Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 780/1973
Gjaldár 1972
Lög nr. 68/1971, 15. gr., 7. gr.
Fyrning fasteigna - Eigin húsaleiga
Kært var yfir reiknaðri húsaleigu vegna einkanota af nýju húsnæði. Þá var gerð krafa um að fá fyrningu og viðhald íbúðarinnar fyrir notkunartímabilið til frádráttar.
Í úrskurði ríkisskattanefndar segir:
„Kærandi flutti í hús sitt á skattárinu 1971. Húsið var þá í smíðum og hafði eigi verið virt til fasteignamats í lok skattársins. Eigi er upplýst í málinu hvenær kærandi flutti, né hve mikinn hluta þess hann tók til íbúðar. Skattstjóri ákvað honum eigin leigu fyrir afnotin 1% af kostnaðarverði hússins í árslok eða kr. 14.007,00, en heimilaði eigi til frádráttar fyrningu og viðhald.
Í 3. mgr. B-liðar 15. gr. laga nr. 68/1971 segir:
„Fyrningartími eigna hefst, þegar þær eru hæfar til tekjuöflunar í hendi eiganda.“ Og í E-lið sömu greinar sbr. 9. tl. 7. gr. laga nr. 7/1972 segir: „Fyrningarverð íbúðarhúsnæðis skal vera jafnt fasteignamatsverði.“
Þegar þessi ákvæði eru virt, þykir bera að miða upphaf fyrningar tíma eignarinnar við þann tíma, er skattstjóri hóf að reikna kæranda leigu fyrir húsnæðisafnotin. Kæranda ber því frádráttur samkvæmt A- og B-lið 2. gr. reglugerðar nr. 228/1971, en með því að fasteignamatsverð er eigi fyrir hendi verður að áætla þessa frádráttarliði. Eins og háttað er skattlagningu eigin íbúðarhúsnæðis, sem virt hefir verið til fasteignarmats, til tekjuskatts svo og því, að kærandi hefir hvorki upplýst hve lengi á skattárinu hann bjó í húsinu né hve mikinn hluta þess hann hafði til afnota, þykir eftir atvikum mega ákveða frádrátt þennan jafn háan þeirri eigin húsaleigu er skattstjóri reiknaði kæranda. Samkvæmt þessari niðurstöðu lækka hreinar tekur um kr. 14.000,00.