Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 47/1990

Gjaldár 1988

Lög nr. 75/1981 — 31. gr. 1. tl. — 96. gr. 1. og 4. mgr. — 100. gr. 1. mgr. — 106. gr. 2. mgr.  

Síðbúin framtalsskil — Skattframtal í stað áætlunar — Skattframtal, ófullnægjandi — Áætlun — Áætlun tekjuviðbótar — Tekjuviðbót áætluð — Álag — Álag á áætlaða skattstofna — Kærufrestur — Kæra, síðbúin — Síðbúin kæra — Eignarleiga — Kaupleiga — Fjármögnunarleiga — Eignarleigugreiðslur — Vaxtagjöld — Leigubifreiðaakstur — Leigubifreið — Kaupleiga, tilhögun skattskila

Málavextir eru þeir, að skattframtal kæranda árið 1988 barst skattstjóra þann 22. ágúst 1988. Með bréfi, dags. 14. október 1988, krafði skattstjóri kæranda skýringa á ýmsum atriðum framtalsins. Skattstjóri benti á, að á fyrningarskýrslu væri gerð grein fyrir leigubifreið, sem keypt hefði verið á árinu 1986 á 1.200.000 kr. Á skattframtali 1987 væri engin grein gerð fyrir kaupum á leigubifreið, en hins vegar væri þar fært til gjalda fjármögnunarleigugjald 215.773 kr. Þess væri því óskað, að afsal vegna kaupa á bifreiðinni yrði lagt fram og gerð grein fyrir því, hvort fjármögnunarleigugjald á árinu 1986 tengdist kaupum á bifreiðinni. Þá var þess krafist, að gögn vegna gjaldfærðrar leigu/vaxta 73.262 kr. á rekstrarreikningi árið 1987 yrðu lögð fram. Ennfremur að gerð yrði grein fyrir skuldum vegna kaupa á leigubifreið í árslok 1986 og 1987. Þá var krafist skýringa á tilgreindum skuldum og vaxtagjöldum í skuldahlið framtals svo og hvort verið væri að sækja um vaxtaafslátt eða húsnæðisbætur á umsóknareyðublaði um þær bætur. Með bréfi, dags. 17. nóvember 1988, fór umboðsmaður kæranda fram á frest a.m.k. til 25. nóvember 1988 til þess að svara bréfi skattstjóra. Með kæruúrskurði, dags. 13. janúar 1989, tók skattstjóri málið til úrlausnar og féllst á að byggja álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1988 á hinu innsenda framtali, þó með þeirri breytingu að hann áætlaði hagnað af rekstri í reit 62 í skattframtali 200.000 kr. auk 25% álags, þar sem bréfi skattstjóra, dags. 14. október 1988, hefði ekki verið svarað. Með kæru, dags. 13. febrúar 1989, hefur umboðsmaður kæranda skotið kæruúrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar. Krafan er sú, að byggt verði á innsendu skattframtali hvað varðar tekjur og gjöld af leigubifreiðaakstri. Í kærunni segir svo m.a.:

„Um það er það að segja að undirritaður útfærði þá lausn sem skattstjóra var send á sínum tíma og byggði á þeim bestu gögnum sem voru til staðar. Undirritaður hafði hins vegar ekkert með eldri framtöl A að gera. A gerði á árinu 1986 samning við X um fjármögnunarleigu á leigubifreið (sjá meðfylgjandi samning). Sú útfærsla sem fram kemur í framtali A vegna tekjuársins 1987 er eftir því sem ég best veit í fullu samræmi við dóma Ríkisskattanefndar og fæ ég ekki séð að sú framkvæmd veiti Skattstjóra rétt til að breyta því framtali. Skattstjóri hefur ekki breytt eldri framtölum og mun ég því ekki fjalla um þau hér.

Skattstjóri hefur ekki gert neina athugasemd við aðra liði framtals en þessa útfærslu á leigukaupasamning. Meðfylgjandi er yfirlit byggt á greiðslumiðum, sem einnig fylgja. Samkvæmt því eru „vextir“ á rekstrarreikningi A í raun lægri en þau fylgiskjöl sem hér með fylgja gefa ástæðu til að telja. Ég fæ því ekki séð að athugasemdir við þann lið fái staðist.“

Þá hefur kæran að geyma svofellt yfirlit yfir greiðslur kæranda til X hf. skv. samningi um fjármögnunarleigu:

„Dagur:Til greiðslu:Dráttarvextir:
1. jan 32.568 0,0
1. feb 33.169 986,3
1. mar 33.584 1.079,6
1. apr 34.185 1.094,6
1. maí 34.578 1.104,5
1. jún 34.578 0,0
1. júl 35.801 0,0
1. ágú 36.371 0,0
1. sep 37.096 0,0
1. okt 37.490 3.054,0
1. nóv 38.402 2.906,0
1. des 39.334 0,0
Samtals:427.156 10.225

Hver afborgun af höfuðstól kr. 29.676 (skv. kvittunum X). * 12 mánuðir => 356.112 hefur verið greitt af höfuðstól. Þetta gefur okkur (427.156 + 10.225) - 356.112, sem vexti af viðskiptum við X (kr. 81.269).“

Með bréfi, dags. 21. júlí 1989, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu f.h. gjaldkrefjenda:

„Að kærunni verði vísað frá ríkisskattanefnd þar sem hún er of seint fram komin en lögmæltur 30 daga kærufrestur skv. 1. mgr. 100. gr. laga nr. 75/1981 rann út þann 12. feb. 1989. Kærandi hefur ekki sýnt fram á að honum hafi eigi verið unnt að kæra innan þess frests.“

Hinn kærði úrskurður er dagsettur 13. janúar 1989 og liggur ekki annað fyrir en hann hafi verið póstlagður þann dag. Síðasti dagur kærufrests var skv. þessu 12. febrúar 1989, sbr. 1. mgr. 100. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Kæran til ríkisskattanefndar er dagsett 13. febrúar 1989 og póststimpluð degi síðar. Þrátt fyrir þetta þykir eftir öllum atvikum mega taka kæruna til efnisúrlausnar. Er frávísunarkröfu ríkisskattstjóra því hrundið. Kærandi hefur lagt fram samninga og greiðslukvittanir vegna nefndrar fjármögnunarleigu. Að virtum gögnum þessum og skýringum kæranda þykir eigi vera fyrir hendi grundvöllur fyrir þeirri tekjuviðbót, sem skattstjóri ákvað. Er hún því felld niður og krafa kæranda því tekin til greina.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja