Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 1193/1973

Gjaldár 1972

Lög nr. 7/1972  

Afturvirkni laga

Sameignarfélagi nokkru var slitið á skattárinu 1971 og afmáð úr firmaskrá þann 30. nóv. það ár. Við álagningu árið 1972 var varasjóður félagsins skattlagður hlutfallslega hjá hverjum eiganda og reiknaðist hluti kæranda ásamt 20% viðauka samtals kr. 264.301,00.

Kærandi krafðist þess að 3/5 hlutar varasjóðsins yrðu ekki skattlagðir sbr. ákvæði til bráðabirgða nr. II í lögum nr. 68/1971, sem í gildi voru, er félaginu var slitið.

Tilvitnað ákvæði til bráðabirgða var þannig:

„Sameignarfélög með ótakmarkaðri ábyrgð félagsmanna, sem fullnægja ekki skilyrðum 1. mgr. C-liðar 1. mgr. 5. gr., þar sem eignum og tekjum skal nú skipt með sameigendum, sem lagt hafa fé í varasjóð samkvæmt 2. mgr. 17. gr. laga nr. 90/1965 og eiga fé í varasjóði við gildistöku þessara laga, skulu leggja 3/5 hluta varasjóðsins við höfuðstól eigenda, og telst sú ráðstöfun varasjóðs ekki til skattskyldra tekna eigenda. Þann hluta varasjóðsins, sem eftir stendur, skal telja með skattskyldum tekjum eigenda með að minnsta kosti einum fimmta hluta ár hvert, þar til varasjóðurinn er að fullu leystur upp. Þeim hluta varasjóðsins, sem hefur ekki verið leystur upp á hverjum tíma, mega eigendur þó verja til að mæta sérstökum fyrningum samkvæmt ákvæðum 5. mgr. D-liðar 15. gr.“

Ákvæði þetta var fellt úr gildi með 22. gr. laga nr. 7/1972 og jafnframt mælt svo fyrir, í 1. mgr. 23. gr. að lögin skyldu þegar öðlast gildi og koma til framkvæmda við álagningu skatta til ríkissjóðs fyrir skattárið 1971.

Sameignarfélag það, sem hér var um að ræða fullnægði ekki skilyrðum 1. mgr. C-liðar 1. mgr. 5. gr. um skráningu, félagssamning o.fl.

Að því athuguðu segir svo Í úrskurði ríkisskattanefndar:

„Í máli þessu er á það að líta, að félaginu var skylt, skv. ákvæði til bráðabirgða II að leggja 3/5 hluta varasjóðs við höfuðstól eigenda. Fallast má á þá fullyrðingu kæranda, að breyting sú, sem gerð var á C-lið 5. gr. og ákvæði til bráðabirgða II hafi verið forsenda fyrir félagsslitum. Óhjákvæmilegt var að breyta um félagsform, eða breyta sameignarfélaginu til samræmis við hinar nýju kröfur, sem nú voru gerðar til sameignarfélaga, ef félagið kaus að vera áfram sjálfstæður skattaðili.

Ennfremur ber að hafa í huga, að afturvirkar, íþyngjandi ráðstafanir af því tagi, sem hér um ræðir, snerta aðeins mjög lítinn hluta gjaldenda. Þegar þetta er virt þykir fyrir hendi brýn þörf að vernda hagsmuni gjaldandans í tilvikum sem þessu, enda eigi talið að sú niðurstaða sé andstæð rétti löggjafarvalds og stjórnvalda til að beita íþyngjandi, afturvirkum fyrirmælum almennt. Ber því að taka kæruna til greina og reikna skattskyldan hluta kæranda af varasjóði félagsins í samræmi við ákvæði til bráðabirgða II laga nr. 68 frá 15. júní 1971.“

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja