Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 41/1990
Gjaldár 1985
Lög nr. 75/1981 — 1. gr. — 16. gr. 2. mgr. — 60. gr. 2. mgr.
Söluhagnaður — Söluhagnaður af íbúðarhúsnæði — Söluhagnaður fasteignar — Söluhagnaður ófyrnanlegrar fasteignar — Íbúðarhúsnæði — Íbúðarsala — Riftun — Frestun skattlagningar söluhagnaðar — Frestun skattlagningar söluhagnaðar af íbúðarhúsnæði — Söluhagnaður, frestun skattlagningar — Ótakmörkuð skattskylda — Brottför úr landi — Heimilisfesti — Skattskylda — Skattskylda einstaklings — Tekjutímabil — Endurupptaka úrskurðar ríkisskattanefndar — Endurupptaka máls
Málavextir eru þeir að kærendur seldu íbúð sína að X, Reykjavík, árið 1984. Sama ár fluttu þau búferlum úr landi. Skattstjóri ákvarðaði kærendum söluhagnað vegna íbúðarsölunnar á skattframtali 1985 og synjaði um frestun söluhagnaðar á þeim forsendum að skattskyldu kærenda hefði lokið hér á landi síðla árs 1984.
Í beiðni þeirri, sem borist hefur ríkisskattanefnd, kemur fram að vanefndir urðu af hálfu kaupanda íbúðarinnar. Var þá gripið til þess ráðs snemma árs 1985 að selja íbúðina öðrum á sama verði án þess að rifta formlega kaupunum við fyrri kaupanda. Að sögn var fallið frá riftun í því skyni að greiða fyrir samkomulagi við fyrri kaupanda og koma honum út úr íbúðinni. Er farið fram á að kærendur verði ekki látnir gjalda þess að að formleg riftun átti sér ekki stað og að fallist verði á gildi hinnar raunverulegu sölu í mars 1985. Með gögnum málsins fylgir ljósrit af kaupsamningi, dags. 5. mars 1985.
Kröfugerð ríkisskattstjóra f.h. gjaldkrefjenda, dags. 28. júní 1989, er sem hér segir:
„Í nefndum úrskurði var kæru ofangreinds aðila vísað frá ríkisskattanefnd að svo stöddu þar sem málið þótti í þeim mæli óupplýst og vanreifað að á það yrði ekki lagður efnisúrskurður.
Þann 2. júní 1989 barst ríkisskattstjóra bréf þar sem farið var fram á að áður sent erindi til embættis ríkisskattstjóra yrði framsent ríkisskattanefnd sem beiðni um endurupptöku áðurnefnds úrskurðar.
Með hliðsjón af framangreindu og eftir atvikum fellst ríkisskattstjóri á að greindur úrskurður verði endurupptekinn og gerir af því tilefni þær kröfur að úrskurður skattstjóra verði staðfestur enda liggur nú fyrir að skilyrðum 2. mgr. 16. gr. laga nr. 75/1981 var ekki fullnægt.“
Óvefengt er í máli þessu að kaupsamningur vegna sölu íbúðar kærenda árið 1984 gekk til baka. Samkvæmt gögnum málsins var íbúðin síðan seld öðrum árið 1985. Af framanskráðu má ljóst vera að ekki er um söluhagnað að ræða árið 1984. Söluhagnaður sá er skattsjóri færði til tekna í skattframtali kæranda 1985, 248.840 kr., fellur því niður.