Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 850/1973

Gjaldár 1972

Lög nr. 68/1971, 15. gr. D-liður  

Persónufrádráttur

Kærandi flutti búferlum frá Íslandi þann 1. júlí 1970. Í sept. 1971 flytur kærandi lögheimili sitt aftur til Íslands. Skattstjóri skattlagði kæranda sérstaklega vegna tekna af húseign fyrir tímabilið 1. janúar 1971, þar til hann flutti lögheimili aftur til landsins. Fyrir tímabilið frá því að hann flutti lögheimili sitt til Íslands til áramóta var kærandi talinn bera ótakmarkaða skattskyldu hér á landi og persónufrádráttur reiknaður hlutfallslega við þann tíma.

Ágreiningsefnið var, hvort kæranda bæri persónufrádráttur fyrir allt árið, þ.e. einnig fyrir þann tíma, sem hann átti lögheimili erlendis.

Í úrskurði ríkisskattanefndar segir:

„Upphafsákvæði 8. gr. laga nr. 7/1972 um breytingu á lögum nr. 68/1971, sbr. einnig 41. gr. reglugerðar nr. 245/1963, mælir svo fyrir, að frá hreinum tekjum heimilisfastra manna hér á landi, eins og þær séu ákveðnar samkvæmt lögunum, skuli draga sérstaka fjárhæð, sem þar er nánar tilgreind. Ennfremur er í 6. mgr. fyrrnefndrar reglugerðargreinar sagt, að fjölskyldufrádrátt skuli ætíð miða við fjölskyldustærð í árslok.

Ákvæði þessi þykir bera að skýra svo, að frádráttur samkvæmt þeim sé eigi háður tímalengd skattskyldu gjaldþegns á skattárinu, enda eigi í lögum nein ákvæði, er mæli fyrir um slíka skiptingu frádráttarins, þegar undan eru skyldar sérreglur laga nr. 22/1956 um skatt- og útsvarsgreiðslur útlendinga, gjaldenda, sem eru á förum úr landi o.fl., en þeim verður ekki beitt um það tilvik, sem hér er til úrlausnar. Með vísun til framanritaðs ber að taka kröfu kæranda til greina eins og að framan greinir.“

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja