Úrskurður yfirskattanefndar

  • Aðflutningsgjöld
  • Endursending vöru til útlanda

Úrskurður nr. 201/2016

Lög nr. 88/2005, 7. gr. 1. mgr. 7. tölul.   Lög nr. 29/1993, 2. gr., 7. gr.   Reglugerð nr. 630/2008, 53. gr.  

Kærandi fór fram á endurgreiðslu aðflutningsgjalda vegna innflutnings fjórhjóla sem seld voru ónotuð til Færeyja. Þar sem ekki varð ráðið af gögnum málsins að kærandi hefði lagt fram beiðni um undanþágu fyrr en að liðnum sex mánaða fresti til að láta tollstjóra í té slíka beiðni var kröfu kæranda hafnað.

Ár 2016, miðvikudaginn 5. október, er tekið fyrir mál nr. 79/2016; kæra A ehf., dags. 23. mars 2016, vegna ákvörðunar aðflutningsgjalda. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Kæra í máli þessu, dags. 23. mars 2016, varðar kæruúrskurð tollstjóra, dags. 22. desember 2015, um ákvörðun aðflutningsgjalda vegna innflutnings fjórhjóla, sem kærandi seldi til Færeyja á árinu 2014. Er þess krafist í kærunni að ákvörðun tollstjóra verði hnekkt og að fallist verði á endurgreiðslu vörugjalds af fjórhjólunum á grundvelli 1. mgr. 53. gr. reglugerðar nr. 630/2008, um ýmis tollfríðindi.

II.

Helstu málavextir eru þeir að í ágúst 2014 flutti kærandi þrjú fjórhjól til landsins sem síðan voru seld til Færeyja. Hinn 2. október 2015 fór kærandi fram á endurgreiðslu vörugjalds af fjórhjólunum á þeim grundvelli að um væri að ræða ónotaðar vörur sem seldar hefðu verið til útlanda, sbr. ákvæði XI. kafla reglugerðar nr. 630/2008, um ýmis tollfríðindi. Tollstjóri hafnaði beiðni kæranda þar sem sex mánaða frestur til að sækja um undanþágu væri liðinn, sbr. 2. mgr. 53. gr. reglugerðar nr. 630/2008.

Með kæru, dags. 20. nóvember 2015, fór kærandi fram á að ákvörðun tollstjóra yrði endurskoðuð og kæranda yrðu endurgreidd umrædd vörugjöld. Í bréfinu kom fram að í ágúst 2014 hefði kæranda borist vörupöntun frá félagi í Færeyjum á þremur fjórhjólum að andvirði 38.750 bandaríkjadalir. Kærandi hefði falið fyrirtækinu B hf. að tolla og senda vörurnar til Færeyja. B hf. hefði fengið allar nauðsynlegar upplýsingar til að tollafgreiða fjórhjólin áður en þau voru send úr landi, en félaginu hefði láðst að gera það. Vörurnar hefðu því verið tollafgreiddar í Færeyjum hinn 10. september 2014. Kærandi hefði talið að málinu væri þar með lokið án frekari eftirmála, en í lok september 2015 hefði kærandi svo haft fregnir af því að tollstjóri hygðist hafna endurgreiðslu vörugjalda af hjólunum. Ákvörðun um höfnun endurgreiðslu hefði borist B hf. hinn 6. október 2015. Þar sem fjórhjólin hefðu verið ónotuð bæri að endurgreiða vörugjöld af þeim samkvæmt 53. gr. reglugerðar nr. 630/2008. Hefði kærandi ekki haft vitneskju um vandamálið fyrr en ákvörðun þess efnis hefði borist og talið víst að sótt hefði verið um endurgreiðslu við flutning fjórhjólanna til Færeyja, þ.e. áður en tímafrestur reglugerðarákvæðisins rann út. Þá væri jafnframt á því byggt að sótt hefði verið um endurgreiðslu vörugjalds þann 10. september 2014 þegar starfsmaður B hf. hefði átt í samskiptum við tollyfirvöld um fastanúmer hjólanna og tollskýrslu frá færeyskum tollyfirvöldum. Að öðrum kosti yrði að líta til sanngirnissjónarmiða þar sem kærandi hefði ekki vitað betur en að B hf. myndi gæta þess að útflutningur hjólanna færi fram í samræmi við tollalög, þ. á m. að sótt yrði um endurgreiðslu í samræmi við 53. gr. reglugerðar nr. 630/2008. Kæru kæranda fylgdu ýmis gögn, m.a. sölureikningar, tölvupóstsamskipti starfsmanna kæranda, B hf. og Samskipa hf. og tollskjöl.

Með kæruúrskurði, dags. 22. desember 2015, hafnaði tollstjóri kröfu kæranda. Í úrskurðinum kom fram að samkvæmt 53. gr. reglugerðar nr. 630/2008 skyldi tollstjóri fella niður eða endurgreiða aðflutningsgjöld af innfluttri, ónotaðri vöru sem seld væri til útlanda innan árs frá komudegi flutningsfars til landsins. Sama gilti um ótollafgreidda vöru sem seld væri ónotuð til útlanda. Í 2. mgr. sömu lagagreinar kæmi fram að beiðni um undanþágu skyldi látin tollstjóra í té innan sex mánaða frá komudegi flutningsfars til landsins, eða eftir atvikum sölu hennar í tollfrjálsa verslun, tollfrjálsa forðageymslu eða á frísvæði. Nauðsynleg staðfestingarskjöl skyldu liggja til grundvallar beiðni, svo sem staðfesting tollstjóra á sölureikningi, staðfesting þess að tollskoðun vöru hefði farið fram, kvittun fyrir greiðslu aðflutningsgjalda af vörunni og viðeigandi gögn til staðfestingar á útflutningi vörunnar. Beiðni kæranda um undanþágu samkvæmt ákvæðinu hefði borist tollstjóra löngu eftir lok fyrrgreinds sex mánaða frests. Væru undanþágur frá greiðslu aðflutningsgjalda skilgreindar þröngt og háðar þeim skilyrðum sem nánar væru sett í lögum og reglugerð. Þá kom fram í úrskurðinum að B hf. væri fyrirtæki sem veitti sérfræðiþjónustu í tollmiðlun. Kærandi gæti ekki borið fyrir sig vanþekkingu á reglum um fyrirkomulag endurgreiðslu samkvæmt 53. gr. reglugerðar nr. 630/2008. Þá væri því hafnað að sótt hefði verið um endurgreiðslu vörugjalda á árinu 2014, enda væri þess krafist að sótt væri um endurgreiðslu með formlegum hætti. Það hefði ekki verið gert fyrr en að liðnum fyrrgreindum fresti.

III.

Í kæru kæranda til yfirskattanefndar, dags. 23. mars 2016, er þess krafist að yfirskattanefnd endurskoði ákvörðun tollstjóra varðandi endurgreiðslu vörugjalda vegna fjórhjóla. Um rökstuðning er vísað til umfjöllunar í kæru til tollstjóra, dags. 20. nóvember 2015, og í öðrum gögnum málsins.

Með bréfi, dags. 11. maí 2016, lagði tollstjóri fram umsögn í málinu. Í umsögninni er þess krafist að úrskurður tollstjóra verði staðfestur. Eru ítrekaðar röksemdir í hinum kærða úrskurði. Umsögninni fylgdu gögn málsins sem lágu fyrir við meðferð þess hjá tollstjóra.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 17. maí 2016, var kæranda send umsögn tollstjóra í málinu og félaginu gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum af því tilefni. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.

IV.

Kæra í máli þessu varðar ákvörðun aðflutningsgjalda vegna fjórhjóla sem kærandi flutti til landsins í ágúst 2014 og seldi til Færeyja í framhaldi af því, sbr. kæruúrskurð tollstjóra, dags. 22. desember 2015, þar sem fram kemur að fjórhjólin hafi verið send til Færeyja og tollafgreidd þar í landi þann 10. september 2014. Er nánar tiltekið ágreiningur um þá ákvörðun tollstjóra að hafna beiðni kæranda um endurgreiðslu vörugjalds af hjólunum vegna sölu þeirra úr landi, en sú ákvörðun var byggð á því að sex mánaða frestur samkvæmt 2. mgr. 53. gr. reglugerðar nr. 630/2008, um ýmis tollfríðindi, til að sækja um undanþágu aðflutningsgjalda hefði verið liðinn þegar umsókn kæranda barst tollstjóra 2. október 2015. Af hálfu kæranda er þess krafist að ákvörðun tollstjóra verði hnekkt og að fallist verði á endurgreiðslu vörugjalda af fjórhjólunum.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., skal greiða í ríkissjóð vörugjald af ökutækjum sem skráningarskyld eru samkvæmt umferðarlögum nr. 50/1987, svo sem nánar greinir í lögunum. Samkvæmt 2. gr. laga nr. 29/1993 nær gjaldskyldan til allra vara, sbr. 1. gr., nýrra sem notaðra, sem fluttar eru til landsins eða eru framleiddar, unnið er að eða settar eru saman hér á landi. Vara, sem seld er úr landi, er þó ekki gjaldskyld. Í 7. gr. laga nr. 29/1993 kemur fram að tilgreind ákvæði tollalaga nr. 88/2005, þar með talið ákvæði 2. tölul., 4.-8. tölul. og 13. tölul. 1. mgr. 7. gr. þeirra laga, skuli ná til vörugjalds af ökutækjum samkvæmt hinum fyrrnefndu lögum eftir því sem við getur átt. Samkvæmt 13. gr. laga nr. 29/1993 getur ráðherra með reglugerð heimilað endurgreiðslu vörugjalds af ökutækjum sem seld eða leigð eru úr landi.

