Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 1255/1973
Gjaldár 1970
Lög nr. 22/1956
Gjaldársgjöld
Kærandi brá heimilisfangi sínu og flutti til útlanda í marsmánuði 1970. Eiginkona kæranda er skv. hinu samnorræna flutningsvottorði talin hafa flutt þann 30. maí 1970 og virðist hún hafa haft laun til loka þess mánaðar. Við álagningu færði skattstjóri brúttótekjur kæranda á ársgrundvöll og dró að því búnu niðurstöðutölu gjaldaliðar framtalsins frá tekjunum þannig reiknuðum. Miðar hann síðan umreikninginn við 10 vikna dvalartíma hér á landi.
Í úrskurði ríkisskattanefndar segir, að tilfærð gjöld hafi verið áfallin og frádráttarhæf, er skattskyldu hans lauk hér á landi. Beri því skv. A-lið 4. gr. laga nr. 22/1956, sbr. einnig A-lið 62. gr. reglug. nr. 245/1963 að miða umreikninginn við hreinar tekjur kæranda. Dvalarvikur voru, með hliðsjón af aðstæðum og samsköttun hjónanna, reiknaðar til 30. maí 1970.