Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 898/1973

Gjaldár 1972

Lög nr. 68/1971, 18. gr.  

Tekjudreifing

Málavextir voru þeir, að kærandi rak fyrirtæki í formi sameignarfélags, en hann var í raun aðaleigandi þess. Þar sem kærandi reiknaði sér engin laun frá fyrirtækinu vegna starfsemi þessarar, reiknaði skattstjóri honum kr. 50.000,00 í tekjur vegna þess, en taldi þá upphæð ekki frádráttarbæra hjá fyrirtækinu, þar sem um tilraun til undanskots tekna væri að ræða. Var þessu mótmælt af hálfu kæranda og vísaði hann til þess, að síðan fyrirtækið hóf störf hafi hann ekki reiknað sér laun frá því, enda viljað byggja upp fjárhag þess og verið auk þess í fullu starfi annars staðar. Hafi þetta verið látið átölulaust af skattayfirvöldum. Laun sín taldi hann hæfilega metin 40-50 þús. kr.

Í úrskurði ríkisskattanefndar segir:

„Á það má fallast, að skattstjóra var heimilt að meta kæranda til tekna laun fyrir vinnu hans við fyrirtækið m.a. vegna þess sérstaka sambands milli þessara skattþegna, sem stafar af því, að kærandi er aðaleigandi X s.f. Kærandi ákveður því nánast einhliða hvernig hann hagar viðskiptum sínum við það. Gildir hér því annað en þegar viðskipti eiga sér stað milli fjárhagslega ótengdra aðila. Sömuleiðis hefir ákvörðun skattstjóra stoð í áðurgreindri 3. mgr. 18. gr. laga nr. 68/1971. Hins vegar þykir bera, eins og málavöxtum er háttað, að skoða umrædd laun sem rekstrarkostnað, hjá X s.f. og heimila þau til frádráttar skattskyldum tekjum.“

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja