Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 37/1973
Gjaldár 1971
Lög nr. 68/1971, 41. gr.
Frávísun - Framtal ófullkomið
Kæranda var í fyrstu gert að greiða tekjuskatt og eignarskatt eftir áætlun skattstjóra. Var álagningin miðuð við hreinar tekjur kr. 400.000,00 og hreina eign kr. 7.000.000,00.
Í kærufresti telur kærandi fram og sýnir framtal hans gjöld umfram tekjur kr. 332.402,00 og hreina eign kr. 14.877.386,00.
Er þó aðeins reiknað með einföldu fasteignamatsverði fasteigna kæranda í þeirri fjárhæð.
Eftir að hafa ritað kæranda fyrirspurnarbréf út af framtali hans, þar sem því er m.a. haldið fram, að óuppgefin séu á launamiðum laun, sem nemi kr. 270.856,63 auk greiðslna til verktaka vegna viðhalds, úrskurðar skattstjóri, að hin álögðu gjöld skuli standa óbreytt. Virðist kærandi ekki enn hafa orðið við þeirri ábendingu skattstjóra, að gera nánari grein fyrir launagreiðslum sínum.
Með því að málið var svo mjög vanreifað af hálfu beggja málsaðila, þótti ríkisskattanefnd að svo komnu ekki unnt að leggja á það efnisúrskurð.
Kærunni var vísað frá.