Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 45/1990

Gjaldár 1988

Lög nr. 75/1981 — 30. gr. 1. mgr. D-liður 1. tl. — 31. gr. 1. tl.  

Lífeyrissjóður — Lífeyrissjóðsiðgjald — Frádráttarheimild — Rekstrarkostnaður — Eigin atvinnurekstur — Slysatrygging — Slysatryggingariðgjald — Slysatrygging atvinnurekandans sjálfs — Kostnaður vegna atvinnurekandans sjálfs — Persónulegur kostnaður — Vaxtagjöld — Skylduaðild að lífeyrissjóði

Málavextir eru þeir, að skattframtali kæranda árið 1988 fylgdi ársreikningur vegna trésmíða. Meðal gjaldaliða var 6% tillag í Lífeyrissjóð byggingamanna 29.400 kr. og vextir vegna iðgjalda þessara 3.806 kr. Þá var gjaldfært iðgjald af almennri slysatryggingu að fjárhæð 20.307 kr.

Með bréfi, dags. 27. júlí 1988, tilkynnti skattstjóri kæranda, að fyrrnefndir gjaldaliðir samtals að fjárhæð 53.513 kr. hefðu verið felldir niður og hreinar tekjur af hinni sjálfstæðu starfsemi hækkaðar um sömu fjárhæð. Tók skattstjóri fram, að nefndir gjaldaliðir teldust ekki gjöld til öflunar tekna í atvinnurekstri samkvæmt 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og því ekki frádráttarbær. Af hálfu kæranda voru þessar breytingar kærðar með kæru, dags. 10. ágúst 1988, og fylgdu ljósrit kvittana vegna þessara greiðslna kærunni. Í kærunni sagði svo: „Ég tel að þetta sé vegna misskilnings hjá yður og mér beri að færa 6% tillag til Lífeyrissjóðs byggingamanna til gjalda á rekstrarreikningi mínum eins og gert er í öllum almennum atvinnurekstri, ég hef hins vegar fært 4% iðgjald á eigið framtal. Ég tel að sama gildi um almenna slysatryggingu, þar sem ég er með eigin atvinnurekstur og enginn annar aðili tryggir mig gegn slysum, sem ég kann að verða fyrir við vinnu mína.“ Með kæruúrskurði, dags. 7. október 1988, synjaði skattstjóri kröfum kæranda með því að umrædd gjöld teldust ekki vera til öflunar tekna í atvinnurekstri, sbr. 31. gr. laga nr. 75/1981, heldur persónulegur kostnaður viðkomandi til að tryggja eigin afkomu.

Með kæru, dags. 3. nóvember 1988, hefur kærandi skotið kæruúrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar og krefst þess að hinir umdeildu gjaldaliðir verði teknir til greina með sömu rökum og fram komu í kæru til skattstjóra.

Með bréfi, dags. 9. nóvember 1989, krefst ríkisskattstjóri þess í málinu f.h. gjaldkrefjenda, að hinn kærði úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Kærandi innti umræddar iðgjaldagreiðslur til Lífeyrissjóðs byggingamanna af höndum að öllu leyti vegna sjálfs sín. Með skírskotun til þess þykir bera að staðfesta úrskurð skattstjóra um þetta kæruatriði. Hins vegar þykir bera að taka til greina iðgjald vegna almennrar slysatryggingar kæranda.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja