársreikningum og afskrifuð árlega.

Af gögnum málsins má sjá, að greind síldarnót er fyrst talin til eignar í ársreikningum kæranda fyrir skattárið 1966. Er hún talin þar á kostnaðarverði kr. 1.200.000,00 og afskrifuð um kr. 600.000,00. Skattárið 1967 er hún síðan afskrifuð um kr. 450.000,00 og eftirstöðvar bókfærðs verðs hennar að fullu afskrifaðar á árinu 1968.

Í úrskurði ríkisskattanefndar segir:

„Á það má fallast með kæranda, að nótin var sérgreint tæki en eigi hluti birgða, með endingartíma, sem náði yfir nokkur ár. Er hún því annars eðlis en verðmæti þau, sem talin eru í A-lið 27. og 22. gr. reglugerðar nr. 245/1963 sbr. 5. mgr. D-liðar 57. gr. sömu reglugerðar, en þar eru talin ýmis rekstraraðföng, sem ýmist eyðast við notkun eða hafa mjög skamman endingartíma. Var kæranda því heimilt að fyrna hana samkvæmt 28. gr. áðurnefndrar reglugerðar, enda er litið svo á, að upptalning greinarinnar sé ekki tæmandi. Hins vegar telst kærandi hafa fyrnt nótina meira en efni stóðu til og eigi skeytt ákvæðum greinarinnar um að fylgja sömu reglu um fyrningu frá ári til árs eða um niðurlagsverð, sbr. 1. og 3. mgr. Ber því að skoða nokkurn hluta söluverðsins sem endurgreiðslu á offærðum fyrningum. Þykir sú fjárhæð hæfilega metin kr. 480.000,- og er þá miðað við að nótin við söludag hafi verið fyrnd um 60% af kostnaðarverði. Samkvæmt þessari niðurstöðu lækkar tekjuviðbót skattstjóra úr kr. 800.000, í kr. 480.000,00.“

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja