Úrskurður yfirskattanefndar
- Virðisaukaskattur, skatthlutfall
- Vistun gæludýra
- Álag á virðisaukaskatt
Úrskurður nr. 180/2016
Virðisaukaskattur 2014 og 2015
Lög nr. 50/1988, 2. gr. 3. mgr. 8. tölul., 14. gr. 2. mgr. 2. tölul., 27. gr.
Kærandi, sem var einkahlutafélag um rekstur einangrunarstöðvar fyrir gæludýr, taldi að sala félagsins á þjónustu félli undir hið lægra skatthlutfall virðisaukaskatts sem „önnur gistiþjónusta“ í skilningi 2. tölul. 2. mgr. 14. gr. laga nr. 50/1988. Yfirskattanefnd rakti forsögu ákvæða virðisaukaskattslaga um sölu á gistiþjónustu og dró þá ályktun að með orðalaginu „önnur gistiþjónusta“ væri vísað til sölu á gistiþjónustu sem væri hliðstæð útleigu hótel- og gistiherbergja. Um atvinnustarfsemi af slíku tagi giltu lög nr. 85/2007, um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, en ljóst væri að starfsemi kæranda félli ekki undir þau lög. Að því athuguðu og með vísan til forsendna ríkisskattstjóra þótti ekki fara á milli mála að starfsemi kæranda, þ.e. vistun gæludýra í tilgreindan tíma eftir komu þeirra til landsins, yrði ekki felld undir orðalagið „önnur gistiþjónusta“. Var kröfum kæranda hafnað, þar með talið kröfu félagsins um niðurfellingu álags á virðisaukaskatt, enda var ekki fallist á með kæranda að lög væru óskýr um skattskyldu þeirrar starfsemi sem kærandi hafði með höndum.
Ár 2016, miðvikudaginn 21. september, er tekið fyrir mál nr. 3/2016; kæra A ehf., dags. 21. desember 2015, vegna ákvörðunar virðisaukaskatts árin 2014 og 2015. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Anna Dóra Helgadóttir og Kristinn Gestsson. Upp er kveðinn svofelldur
ú r s k u r ð u r :
I.
Með kæru, dags. 21. desember 2015, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 24. september 2015, vegna ákvörðunar virðisaukaskatts kæranda uppgjörstímabilin janúar-febrúar 2014 til og með janúar-febrúar 2015. Með úrskurði þessum staðfesti ríkisskattstjóri þær ákvarðanir embættisins samkvæmt tilkynningu frá 12. ágúst 2015 að hækka skattskylda veltu kæranda í hærra skattþrepi virðisaukaskatts (25,5% árið 2014 og 24% árið 2015) vegna allra uppgjörstímabila ársins 2014 og uppgjörstímabilið janúar-febrúar 2015 frá því sem tilgreint var í innsendum virðisaukaskattsskýrslum kæranda, en lækka skattskylda veltu í lægra skattþrepi (7% árið 2014 og 11% árið 2015) samsvarandi. Að gerðum þessum breytingum ákvarðaði ríkisskattstjóri skattskylda veltu samtals 23.816.671 kr. umrædd sjö uppgjörstímabil. Byggði ríkisskattstjóri á því að kærandi hefði ekki með höndum gistiþjónustu í skilningi 2. tölul. 2. mgr. 14. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum, sbr. 8. tölul. 3. mgr. 2. gr. sömu laga, og bæri kæranda því að standa skil á virðisaukaskatti í hærra skattþrepi af seldri þjónustu. Jafnframt lækkaði ríkisskattstjóri innskatt kæranda um 200.000 kr. á hverju uppgjörstímabilanna janúar-febrúar, mars-apríl, maí-júní, júlí-ágúst og september-október 2014 frá því sem tilgreint var í virðisaukaskattsskýrslum. Samkvæmt þessu var virðisaukaskattur kæranda ákvarðaður samtals 2.598.685 kr. umrædd uppgjörstímabil. Ríkisskattstjóri bætti 10% álagi við ákvarðaðan virðisaukaskatt samkvæmt framangreindu, sbr. 1. og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988.
Af hálfu kæranda er þess krafist að ákvörðun ríkisskattstjóra verði felld úr gildi. Þess er sérstaklega krafist að 10% álag verði fellt niður. Loks gerir kærandi kröfu um að félaginu verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði.
II.
Helstu málavextir eru þeir að framhaldi af því að skil voru gerð á virðisaukaskattsskýrslu kæranda fyrir uppgjörstímabilið janúar-febrúar 2014 fór ríkisskattstjóri með bréfi, dags. 14. janúar 2015, fram á skýringar vegna virðisaukaskattsskila kæranda á árinu 2014. Vísaði ríkisskattstjóri til þess að kærandi hefði sætt áætlun virðisaukaskatts fyrir uppgjörstímabilin janúar-febrúar 2014 og september-október 2014, svo og að fyrir lægju óafgreiddar virðisaukaskattsskýrslur kæranda vegna tímabilanna maí-júní, júlí-ágúst, nóvember-desember 2014 og janúar-febrúar 2015. Samkvæmt fyrirliggjandi virðisaukaskattsskýrslum væri tilgreind velta í 7% skattþrepi, útskattur og innskattur, en engin velta í 25,5% skattþrepi. Beindi ríkisskattstjóri því til kæranda að gera skriflega grein fyrir því hvaða starfsemi félagið hefði með höndum og hvers vegna tekjur af þeirri starfsemi væru tilgreindar í 7% skattþrepi á virðisaukaskattsskýrslum en ekki í 25,5% skattþrepi. Þá óskaði ríkisskattstjóri eftir hreyfingalistum tekna og innskatts auk þess að afrit helstu fylgiskjala að baki tekjum og innskatti vegna uppgjörstímabilanna janúar-febrúar, mars-apríl, maí-júní, júlí-ágúst og september-október 2014 yrðu lögð fram. Ennfremur óskaði ríkisskattstjóri eftir að virðisaukaskattsskýrsla fyrir uppgjörstímabilið september-október 2014 yrði lögð fram og eftir atvikum leiðréttingarskýrslur vegna fyrri tímabila ársins 2014.
Í svarbréfi umboðsmanns kæranda, dags. 7. maí 2015, kom fram að þjónusta kæranda fælist í því að vista eða geyma eða varðveita gæludýr í tiltekinn tíma í sérgreindu rými. Vísaði umboðsmaður kæranda til þess að samkvæmt 8. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, með áorðnum breytingum samkvæmt lögum nr. 122/1993, væri önnur gistiþjónusta en útleiga hótel- og gistiherbergja virðisaukaskattsskyld þegar leigt væri til skemmri tíma en eins mánaðar. Ekki væri nánar tilgreint hvers konar gistiþjónustu væri um að ræða. Ekkert væri minnst á dýravistun eða aðra þjónustu við gæludýraeigendur í lögum nr. 50/1988 og yrði því að telja að umrædd þjónusta félli undir almenn ákvæði laganna. Kærandi hefði lesið lögin og ráðfært sig við starfsmenn ríkisskattstjóra, endurskoðendur og fleiri sérfræðinga sem hefði öllum borið saman um að gistiþjónusta kæranda til skemmri tíma en eins mánaðar væri þjónusta sem væri virðisaukaskattsskyld í lægra þrepi. Hefði átt að koma skýrt fram í lögum og/eða reglum hefði vilji löggjafans staðið til að hafa gistiþjónustu gæludýra í efra skattþrepi.