Um niðurfellingu, lækkun eða endurgreiðslu tolls er fjallað í 7. gr. tollalaga nr. 88/2005, en þar eru tilgreind í sextán töluliðum þau tilvik þar sem tollur skal lækka, falla niður eða endurgreiðast að uppfylltum nánari skilyrðum. Tekur ákvæði 7. tölul. 1. mgr. greinarinnar til vara sem tollafgreiddar hafa verið hingað til lands en eru síðar seldar ónotaðar til útlanda eða í tollfrjálsa verslun, tollfrjálsa forðageymslu eða á frísvæði. Samkvæmt 2. mgr. 7. gr. tollalaga getur ráðherra með reglugerð kveðið nánar á um skilyrði niðurfellingar, lækkunar eða endurgreiðslu tolls samkvæmt greininni. Um þetta gildir nú reglugerð nr. 630/2008, um ýmis tollfríðindi. Í XI. kafla reglugerðarinnar er fjallað um undanþágur vegna endursendingar vöru til útlanda og um gildissvið kemur nánar fram í 52. gr. reglugerðarinnar að XI. kafli gildi um undanþágu aðflutningsgjalda vegna endursendingar vöru, annað hvort hingað til lands eða til útlanda. Um ráðstöfun vöru til útlanda er fjallað í 53. gr. reglugerðar nr. 630/2008 og kemur þar fram í 1. mgr. að tollstjóri skuli fella niður eða endurgreiða aðflutningsgjöld af innfluttri, ónotaðri vöru sem er seld til útlanda, í tollfrjálsa verslun, í tollfrjálsa forðageymslu eða á frísvæði, innan árs frá komudegi flutningsfars til landsins. Sama gildir um ótollafgreidda vöru, sem send er ónotuð til útlanda. Samkvæmt 2. mgr. 53. gr. reglugerðarinnar skal beiðni um undanþágu samkvæmt 1. mgr. látin tollstjóra í té innan sex mánaða frá brottför flutningsfars eða eftir atvikum sölu hennar í tollfrjálsa verslun, tollfrjálsa forðageymslu eða á frísvæði. Skulu nauðsynleg staðfestingarskjöl liggja til grundvallar beiðni, svo sem staðfesting tollstjóra á sölureikningi, staðfesting þess að tollskoðun vöru hafi farið fram, kvittun fyrir greiðslu aðflutningsgjalda af vörunni og viðeigandi gögn til staðfestingar á útflutningi vörunnar.

Af hálfu kæranda er byggt á því í málinu að beiðni félagsins um undanþágu frá aðflutningsgjöldum vegna greindra fjórhjóla hafi legið fyrir tollstjóra í september 2014 og er í því sambandi vísað til tölvupóstsamskipta sem eru meðal gagna málsins, sbr. fskj. nr. 6 með kæru kæranda til tollstjóra, dags. 20. nóvember 2015. Af þessum gögnum, þ.e. tölvupóstsamskiptum milli starfsmanna kæranda, B hf. og Samskipa hf., verður ekki ráðið að nein slík beiðni hafi komið fram hjá tollstjóra á greindum tíma, hvorki með formlegum né óformlegum hætti. Verður að leggja til grundvallar að beiðni kæranda um endurgreiðslu vörugjalds hafi ekki borist tollstjóra fyrr en í október 2015, sbr. fskj. nr. 2 með fyrrgreindri kæru til tollstjóra. Var þá liðinn sex mánaða frestur samkvæmt 2. mgr. 53. gr. reglugerðar nr. 630/2008. Ekki getur skipt neinu máli þótt kæranda sjálfum verði ekki kennt um tafir sem urðu á því að sækja um endurgreiðslu vörugjalds. Með vísan til framanritaðs og þar sem ekki er neinn ágreiningur um ákvörðun tollstjóra að öðru leyti er kröfu kæranda í máli þessu hafnað.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kæranda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja