Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 46/1990

Gjaldár 1988

Lög nr. 75/1981 — 7. gr. A-liður 1. tl. 2. mgr. — 31. gr. 1. tl. — 59. gr. 1. mgr.   Lög nr. 46/1987 — 4. gr. 4. mgr.  

Vinnufatakostnaður — Hlífðarfatakostnaður — Rekstrarkostnaður — Frádráttarheimild — Kostnaður vegna atvinnurekandans sjálfs — Persónulegur kostnaður — Reiknað endurgjald — Ákvörðun reiknaðs endurgjalds — Vinnuframlag við eigin atvinnurekstur — Staðgreiðsla opinberra gjalda — Gildistaka skattalaga — Gildistaka laga um staðgreiðslu opinberra gjalda — Reiknað endurgjald, takmörkun fjárhæðar — Rekstrartap — Rekstrartap myndað með reiknuðu endurgjaldi

Málavextir eru þeir að skattstjóri felldi m.a. niður úr gjaldahlið rekstrarreiknings liðinn „vinnuföt“ 9.257 kr. og hækkaði tekjur á rekstrarreikningi kæranda um sömu fjárhæð. Í kæru til skattstjóra, dags. 22. ágúst 1988, var m.a. þessari breytingu mótmælt. Um væri að ræða hlífðarföt sem eingöngu væru notuð í atvinnurekstrinum og þess vegna frádráttarbær. Til vara var þess krafist að reiknuð laun yrðu hækkuð um andvirði hlífðarfatanna. Skattstjóri kvað upp úrskurð í málinu 17. október 1988. Komst hann að þeirri niðurstöðu að kostnaður vegna hlífðarfata manns sem stæði fyrir eigin atvinnurekstri teldist persónulegur kostnaður hans en ekki kostnaður til öflunar tekna í atvinnurekstrinum, sbr. 31. gr. laga nr. 75/1981. Var kröfu kæranda því synjað. Skattstjóri synjaði enn fremur varakröfu kæranda um hækkun reiknaðra launa á þeirri forsendu að engin grein hefði verið gerð fyrir vinnuframlagi hans.

Úrskurði skattstjóra hefur verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 17. nóvember 1988. Er þess krafist að kostnaður vegna vinnufata 9.257 kr. verði frádráttarbær frá tekjum. Litið sé á þennan hlífðarfatnað, þ.e. svuntur og sérhannaða samfestinga, sem jafn nauðsynlegan og þau verkfæri sem notuð séu. Sé ekki fallist á ofangreind rök, er varakrafa kæranda sú, að reiknuð laun verði hækkuð um 9.257 kr. Með tilvísun til 4. mgr. 4. gr. laga nr. 46/1987 sé óheimilt að mynda tap með reiknuðu endurgjaldi. Með það í huga hafi reiknað endurgjald kæranda verið fundið, þrátt fyrir að það hafi í raun átt að vera hærra með hliðsjón af vinnuframlagi hans árið 1987.

Kröfugerð ríkisskattstjóra f.h. gjaldkrefjenda, dags. 9. nóvember 1989, er á þá leið að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Kærandi þykir eigi hafa sýnt fram á frádráttabærni hins umdeilda gjaldaliðs. Er aðalkröfu hans synjað. Hins vegar þykir mega taka varakröfu hans til greina.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja