Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 322/1973
Gjaldár 1971
Lög nr. 68/1971, 18. gr.
Tekjur af landbúnaði
Gerð var m.a. sú krafa, að andvirði seldra folalda kr. 20.000,00 væri fellt niður af framtali þar sem fjárhæðin hafi verið ógreidd í árslok 1970 og sé ekki framtalsskyld fyrr en við greiðslu. Í þessu sambandi vitnaði kærandi í reglur varðandi skattlagningu verðuppbóta búsafurða.
Í úrskurði ríkisskattanefndar segir:
„Í 2. mgr. 18. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt nr. 90/1965 segir svo:
„Tekjur skal að jafnaði telja til tekna á því ári, sem þær verða til, þ.e. þegar vegna þeirra hefur myndast krafa á hendur einhverjum, nema um óvissar tekjur sé að ræða.“
Frá þessari meginreglu er gerð undantekning um verðuppbætur á búsafurðir.
Í 2. mgr. 1. töluliðar B-liðar 17. gr. reglugerðar um tekjuskatt og eignarskatt nr. 245/1963 segir svo:
„Verðbætur á búsafurðir teljast til tekna, þegar þær eru greiddar eða færðar framleiðanda til tekna í reikningi hans.“
Þessa síðar nefndu reglu verður að skýra þröngt og þykir hún ekki geta tekið til þess efnis, sem hér er til úrlausnar.“