Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 1276/1973
Gjaldár 1970
Lög nr. 59/1968
Aðstöðugjald
Málavextir eru þeir, að kærandi hafði með höndum iðnaðarframleiðslu í einu sveitarfélagi, en rak smásölu í öðru.
Var í bókhaldi hans ekki nákvæm sundurliðun á vörum þeim, sem hann seldi úr versluninni frá eigin verksmiðju og vörum annars staðar frá. Skattstjóri áætlaði milliveltuna og taldi hana til skattskyldra rekstrarútgjalda verslunarinnar.
Kærandi krafðist þess, að aðstöðugjald af þessum áætluðu upphæðum væri fellt niður. Taldi hann lagaheimild skorta til álagningarinnar, enda falli þessar tilfærslur ekki undir 9. gr. laga nr. 51/1964 sbr. 1. gr., laga nr. 59/1968.
Í 3. mgr. 1. gr. laga nr. 59/1968 segir, að séu verðmæti flutt á milli atvinnugreina sama fyrirtækis á tilgreindu verði, skulu þau verðmæti talin til aðstöðugjaldsskyldra rekstrarútgjalda hjá þeim þætti, sem við tekur.
Niðurstaða um gjaldskyldu byggist því á túlkun á orðunum „verðmæti á tilgreindu verði,“ og segir í úrskurði ríkisskattanefndar:
„Þó svo, að í ákvæði þessu séu orðin "verðmæti á tilgreindu verði" sett sem skilyrði fyrir skattlagningu, þykir ekki mega skýra þau svo, að við það beri að miða, hvort gjaldandi hafi sjálfur í bókhaldi sínu og reikningsskilum metið tilfærslurnar til verðs. Enda leiddi slíkur skilningur til þess, að skattskyldan yrði í fjölmörgum tilfellum komin undir einhliða ákvörðunum gjaldandans um bókhaldsskipulag sitt og reikningsskil. Þykir sú niðurstaða ótæk. Þá þykir einnig aðdragandi að setningu laga nr. 59/1968 styðja þennan skilning. Ber því að telja millifærslurnar gjaldskyldar í þessu tilviki að því marki sem um er að ræða iðnaðarvörur framleiddar í verksmiðju kæranda en seldar úr verslun hans.“
Þar sem kærandi hafði lagt fram rökstudda áætlun um millifærsluna, lækkaði ríkisskattanefnd áætlun skattstjóra.