Með bréfi til kæranda, dags. 11. maí 2015, greindi ríkisskattstjóri frá þeirri fyrirætlan sinni að hafna virðisaukaskattsskýrslum kæranda fyrir uppgjörstímabilin janúar-febrúar 2014 til og með janúar-febrúar 2015 þar sem velta væri talin fram í lægra skattþrepi og ákvarða og endurákvarða kæranda virðisaukaskatt fyrir þessi tímabil á þann hátt að velta og útskattur á hverri skýrslu yrðu lögð saman og útskattur ákvarðaður af þeirri fjárhæð með afreiknihlutfalli í hærra skattþrepi sem væri 20,32% fyrir árið 2014 og 19,35% fyrir árið 2015. Jafnframt væri fyrirhugað að ákvarða innskatt í samræmi við framangreindar virðisaukaskattsskýrslur með þeirri breytingu þó að innskattur yrði lækkaður um 200.000 kr. á hverju tímabilanna janúar-febrúar, mars-apríl, maí-júní, júlí-ágúst og september-október 2014. Fyrirhugað væri að bæta 10% álagi við hækkun virðisaukaskatts, sbr. 27. gr. laga nr. 50/1988.
Af hálfu kæranda voru ekki gerðar athugasemdir í tilefni af bréfi ríkisskattstjóra og hinn 12. ágúst 2015 tilkynnti ríkisskattstjóri kæranda með vísan til 25. og 26. gr. laga nr. 50/1988 að virðisaukaskattsskýrslum félagsins fyrir tímabilin janúar-febrúar, mars-apríl, maí-júní, júlí-ágúst, september-október og nóvember-desember 2014 og janúar-febrúar 2015 væri hafnað og virðisaukaskattur kæranda ákvarðaður eða endurákvarðaður í samræmi við það sem boðað hefði verið.
Ríkisskattstjóri staðfesti ákvörðun sína með kæruúrskurði, dags. 24. september 2015, sbr. 3. mgr. 29. gr. laga nr. 50/1988, í framhaldi af kæru umboðsmanns kæranda, dags. 11. september 2015.
III.
Til stuðnings þeim breytingum sínum á virðisaukaskattsskýrslum kæranda að fella niður tilgreinda skattskylda veltu í lægra skattþrepi virðisaukaskatts og ákvarða skattskylda veltu í hækka skattþrepi vísaði ríkisskattstjóri til þess að samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, væri öll þjónusta virðisaukaskattsskyld nema hún væri sérstaklega undanþegin samkvæmt 3. mgr. sömu lagagreinar. Samkvæmt 1. mgr. 14. gr. laganna væri almenn skattprósenta virðisaukaskatts 25,5% árið 2014 og 24% frá 1. janúar 2015, en undantekningar frá þessari meginreglu væru í 2. mgr. greinarinnar sem kvæðu á um lægra skattþrep. Þá tók ríkisskattstjóri fram að telja yrði að með annarri gistiþjónustu í 8. tölul. 3. mgr. 2. gr. og 2. tölul. 2. mgr. 14. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, væri átt við þá þjónustu að selja fólki gistingu. Sú þjónusta kæranda, sem félagið nefndi gistiþjónustu fyrir gæludýr, yrði ekki felld þar undir, enda hlyti slík þjónusta fyrst og fremst að fela í sér gæslu, hýsingu og umönnun dýranna fyrir eigendur þeirra. Réðist skatthlutfall slíkrar þjónustu af 1. mgr. 14. gr. laga nr. 50/1988, þ.e. væri 25,5% á árinu 2014 og 24% frá 1. janúar 2015. Í þessu sambandi benti ríkisskattstjóri á að samkvæmt atvinnugreinaflokkun Hagstofu Íslands (ÍSAT 2008) félli gæludýraþjónusta, svo sem vistun, snyrting, gæsla og þjálfun dýra, undir atvinnugreinanúmer „96.09.0 Önnur ótalin þjónustustarfsemi“, en hótel- og gistiheimili og önnur gistiþjónusta félli undir atvinnugreinanúmer 55.10.1, 55.10.2, 50.20.0 eða 55.90.0. Þá vísaði ríkisskattstjóri til 3. gr. laga nr. 85/2007, um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, en þar væru gististaðir flokkaðir í fimm flokka, þ.e. ýmist í staði með veitingum og/eða áfengisveitingum, án veitinga eða heimagistingu, og væri augljóst að verið væri að tala um þjónustu við fólk en ekki dýr. Yrði það augljósara við athugun 3. gr. laga nr. 55/2013, um velferð dýra, en þar væri í 8. tölul. orðið „umsjá“ skilgreint sem umönnun, fóðrun og varsla dýra. Í 10. gr. laganna væri fjallað um getu, hæfni og ábyrgð þeirra sem hefðu dýr í sinni umsjón og í 14. gr. laganna væri fjallað um skyldur umráðamanna við meðferð og meðhöndlun dýra, svo sem að sinna þörfum þeirra, tryggja aðbúnað þeirra og vernda þau.
Varðandi lækkun innskatts kom fram af hálfu ríkisskattstjóra að um væri að ræða áætlaða fjárhæð, samtals 1.000.000 kr., sökum þess að kærandi hefði ekki lagt fram umbeðin gögn til stuðnings tilgreindum innskatti á virðisaukaskattsskýrslum.
IV.
Í kæru til yfirskattanefndar, dags. 21. desember 2015, er áréttað að kærandi reki gistiþjónustu fyrir gæludýr. Hafi dýrin verið vistuð í tiltekinn tíma eftir komu til landsins eða allt þar til heilbrigðisyfirvöld hafi samþykkt eða synjað innflutningi dýranna. Séu dýrin geymd eða vistuð í einu sérgreindu rými. Nánar kemur fram um þjónustuna að dýrin „fái jú að borða með sama hætti og fólk sem kaupir sér gistingu, en ekki er um neina þjónustu sem slíka að ræða, einungis vistun“.
Lög nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, nefni ekki dýravistun eða aðra þjónustu við dýr eða gæludýraeigendur sérstaklega. Kærandi hafi gefið út reikninga fyrir vinnu/þjónustu sína og bætt virðisaukaskatti við fjárhæðir reikninga, eftir bestu vitund og þekkingu. Í 40. gr. stjórnarskrárinnar segi að engan skatt megi á leggja né breyta né af taka nema með lögum. Í þessu felist að lagaheimild fyrir skattkröfu verði að vera skýr. Ekki sé skýr lagaheimild fyrir ákvörðun ríkisskattstjóra um að krefja kæranda um hærri virðisaukaskatt en félagið hafi innheimt. Þar með sé krafa ríkisskattstjóra ólögmæt. Í 2. tölul. 2. mgr. 14. gr. laga nr. 50/1988 segi að útleiga hótel- og gistiherbergja svo og önnur gistiþjónusta skuli bera 11% virðisaukaskatt. Langsótt sé að skylda kæranda til að leggjast í djúpar rannsóknir á því hvaða virðisaukaskatt félagið hafi átt að innheimta. Þrátt fyrir að skattheimta eigi að byggjast á lögum vísi ríkisskattstjóri til upplýsinga á vef embættisins. Þar sé þó ekki að finna upplýsingar um gistiþjónustu fyrir gæludýr. Rétt sé að benda á að lögum um virðisaukaskatt hafi verið breytt a.m.k. 76 sinnum eftir að þau voru sett. Mætti ætla að agnúar hafi verið sniðnir af lögunum. Að mati kæranda hafi ríkisskattstjóri ekki heldur sinnt leiðbeiningarskyldu sinni í málinu. Geti ekki talist fullnægjandi að vísa á vef ríkisskattstjóra og til atvinnugreinaflokkunar Hagstofu Íslands í þessu samhengi. Gera verði þá kröfu til stjórnvalda að fyrirmæli þeirra um skattinnheimtu séu skýr og ótvíræð og þá sérstaklega þar sem þau séu í raun nýtt sem refsiheimild. Þá hafi ríkisskattstjóri ekki virt meðalhófsreglu stjórnsýslulaga. Hafi hæglega verið hægt að samþykkja skattskil kæranda fyrir liðin tímabil og skylda félagið til að breyta í framhaldinu. Hefði slík málsmeðferð ekki haft jafn afdrifaríkar afleiðingar í för með sér fyrir kæranda og raun beri vitni.
Af hálfu kæranda er álagsbeitingu ríkisskattstjóra sérstaklega mómælt, enda verði ekki talið að með þeirri ákvörðun sé meðalhófs gætt.
V.
Með bréfi, dags. 22. febrúar 2016, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn um kæruna og gert þá kröfu að hinn kærði úrskurður verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.
Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 26. febrúar 2016, var kæranda sent ljósrit af umsögn ríkisskattstjóra í málinu og félaginu gefinn kostur á að tjá sig um hana og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.
VI.
Í máli þessu er deilt um það hvort kæranda beri að greiða virðisaukaskatt af seldri þjónustu á árunum 2014 og 2015 með skatthlutfalli samkvæmt 1. mgr. 14. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, þ.e. 25,5% skatthlutfalli á árinu 2014 og 24% skatthlutfalli á árinu 2015, eða skatthlutfalli samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar, þ.e. með 7% skatthlutfalli á árinu 2014 og 11% skatthlutfalli árinu 2015, en framangreind skatthlutföll breyttust 1. janúar 2015 með lögum nr. 124/2014. Til stuðnings kröfu kæranda um að þjónusta félagsins verði felld undir hið lægra skatthlutfalli er af þess hálfu vísað til ákvæðis 2. tölul. 2. mgr. 14. gr. laga nr. 50/1988. Byggir kærandi á því að félagið reki gistiþjónustu í skilningi þessarar lagagreinar, sbr. og ákvæði 8. tölul. 3. mgr. 2. gr. laganna.
Kærandi er einkahlutafélag sem var stofnað á árinu 2005, þá með nafninu B ehf., og hafði, auk almennra ákvæða, að tilgangi sínum „rekstur einangrunarstöðvar fyrir hunda og ketti“. Samkvæmt því sem kemur fram í tilkynningum til hlutafélagaskrár var tilgangi kæranda breytt á hluthafafundi 29. september 2014, þannig að tilgangur væri „rekstur gistiþjónustu fyrir húsdýr, rekstur fasteigna og lánastarfsemi“, svo og var nafni félagsins breytt í núverandi horf á hluthafafundi 18. nóvember 2014. Ekki hefur annað komið fram en að starfsemi kæranda hafi verið með sama hætti fyrir og eftir þessar breytingar á samþykktum félagsins. Mun kærandi reka einangrunarstöð fyrir gæludýr sem koma til landsins, sbr. 8. gr. laga nr. 54/1990, um innflutning dýra, en þar er mælt fyrir um skyldu til einangrunar innfluttra dýra og erfðaefnis, svo sem nánar greinir. Í kæru til yfirskattanefndar greinir frá því að dýrin séu vistuð á vegum kæranda „þar til heilbrigðisyfirvöld samþykkja eða synja, innflutningi dýranna“. Kemur jafnframt fram í kærunni að dýrin séu geymd eða vistuð í sérgreindu rými og fái „að borða með sama hætti og fólk sem kaupir sér gistingu“, en ekki sé um frekari þjónustu að ræða. Hvað síðastnefnt atriði varðar þykir rétt að taka fram að á vef kæranda er að finna upplýsingar um gjaldskrá fyrir þjónustu félagsins og er þar tekið fram að innifalið í gjaldi sé „flutningur frá flugvelli, fæði, húsnæði, þrif, almenn umhirða, feldhirða, auk rannsókna og reglubundnu eftirliti dýralæknis á meðan dvölinni stendur“.
Samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum, hvílir skylda til að innheimta virðisaukaskatt og standa skil á honum í ríkissjóð á þeim sem í atvinnuskyni eða með sjálfstæðri starfsemi sinni selja eða afhenda vörur eða verðmæti ellegar inna af hendi skattskylda vinnu eða þjónustu. Í 2. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988 er kveðið á um að skattskylda samkvæmt lögunum nái til allrar vinnu og þjónustu, hverju nafni sem nefnist, sbr. þó undanþágur samkvæmt 3. mgr. sömu lagagreinar. Samkvæmt 8. tölul. 3. mgr. 2. gr. telst fasteignaleiga og útleiga bifreiðastæða til þjónusta sem undanþegin er virðisaukaskatti. Tekið er fram í þessum tölulið að útleiga hótel- og gistiherbergja og útleiga tjaldstæða sé þó skattskyld, „svo og önnur gistiþjónusta þegar leigt er til skemmri tíma en eins mánaðar“. Samkvæmt 1. mgr. 14. gr. laga nr. 50/1988, sbr. 1. gr. laga nr. 124/2014, er skatthlutfall virðisaukaskatts 24%, en við sölu á vöru þeirri og þjónustu, sem tilgreind er í 2. mgr. sömu lagagreinar, skal þó innheimta og standa skil á 11% virðisaukaskatti, en meðal þjónustu sem þar er tilgreind er „Útleiga hótel- og gistiherbergja og önnur gistiþjónusta“, sbr. 2. tölul. 2. mgr. 14. gr.
Sérstakt lægra skatthlutfall í virðisaukaskatti, sbr. 2. mgr. 14. gr. laga nr. 50/1988, var upphaflega tekið í lög með 50. gr. laga nr. 111/1992, um breytingar í skattamálum, en með þeim lögum var orðan 8. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988 jafnframt lögfest, að því leyti sem hér skiptir máli. Meðal lögum þessum var fækkað undanþágum frá þeirri meginreglu sem fram kemur í 2. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, að skattskylda nái til allrar vinnu og þjónustu. Þar á meðal var afnumin undanþága, sem var að finna í ákvæði 8. tölul. 3. mgr. 2. gr. laganna, frá skattskyldu vegna gistiþjónustu, þ.e. útleigu hótel- og gistiherbergja ásamt annarri gistiþjónustu, en kveðið á um skattskyldu vegna slíkar þjónustu í hinu nýju skattþrepi, svo sem rakið er í athugasemdum með 39. gr. frumvarps þess er varð að lögum nr. 111/1992. Sérstaklega er vikið að orðalaginu „önnur gistiþjónusta“ í athugasemdum með 43. gr. frumvarpsins, en grein þessi varð 50. gr. laganna, með svofelldum hætti: „Með annarri gistiþjónustu er m.a. átt við útleigu tjaldstæða og sölu á gistingu hjá ferðaþjónustu bænda.“ Tekið skal fram að þessi skilgreining var ekki í samræmi við orðan 39. gr. frumvarpsins, sem varð 46. gr. laga nr. 111/1992 og kvað á um breytingu á 8. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, hvað varðar útleigu tjaldstæða. Breyting á síðastnefndu ákvæði með 16. gr. laga nr. 122/1993 færði útleigu tjaldstæða undir skattskyldu, svo sem enn gildir.
Framangreind forsaga núgildandi ákvæða 8. tölul. 3. mgr. 2. gr. og 2. tölul. 2. mgr. 14. gr. laga nr. 50/1988 ber skýrt með sér að með orðalaginu „önnur gistiþjónusta“ er vísað til sölu á gistiþjónustu sem hliðstæð er útleigu hótel- og gistiherbergja, sem sérstaklega er tilgreind í ákvæðinu. Um atvinnustarfsemi af þessu tagi, þar á meðal um nauðsyn rekstrarleyfis til starfseminnar, gilda lög nr. 85/2007, um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, sbr. áður lög nr. 67/1985, um veitinga- og gististaði. Ljóst er að starfsemi kæranda fellur ekki undir lög þessi. Að þessu athuguðu og að öðru leyti með vísan til forsendna ríkisskattstjóra þykir ekki fara á milli mála að starfsemi kæranda, þ.e. vistun gæludýra í tilgreindan tíma eftir komu þeirra til landsins eða allt fram til þess að innflutningur dýranna er samþykktur eða synjað af hálfu heilbrigðisyfirvalda, verður ekki felld undir orðalagið „önnur gistiþjónusta“ í 2. tölul. 2. mgr. 14. gr. laga nr. 50/1988, sbr. einnig ákvæði 8. tölul. 3. mgr. 2. gr. laganna. Kröfu kæranda þar að lútandi er því hafnað.
Í kæru eru gerðar athugasemdir við tölulegar útfærslur ríkisskattstjóra. Af því tilefni skal bent á að eins og ríkisskattstjóri hefur gert grein fyrir var fjárhæð skattskyldrar veltu ákvörðuð með þeim hætti að tekin var samanlögð fjárhæð uppgefinnar veltu og útskatts á hverju uppgjörstímabili, sem málið varðar, og skattskyld velta ákvörðuð af þeirri fjárhæð með afreikningshlutfalli í hærra skattþrepi sem var 79,68% fyrir árið 2014 og 80,65% fyrir árið 2015. Leiddi þetta til þess að skattskyld velta var ákvörðuð með lægri fjárhæð en kærandi tilgreindi í virðisaukaskattsskilum sínum og útskattur með hærri fjárhæð, en heildarverð stóð óbreytt. Verður ekki annað séð en að þessi aðferð hafi verið kæranda hagfelld eins og á stóð.
Víkur þá að kröfu kæranda um niðurfellingu álags sem ríkisskattstjóri beitti vegna vangreidds virðisaukaskatts, sbr. 1. og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988. Samkvæmt 1. mgr. umræddrar lagagareinar skal aðili sem ekki greiðir virðisaukaskatt á tilskildum tíma sæta álagi til viðbótar skatti samkvæmt virðisaukaskattsskýrslu eða til viðbótar þeim skatti sem honum bar að standa skil á, sbr. 19. gr. laganna. Sama gildir ef virðisaukaskattsskýrslu hefur ekki verið skilað eða verið ábótavant og virðisaukaskattur því áætlaður eða endurgreiðsla samkvæmt 25. gr. sömu laga hefur verið of há. Samkvæmt 6. mgr. sömu lagagreinar má fella niður álag ef aðili færir gildar ástæður sér til málsbóta og geta skattyfirvöld metið það í hverju tilviki hvað telja skuli gildar ástæður í þessu sambandi.
Fyrir liggur að lagaskilyrði voru til beitingar álags samkvæmt 1. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988 vegna vangreidds virðisaukaskatts samkvæmt framansögðu. Ekki verður fallist á það með kæranda að lög um virðisaukaskatt séu óskýr um skattskyldu þeirrar starfsemi sem kærandi hefur með höndum. Hafi kærandi talið að álitamál væru um ákvörðun virðisaukaskatts í þessum efnum var þess kostur að beina formlegri fyrirspurn til ríkisskattstjóra um það efni, en ekkert hefur komið fram um að kærandi hafi leitað slíkra leiðbeininga. Að þessu athuguðu þykja ekki fram komnar slíkar málsbætur af hálfu kæranda að fella beri á þeim grundvelli niður álag samkvæmt heimildarákvæðum 6. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988. Samkvæmt þessu er kröfu kæranda um niðurfellingu álags hafnað.
Umboðsmaður kæranda hefur gert kröfu um að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði. Samkvæmt framangreindum úrslitum málsins verður að hafna þeirri kröfu, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998, um breyting á þeim lögum.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Kröfum kæranda í máli þessu er hafnað.