Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 603/1973

Gjaldár 1972

Lög nr. 68/1971, 40. gr.  

Afföll/frávísun

Málavextir eru þeir, að kærandi færði til frádráttar á framtali sínu 20% afföll af skuldabréfum seldum á skattárinu. Skattstjóri neitaði kæranda um þennan frádrátt, en tekjur hans náðu eigi tekjuskatti. Krafðist kærandi úrskurðar ríkisskattanefndar um, hvort afföllin væru frádráttarbær.

Í úrskurði ríkisskattanefndar segir:

„Samkvæmt 40. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt er gjaldendum heimilað að kæra „skatt sinn“ til skattstjóra vilji þeir ekki una álagningunni. Eftir 41. gr. má síðan skjóta úrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar. Skattstjóri gerði ekki kæranda í máli þessu að greiða tekjuskatt. Kæruefnið lýtur að því, hvort kærandi eigi í framtíðinni rétt til ákveðins frádráttar frá tekjum sínum.

Fyrirfram verða skattyfirvöld ekki krafin sagna um frádráttarhæfi affallanna á næstu gjaldárum og ber því að vísa kærunni frá.“

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja