Úrskurður yfirskattanefndar

  • Endurgreiðsla virðisaukaskatts vegna íbúðarhúsnæðis
  • Kostnaður vegna hönnunar og skipulagsvinnu

Úrskurður nr. 192/2016

Lög nr. 50/1988, 42. gr. 2. mgr., bráðabirgðaákvæði XV (brl. nr. 10/2009, 2. gr.).   Reglugerð nr. 449/1990, 1. gr., 3. gr., 5. gr.   Reglugerð nr. 440/2009, 1. gr., 5. gr.  

Kærandi (einkahlutafélag) hafði með höndum eignarhald á bygginga- og lóðaréttindum fjölbýlishúsa og skipulagningu og sölu slíkra réttinda. Ríkisskattstjóri synjaði kæranda um endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu við deiliskipulag og hönnun á þeim forsendum að kærandi væri ekki byggingaraðili í skilningi laga um virðisaukaskatt, enda hefði kærandi ekki staðið að byggingaframkvæmdum á lóðum sínum. Yfirskattanefnd rakti í úrskurði sínum að réttur til endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna nýbygginga íbúðarhúsnæðis væri eftir orðanna hljóðan bundinn við þá aðila sem stæðu fyrir slíkum framkvæmdum á eigin kostnað. Eigandi eða annar rétthafi byggingarsvæðis eða lóða yrði samkvæmt því ekki talinn eiga rétt til endurgreiðslu virðisaukaskatts eftir lögunum, nema sýnt þætti að hann ráðgerði byggingu íbúðarhúsnæðis á sinn kostnað á viðkomandi svæði. Þar sem kærandi var ekki talinn hafa sýnt fram á að félagið gæti talist byggjandi íbúðarhúsnæðis í þessum skilningi var kröfum kæranda hafnað. Í úrskurði yfirskattanefndar var einnig fjallað um gildissvið endurgreiðsluákvæða virðisaukaskattslaga og bent á að endurgreiðsla gæti tekið til útgjalda vegna vinnu við hönnun íbúðarhúsnæðis sem til væri stofnað áður en til verklegra byggingaframkvæmda kæmi. Kostnaður við gerð deiliskipulags eða vegna annarrar skipulagsvinnu eða undirbúnings lands til byggingaframkvæmda gæti á hinn bóginn ekki talist þáttur í hönnun íbúðarhúsnæðis. Eigandi eða umráðamaður landsvæðis ætti því ekki rétt til endurgreiðslu virðisaukaskatts af kostnaði af því tagi.

Ár 2016, miðvikudaginn 5. október, er tekið fyrir mál nr. 10/2016; kæra A ehf., dags. 17. febrúar 2015, vegna endurgreiðslu virðisaukaskatts. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með kæru til fjármála- og efnahagsráðuneytisins, dags. 17. febrúar 2015, er mótmælt ákvörðun ríkisskattstjóra samkvæmt úrskurði, dags. 19. nóvember 2014, að synja kæranda um endurgreiðslu virðisaukaskatts að fjárhæð 4.087.170 kr. samkvæmt endurgreiðslubeiðni, dags. 5. mars 2014. Var endurgreiðslubeiðni kæranda byggð á ákvæðum 2. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. bráðabirgðaákvæði XV í sömu lögum, með áorðnum breytingum. Yfirskattanefnd tók mál þetta til meðferðar við gildistöku laga nr. 125/2015 hinn 1. janúar 2016, sbr. 59. gr. þeirra laga.

Af hálfu kæranda er þess krafist að úrskurður ríkisskattstjóra verði felldur úr gildi og kæranda ákvarðaður virðisaukaskattur til endurgreiðslu samkvæmt því sem fram komi í beiðni kæranda þar um.

II.

Með endurgreiðslubeiðni til ríkisskattstjóra, dags. 5. mars 2014, fór kærandi fram á endurgreiðslu virðisaukaskatts að fjárhæð 4.087.170 kr. samkvæmt 42 sölureikningum frá sjö tilgreindum aðilum. Með endurgreiðslubeiðninni fylgdi bréf umboðsmanns kæranda, dags. 5. mars 2014, þar sem fram kom að kærandi byggði beiðni sína á því að félagið hefði með höndum undirbúning byggingaframkvæmda á íbúðarhúsalóðum í eigu félagsins. Í undirbúningi fælist kostnaður vegna hönnunar og eftirlits, þar á meðal að vinna að deiliskipulagi og við arkitektateikningar að þeim húsum sem fyrirhugað væri að byggja á umræddum lóðum. Að beiðni ríkisskattstjóra samkvæmt bréfi, dags. 9. apríl 2014, gerði kærandi með bréfi, dags. 6. júní 2014, nánari grein fyrir endurgreiðslubeiðni sinni.

Synjun ríkisskattstjóra samkvæmt hinum kærða úrskurði, dags. 19. nóvember 2014, var reist annars vegar á því að nánar tilgreindir sölureikningar, sem lægju til grundvallar endurgreiðslubeiðni, væru ekki vegna þjónustu sem veitti heimild til endurgreiðslu virðisaukaskatts samkvæmt 1. og 3. gr. reglugerðar nr. 449/1990 og c-lið 1. gr. reglugerðar nr. 440/2009. Benti ríkisskattstjóri á að samkvæmt umræddum sölureikningum virtist vera um að ræða kostnað vegna undirbúnings og vinnu við skipulagsmál, þar á meðal vinnu við deiliskipulag, gerð mæli- og hæðarblaða og hnitsetningu lóða, en ekki kostnað vegna hönnunar á íbúðarhúsnæði. Hins vegar vísaði ríkisskattstjóri til þess að kærandi, sem sinnti skipulagi byggðar á svæði sem félagið hefði til umráða, gæti ekki talist byggingaraðili samkvæmt 1. gr. reglugerðar nr. 576/1989, um virðisaukaskatt af byggingarstarfsemi, enda tækju aðrir að sér byggingarframkvæmdir á lóðum sem kærandi hefði haft til skipulags. Því yrði ekki talið að kærandi ætti rétt til endurgreiðslu virðisaukaskatts af kostnaði samkvæmt tilgreindum sölureikningum, enda þótt þar gæti verið um að ræða kostnað sem að jafnaði félli á byggingaraðila sem þá gæti sótt um endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna útgjaldanna.

III.

Í kæru er tekið fram að kærandi hafi sem handhafi tiltekinna íbúðarhúsalóða farið fram á endurgreiðslu virðisaukaskatts að fjárhæð 4.087.170 kr. af aðkeyptri vinnu arkitekta og verkfræðinga við hönnun fasteigna og eftirlit með jarðvegsvinnu. Hafi verið um að ræða liði í byggingarframkvæmdum á lóðunum.

Kærandi mótmælir þeirri forsendu ríkisskattstjóra að réttur til endurgreiðslu virðisaukaskatts samkvæmt ákvæðum 2. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1988 og ákvæði XV til bráðabirgða í lögunum sé bundinn við byggingaraðila í skilningi reglugerðar nr. 576/1898, um virðisaukaskatt af byggingarstarfsemi. Réttur til endurgreiðslu taki til íbúðarlóðarhafa óháð því hvort hann sjálfur eða launþegar hans vinni við byggingarframkvæmdir á lóðinni. Synjun ríkisskattstjóra byggi þannig á rangri forsendu og beri þegar af þeirri ástæðu a ógilda hana.

Í kærunni er rakið að ákvæði 2. mgr. ákvæðis XV til bráðabirgða í lögum nr. 50/1988 hafi verið sett að tillögu efnahags- og skattanefndar Alþingis. Sé markmiðsskýringu beitt megi ráða af áliti nefndarinnar um tillögu sína að vilji hafi staðið til þess að bæta verkefnastöðu starfsstétta sem á þessum tíma hafi búið við atvinnuleysi, þ.e. arkitekta, verkfræðinga og tæknifræðinga. Af nefndarálitinu verði því ekki annað ráðið en að endurgreiðsluréttur nái til virðisaukaskatts af vinnu slíkra sérfræðinga óháð því hvaða byggingarstig íbúðarhúsnæðis vinna þeirra varði. Hönnun, þar með talið skipulag, sé fyrsti liður framkvæmda áður en verklegar framkvæmdir á byggingarstað hefjist. Ekki sé því rétt hjá ríkisskattstjóra að aðgreina skipulag og verklegar framkvæmdir.

IV.

Meðal gagna málsins er umsögn ríkisskattstjóra, dags. 14. september 2015. Þar kemur m.a. fram að samkvæmt samþykktum kæranda og ársreikningi fyrir rekstrarárið 2013 sé tilgangur félagsins eignarhald á bygginga- og lóðarréttindum fjölbýlishúsa, skipulagning og sala þeirra ásamt lánastarfsemi tengdri rekstrinum og annar skyldur rekstur. Kærandi hafi talið fram í skattframtali sínu árið 2014 tekjur vegna söluhagnaðar lóða en ekki vegna sölu fasteigna eða fasteigna í byggingu. Að öðru leyti eru í umsögninni ítrekuð sjónarmið sem fram komu í hinum kærða úrskurði.

V.

Endurgreiðslubeiðni kæranda er byggð á ákvæðum 2. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum, sbr. bráðabirgðaákvæði XV í sömu lögum, með áorðnum breytingum, sbr. einnig reglugerð nr. 449/1990, um endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna við íbúðarhúsnæði, og reglugerð nr. 440/2009, um tímabundna aukna endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna við íbúðarhúsnæði og frístundahúsnæði auk annars húsnæðis sem er alfarið í eigu sveitarfélaga, beggja með áorðnum breytingum. Endurgreiðslubeiðnin varðar virðisaukaskatt af útgjöldum sem kærandi telur standa í tengslum við nýbyggingu íbúðarhúsnæðis. Umfjöllun hér á eftir tekur mið af þessu.

Í XIII. kafla laga nr. 50/1988 er fjallað um endurgreiðslu virðisaukaskatts. Í 2. mgr. 42. gr. laganna segir að endurgreiða skuli byggjendum íbúðarhúsnæðis 60% þess virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt af vinnu manna á byggingarstað. Jafnframt skuli endurgreiða eigendum íbúðarhúsnæðis 60% þess virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt af vinnu manna við endurbætur eða viðhald þess. Fram kemur að fjármálaráðherra setji með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd þessara endurgreiðslna.

Nánari ákvæði um endurgreiðslur á grundvelli 2. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1988 er að finna í reglugerð nr. 449/1990. Í a-lið 1. gr. reglugerðarinnar kemur fram að eftir því sem nánar sé ákveðið í reglugerðinni skuli endurgreiða virðisaukaskatt sem byggjendur íbúðarhúsnæðis hafi greitt vegna manna á byggingarstað. Í b-lið sömu greinar kemur sama fram um virðisaukaskatt sem eigendur íbúðarhúsnæðis hafi greitt vegna vinnu manna við endurbætur eða viðhald þess og í c-lið um hluta virðisaukaskatts af söluverði íbúðarhúsa sem framleidd séu í verksmiðju hérlendis. Í 3. gr. reglugerðarinnar kemur fram að endurgreiðsla samkvæmt a-lið 1. gr. taki til virðisaukaskatts vegna allrar vinnu manna sem unnin sé á byggingarstað íbúðarhúsnæðis við nýbyggingu þess, þar með talið vinnu við framkvæmdir við lóð hússins, jarðvegslagnir umhverfis hús, girðingar, bílskúra og garðhýsa á íbúðarhúsalóð. Endurgreiðsla samkvæmt b-lið 1. gr. taki á sama hátt til virðisaukaskatts vegna allrar vinnu manna við endurbætur og viðhald íbúðarhúsnæðis. Þá kemur fram í 5. gr. reglugerðarinnar að rétt til endurgreiðslu samkvæmt a-lið 1. gr. eigi hver sá sem byggi á eigin lóð eða leigulóð íbúðarhúsnæði á eigin kostnað til eigin nota, leigu eða sölu. Rétt til endurgreiðslu samkvæmt b-lið 1. gr. eigi hver sá sem framkvæmi endurbætur eða viðhald á íbúðarhúsnæði í sinni eigu.

Í 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða XV í lögum nr. 50/1988, sbr. 2. gr. laga nr. 10/2009, með áorðnum breytingum, kemur fram að þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1988 skuli á tímabilinu 1. mars 2009 til 1. janúar 2015 endurgreiða byggjendum íbúðarhúsnæðis og frístundahúsnæðis 100% þess virðisaukaskatts sem þeir hafi greitt af vinnu manna á byggingarstað. Jafnframt skuli á sama tímabili endurgreiða eigendum íbúðarhúsnæðis og frístundahúsnæðis 100% þess virðisaukaskatts sem þeir hafi greitt af vinnu manna við endurbætur eða viðhald þess. Að öðru leyti gildi ákvæði 2. mgr. 42. gr. á umræddu tímabili. Í 2. mgr. ákvæðis til bráðabirgða XV kemur fram að á sama tímabili skuli endurgreiða byggjendum íbúðarhúsnæðis og frístundahúsnæðis 100% þess virðisaukaskatts sem þeir hafi greitt af þjónustu vegna hönnunar eða eftirlits með byggingu þess háttar húsnæðis. Jafnframt skuli á sama tímabili endurgreiða eigendum íbúðarhúsnæðis og frístundahúsnæðis 100% þess virðisaukaskatts sem þeir hafi greitt af þjónustu vegna hönnunar eða eftirlits við endurbætur eða viðhald sams konar húsnæðis.

Á grundvelli bráðabirgðaákvæðis XV í lögum nr. 50/1988 var sett reglugerð nr. 440/2009 þar sem nánar var kveðið á um skilyrði fyrir tímabundinni aukinni endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna við íbúðarhúsnæði og frístundahúsnæði. Að gerðri breytingu samkvæmt reglugerð nr. 605/2009 kemur fram í a-lið 1. gr. reglugerðarinnar að endurgreiða skuli virðisaukaskatt sem byggjendur íbúðarhúsnæðis og frístundahúsnæðis hafi greitt af vinnu manna á byggingarstað, og í c-lið 1. gr. kemur fram að endurgreiða skuli virðisaukaskatt sem byggjendur íbúðarhúsnæðis og frístundahúsnæðis hafi greitt af þjónustu vegna hönnunar eða eftirlits með byggingu þess. Að öðru leyti en kveðið er á um í reglugerð þessari gilda ákvæði reglugerðar nr. 449/1990, sbr. 5. gr. reglugerðar nr. 440/2009.

Endurgreiðslubeiðni kæranda tekur til virðisaukaskatts samkvæmt 42 sölureikningum, sem dagsettir eru á bilinu 9. janúar til 31. desember 2013, frá sjö þjónustuaðilum. Er þar um að ræða L ehf., verkfræðistofurnar M og N, svo og arkitektastofurnar O, P, R ehf. og S sf. Af hálfu kæranda er komið fram, sbr. m.a. bréf til ríkisskattstjóra, dags. 5. mars 2014, að félagið undirbúi byggingaframkvæmdir á íbúðarhúsalóðum sem séu í eigu félagsins í X-bæ. Í undirbúningi felist kostnaður vegna hönnunar og eftirlits, þar með talið vinna við deiliskipulag og við arkitektateikningar að fjölbýlishúsum á einstökum lóðum. Samkvæmt sölureikningunum er m.a. um að ræða vinnu við yfirlestur, rýni og breytingar á deiliskipulagi, gerð kynningargagna, skipulagsuppdrátta og frumdraga vegna deiliskipulags, mælingu og eftirlit með undirbúningi byggingarframkvæmda, hnitsetningu lóða og mælingar. Þá eru á reikningunum tilgreindir fundir vegna sömu vinnu. Virðisaukaskattur af vinnunni er samtals tilgreindur 4.087.176 kr.

Ríkisskattstjóri synjaði kæranda um endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu fyrrgreindra sjö þjónustusala samkvæmt framlögðum reikningum. Voru forsendur ríkisskattstjóra þær að kærandi væri ekki byggingaraðili í skilningi reglugerðar nr. 576/1989, um virðisaukaskatt af byggingarstarfsemi, enda fælist starfsemi félagsins í því að skipuleggja byggð á byggingarlandi sínu. Að því er varðar hluta reikninganna byggði ríkisskattstjóri ennfremur á því að þeir væru vegna verka sem ekki veittu heimild til endurgreiðslu virðisaukaskatts, þ.e. væru ekki vegna hönnunar á íbúðarhúsnæði heldur frekar vegna undirbúnings og skipulagsmála. Af hálfu kæranda er synjun ríkisskattstjóra mótmælt á þeim forsendum að íbúðarlóðahafar njóti réttar til endurgreiðslu virðisaukaskatts og að endurgreiðsluréttur nái til vinnu arkitekta, verkfræðinga og tæknifræðinga við hönnun, en þar með beri að telja skipulagsvinnu sem eigi sér stað áður en verklegar framkvæmdir á byggingarstað hefjist.

Samkvæmt orðalagi 2. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1988 og ákvæðis XV til bráðabirgða í þeim lögum, sbr. lög nr. 10/2009, er réttur samkvæmt þessum ákvæðum til endurgreiðslu virðisaukaskatts af þargreindum kostnaði vegna nýbyggingar íbúðarhúsnæðis veittur „byggjendum íbúðarhúsnæðis ...“, þar á meðal sú sérstaka heimild sem greinir í 2. mgr. bráðabirgðaákvæðisins til endurgreiðslu virðisaukaskatts af aðkeyptri þjónustu vegna hönnunar eða eftirlits með byggingu íbúðarhúsnæðis. Sama afmörkun rétthafa endurgreiðslu kemur fram í reglugerðarákvæðum sem um þetta gilda. Jafnframt er tekið fram í 5. gr. reglugerðar nr. 449/1990 að réttur til endurgreiðslu vegna nýbyggingar falli til þess aðila „sem byggir á eigin lóð eða leigulóð íbúðarhúsnæði á eigin kostnað til eigin nota, leigu eða sölu“. Eins og rakið er að framan kemur fram í 5. gr. reglugerðar nr. 440/2009 að ákvæði reglugerðar nr. 449/1990 gildi um endurgreiðslu virðisaukaskatts samkvæmt hinni fyrrgreindu reglugerð að því leyti sem þar sé ekki kveðið á um annað. Samkvæmt framansögðu er réttur til endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna nýbygginga íbúðarhúsnæðis bundinn eftir orðanna hljóðan við þá aðila sem standa fyrir slíkum framkvæmdum á eigin kostnað. Nærtækt þykir að skilja hugtakið byggjandi íbúðarhúsnæðis í því samhengi sem að framan greinir til samræmis við ákvæði laga nr. 160/2010, um mannvirki, þar sem m.a. er kveðið á um skyldu hvers þess sem hyggur á framkvæmdir við mannvirki, svo sem nánar greinir, til þess að leita leyfis viðkomandi stjórnvalds, sbr. einkum ákvæði III. kafla laganna um byggingarleyfi.

Framangreint orðalag endurgreiðsluákvæða ber með sér að gert sé ráð fyrir að aðili hafi hafist handa við byggingu íbúðarhúsnæðis áður en komið geti til endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna framkvæmdanna, svo sem rökrétt má telja hvað varðar vinnu manna á byggingarstað. Slík takmörkun hittir ekki jafn vel í mark þegar um er að tefla virðisaukaskatt sem til fellur vegna hönnunar íbúðarhúsnæðis, enda liggur í augum uppi að gera verður ráð fyrir slíkum kostnaði áður en framkvæmdir hefjast og raunar áður en byggingarleyfi verður fengið. Hvað sem því líður stendur eftir að endurgreiðsluréttur verður að teljast bundinn við byggjendur í fyrrgreindum skilningi. Eigandi eða annar rétthafi byggingarsvæðis eða lóða(r) verður samkvæmt þessu ekki talinn eiga rétt til endurgreiðslu virðisaukaskatts eftir framangreindum ákvæðum, nema sýnt þyki að hann ráðgeri byggingu íbúðarhúsnæðis á sinn kostnað á viðkomandi svæði. Teljist það liggja fyrir verður hins vegar að líta svo á að endurgreiðsla geti tekið til útgjalda vegna vinnu m.a. arkitekta, verkfræðinga og tæknifræðinga við hönnun íbúðarhúsnæðis, sem til er stofnað áður en til verklegra byggingarframkvæmda kemur.

Eins og fyrr segir er komið fram af hálfu kæranda að útgjöld félagsins, sem liggja til grundvallar beiðninni, séu bæði vegna vinnu við deiliskipulag og vegna arkitektateikninga að þeim húsum sem fyrirhugað sé að byggja á lóðum í eigu félagsins. Skilja verður aðstæður kæranda, svo sem þeim hefur verið lýst af hálfu félagsins, þannig að unnið hafi verið að skipulagi byggingarsvæðis kæranda í áföngum, en samkvæmt gögnum málsins hófst bygging fyrstu húsa í íbúðabyggð í X-bæ sumarið 2008. Ekkert kemur hins vegar fram í gögnum málsins, þar á meðal ársreikningi kæranda fyrir rekstrarárið 2013, um að félagið hafi sjálft staðið fyrir byggingarframkvæmdum á lóðum sínum á þeim tíma sem endurgreiðslubeiðni varðar. Af hálfu kæranda er því ekki heldur haldið fram að svo hafi verið eða að slíkar framkvæmdir hafi verið ráðgerðar á vegum félagsins. Verður þó að telja að forsendur ríkisskattstjóra hafi gefið kæranda tilefni til að greina frá slíkum framkvæmdum eða a.m.k. áformum um þau, hafi þeim verið til að dreifa.

Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið verður ekki talið að kærandi hafi sýnt fram á að félagið geti talist „byggjandi“ íbúðarhúsnæðis í skilningi 2. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1988, sbr. bráðabirgðaákvæði XV í þeim lögum. Samkvæmt þessu verður að fallast á það með ríkisskattstjóra að kærandi eigi ekki rétt til endurgreiðslu virðisaukaskatts eftir framangreindum ákvæðum. Krafa kæranda getur því ekki náð fram að ganga.

Þótt það hafi ekki þýðingu fyrir úrslit málsins, miðað við þessa niðurstöðu, þykir rétt að víkja í nokkru að sjónarmiðum kæranda um gildissvið endurgreiðsluákvæða sem málið varðar með tilliti til virðisaukaskatts af útgjöldum við skipulag byggingarsvæða. Af hálfu kæranda er því haldið fram að útgjöld vegna skipulagsvinnu verði að teljast þáttur í hönnun íbúðarhúsnæðis og séu þannig fyrsti liður byggingarframkvæmda. Til frekari stuðnings vísar kærandi til þess að tilgangur löggjafans með því nýmæli að endurgreiða virðisaukaskatt af þjónustu arkitekta, verkfræðinga og tæknifræðinga við hönnun, verkumsjón og eftirlit með tilgreindum framkvæmdum hafi verið að bæta verkefnastöðu þessara starfsstétta sem þá hafi búið við atvinnuleysi.

Af þessu tilefni skal tekið fram að samkvæmt orðalagi ákvæðis XV til bráðabirgða í lögum nr. 50/1988 og c-liðar 1. gr. reglugerðar nr. 440/2009 er endurgreiðsla vegna þargreindra útgjalda bundin við þjónustu vegna hönnunar eða eftirlits með byggingu íbúðarhúsnæðis og frístundahúsnæðis. Ekki þykir vafamál að orðið „hönnun“ vísi í þessu samhengi til hönnunar íbúðarhúsnæðis eða frístundahúsnæðis. Samkvæmt 1. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 felur deiliskipulag í sér skipulagsáætlun fyrir afmarkað svæði eða reit innan sveitarfélags. Í deiliskipulagi skulu teknar ákvarðanir um lóðir, lóðanotkun, byggingarreiti, byggðamynstur, þ.m.t. nýtingarhlutfall, útlit mannvirkja og form eftir því sem við á og aðrar skipulagsforsendur sem þurfa að liggja fyrir vegna byggingar- og framkvæmdaleyfa. Þá kemur fram í 5.3.2.2. gr. skipulagsreglugerðar nr. 90/2013 að í deiliskipulagi skuli afmarka lóðir fyrir byggingar og önnur mannvirki eftir atvikum, og gera grein fyrir stærð þeirra. Samkvæmt þessu verður ekki séð að kostnaður við gerð deiliskipulags eða vegna annarrar skipulagsvinnu eða undirbúnings lands til byggingaframkvæmda, þar á meðal við afmörkun byggingarlóða, almenningsrýma og umferðarmannvirkja, geti talist þáttur í hönnun íbúðarhúsnæðis, sbr. orðalag umræddra endurgreiðsluákvæða. Það leiðir af þessu að eigandi eða umráðamaður landsvæðis á ekki rétt til endurgreiðslu virðisaukaskatts af kostnaði af þessu tagi.

Eins og kærandi hefur bent á var markmið laga nr. 10/2009, um breytingu á lögum nr. 50/1988, m.a. að bæta verkefnastöðu sérfræðinga í byggingageiranum vegna yfirstandandi efnahagsþrenginga, sbr. m.a. athugasemdir við lagafrumvarp það sem varð að lögum þessum og álit efnahags- og skattanefndar, sbr. þingskjal nr. 637 á 136. löggjafarþingi 2008-2009. Hins vegar kemur ekkert fram í lögskýringargögnum sem bendir til þess að ætlun með þessum lagabreytingum hafi verið að rýmka rétt til endurgreiðslu virðisaukaskatts þannig að hann tæki til fleiri aðila en byggjenda eða eigenda húsnæðis sem sérstaklega var fellt undir endurgreiðslureglurnar, þ.e. frístundahúsnæðis og húsnæðis í eigu sveitarfélaga, eða að víkka gildissvið endurgreiðsluákvæða umfram það sem leiðir af beinu orðalagi viðkomandi lagaákvæða. Verður reyndar ekki betur séð en að lög nr. 10/2009 nái því markmiði að bæta verkefnastöðu umræddra stétta þótt þau séu skýrð eftir orðanna hljóðan.

Með vísan til þess, sem hér að framan er rakið, verður að hafna kröfu kæranda í máli þessu. Samkvæmt þeim úrslitum málsins verður ennfremur að hafna kröfu kæranda um að félaginu verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998, um breyting á þeim lögum.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfum kæranda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja