Úrskurður yfirskattanefndar
- Aðflutningsgjöld
- Tollflokkun
- Hanskar
- Málsmeðferð
Úrskurður nr. 202/2016
Lög nr. 88/2005, 20. gr. Lög nr. 37/1993, 7. gr. Almennar reglur um túlkun tollskrár. Reglur nr. 501/1994.
Deilt var um tollflokkun á hönskum sem kærandi flutti til landsins. Kærandi taldi að um væri að ræða öryggishanska sem féllu í tollskrárnúmer 4015.1901 í tollskrá. Í úrskurði yfirskattanefndar var vísað til þess að samkvæmt úrskurðaframkvæmd ríkistollanefndar hefði verið litið svo á að undir tollskrárnúmer 4015.1901 ættu eingöngu hanskar sem teldust til þriðja flokks persónuhlífa (flóknar persónuhlífar) samkvæmt reglum nr. 501/1994, um gerð persónuhlífa, auk annarra skilyrða. Ekkert þætti hafa komið fram af hálfu kæranda sem gæfi tilefni til annars en að leggja þessa úrskurðaframkvæmd til grundvallar í málinu. Óumdeilt væri að framleiðandi umræddra hanska hefði flokkað þá sem fyrsta flokks persónuhlífar. Var kröfu kæranda því hafnað.
Ár 2016, miðvikudaginn 5. október, er tekið fyrir mál nr. 93/2016; kæra A hf., dags. 28. apríl 2016, vegna ákvörðunar aðflutningsgjalda. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur
ú r s k u r ð u r :
I.
Kæra í máli þessu, dags. 28. apríl 2016, varðar úrskurð tollstjóra, dags. 29. febrúar 2016, um endurákvörðun aðflutningsgjalda vegna tilgreindra vörusendinga á árunum 2013, 2014 og 2015. Með úrskurði þessum hækkaði tollstjóri aðflutningsgjöld kæranda um samtals 2.318.448 kr., sbr. 111. gr. tollalaga nr. 88/2005. Í kæru til yfirskattanefndar er þess aðallega krafist að úrskurður tollstjóra verði felldur úr gildi. Til vara er þess krafist að endurákvörðun aðflutningsgjalda taki einvörðungu til vörusendinga sem afgreiddar séu eftir 29. febrúar 2016. Þá er gerð krafa um að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998, um breyting á þeim lögum.
II.
Helstu málavextir eru þeir að með bréfi, dags. 2. desember 2015, tilkynnti tollstjóri kæranda að fyrirhugað væri að endurákvarða aðflutningsgjöld af níu sendingum sem kærandi hefði fengið tollafgreiddar á tímabilinu frá 26. mars 2013 til 28. júlí 2015. Tók tollstjóri fram að ríkistollanefnd, nú yfirskattanefnd, hefði þrisvar sinnum úrskurðað hvað teldust vera öryggishanskar samkvæmt tollskrárnúmerum 4015.1901 og 6116.1001. Væri um að ræða úrskurði nr. 13/2010, 2/2011 og 4/2014. Samkvæmt úrskurðunum yrði varan að vera CE-merkt og falla í þriðja flokk persónuhlífa (Category III), þ.e. skilgreinast sem flóknar persónuhlífar. Þá yrðu viðeigandi táknmyndir að vera á umbúðum ásamt númeri viðurkenndrar skoðunarstofu. Kom fram að tollstjóra hefði borist sýnishorn ásamt tæknilegum upplýsingum af umræddum hönskum. Skoðun hefði leitt í ljós að hvergi kæmi fram á umbúðum vörunnar að hún félli undir verndarflokk 3. Að mati tollstjóra uppfylltu umræddir hanskar því ekki skilyrði til að teljast vera öryggishanskar undir tollskrárnúmeri 4015.1901. Bæri að flokka þá í tollskrárnúmer 4015.1909. Tollstjóri fjallaði í framhaldi af þessu um fyrrgreindar níu sendingar og rakti heildarfjárhæð reikninga að baki sendingunum og hvaða vörur hefðu verið tilgreindar á reikningunum. Að mati tollstjóra hefði kærandi flokkað nánar tilteknar vörur í umræddum sendingum undir rangt tollskrárnúmer. Kom fram að á báðum tollskrárnúmerum hvíldi 25,5% virðisaukaskattur og úrvinnslugjald af umbúðum. Á tollskrárnúmeri 4015.1909 hvíldi hins vegar 15% tollur.
Með bréfi, dags. 15. janúar 2016, mótmælti kærandi fyrirhugaðri endurákvörðun aðflutningsgjalda. Kom fram að kærandi hefði hingað til tollað hanskana, sem kæmu frá dönsku fyrirtæki, undir tollvörunúmeri 4015.1901 sem bæri 0% toll, enda væru hanskarnir viðurkenndir öryggishanskar af Vinnueftirliti ríkisins og samþykktir af tollyfirvöldum. Varan væri notuð til að auka öryggi notenda og uppfyllti allar kröfur sem gerðar væru til hennar við umrædda tollflokkun. Varan hefði verið tollflokkuð í tollskrárnúmer 4015.1901 í samráði við starfsmenn tollstjóra. Í bréfinu var lýst tildrögum þess að hönskunum hefði valist umrætt tollskrárnúmer. Í september 2010 hefði starfsmaður kæranda, sem þá hefði starfað fyrir H ehf., verið í samskiptum við B tollsérfræðing varðandi innflutning vörunnar. Nefndur B hefði óskað eftir því að H ehf. skilaði inn staðfestingu á því að umrædd vara heyrði undir reglugerð nr. 89/686/EEC. Staðfestingunni hefði verið skilað með tölvupósti til B þann 1. september 2010. Í framhaldinu hefði B óskað eftir áritun frá Vinnueftirliti ríkisins. Áritun hefði fengist frá vinnueftirlitinu þann 2. september 2010 og í kjölfarið verið send tollstjóra.
Með úrskurði, dags. 29. febrúar 2016, hratt tollstjóri hinum boðuðu breytingum á aðflutningsgjöldum kæranda í framkvæmd, sbr. 111. gr. tollalaga nr. 88/2005. Samkvæmt úrskurðinum hækkuðu aðflutningsgjöld kæranda um samtals 2.318.448 kr. Tollstjóri rakti í úrskurði sínum aðdraganda málsins og tilgreindi vörusendingar sem endurákvörðunin tók til. Rakti tollstjóri að ríkistollanefnd, nú yfirskattanefnd, hefði þrisvar sinnum úrskurðað hvað teldust vera öryggishanskar samkvæmt tollskrárnúmeri 4015.1901 og 6116.1001. Um væri að ræða úrskurði númer 13/2010, 2/2011 og 4/2014. Samkvæmt þeim þyrfti varan að falla undir Category III (flóknar persónuhlífar), vera CE-merkt, viðeigandi táknmyndir þyrftu að vera á umbúðum og númer viðurkenndrar skoðunarstofu þyrfti að koma fram á umbúðum.
Vegna andmælabréfs kæranda, dags. 15. janúar 2016, tók tollstjóri fram að vinnueftirlitið stundaði ekki lengur að viðurkenna persónuhlífar, sbr. tilvitnun í úrskurð ríkistollanefndar nr. 13/2010. Frá og með greindum úrskurði, sem kveðinn hefði verið upp þann 21. apríl 2012, þyrftu hanskar að falla undir Category III (flóknar persónuhlífar) til að geta tollflokkast sem öryggishanskar í tollskrárnúmer 4015.1901 og 6116.1001. Sú vara sem væri til umfjöllunar væri hins vegar merkt á umbúðum sem Class I. Þær vörusendingar sem málið varðaði hefðu verið tollafgreiddar á árunum 2013, 2014 og 2015. Því hefði innflytjandi haft nægan tíma til að bregðast við og breyta tollflokkun til samræmis við greindan úrskurð ríkistollanefndar. Einnig væri eðlilegt að kærandi, sem væri stórt innflutningsfyrirtæki, fylgdist vel með breytingum á tollflokkun innfluttra vara. Vísaði tollstjóri í þessu sambandi til þess að þrisvar sinnum hefði verið úrskurðað vegna sams konar vöru og væru allir úrskurðirnir aðgengilegir á vefsíðu tollstjóra. Með hliðsjón af framangreindu og þeim rökum sem fram kæmu í boðunarbréfi tollstjóra þætti ekki tilefni til að fallast á sjónarmið kæranda.
III.
Í kafla I hér að framan er gerð grein fyrir kröfum kæranda samkvæmt kæru, dags. 28. apríl 2016. Er þess aðallega krafist að úrskurður tollstjóra verði felldur úr gildi og að staðfest verði að umræddir öryggishanskar falli undir tollskrárnúmer 4015.1901 í tollskrá. Til vara er þess krafist að endurákvörðun aðflutningsgjalda verði aðeins látin ná til vörusendinga kæranda sem afgreiddar séu eftir 29. febrúar 2016. Í kærunni er gerð grein fyrir málavöxtum og tekið fram að aðilar séu sammála um að hinir innfluttu hanskar uppfylli skilyrði til þess að falla undir kafla 40 og undirkafla 4015 í tollskrá. Ágreiningur sé hins vegar uppi um hvort fella beri hanskana undir tollskrárnúmer 4015.1909, sbr. endurákvörðun tollstjóra, eða undir tollskrárnúmer 4015.1901 sem öryggishanska, eins og kærandi telji.
Fram kemur að aðalkrafa kæranda sé byggð á því að umræddir hanskar séu öryggishanskar, ætlaðir til nota á heilbrigðisstofnunum, sem séu í samræmi við tilskipun 89/686/EBE og 93/42/EBE. Innflytjendum sé samkvæmt 20. gr. laga nr. 88/2005 gert að færa vörur í tollflokk sem sé viðeigandi samkvæmt tollskjölum og almennum reglum um túlkun tollskrárinnar. Þar komi fram að tollflokkun skuli byggð á orðalagi vöruliða og athugasemda við viðeigandi flokka og kafla. Þar segi þó að fyrirsagnir á flokkum, köflum og undirköflum séu einungis til leiðbeiningar. Í þessu samhengi verði fyrst og fremst byggt á orðalagi vöruliða og athugasemda við tilheyrandi flokka eða kafla. Skilyrði fyrir því að flokka öryggishanska í tollskrárnúmer 4015.1901 séu að þeir séu viðurkenndir af Vinnueftirliti ríkisins samkvæmt reglum nr. 501 frá 31. ágúst 1994 um gerð persónuhlífa. Vegna innflutnings á þeim öryggishönskum sem málið varði hafi kærandi verið í samskiptum við starfsmann tollstjóra varðandi tollflokkun. Í tölvupósti frá starfsmanni tollstjóra komi eftirfarandi fram: „áritun vinnueftirlitsins þarf á hanska í 4015-1901.“ Er í þessu sambandi vísað til meðfylgjandi tölvupóstsamskipta frá árinu 2010. Vegna þessa hafi kærandi ákveðið að afla sér áritunar vinnueftirlitsins, sbr. meðfylgjandi áritun. Hafi kærandi af þessum sökum verið fullviss um að umræddir hanskar féllu í tollflokk 4015.1901.
Í kærunni er tekið fram að hanskarnir séu skráðir í Class 1 en ekki Category III. Að mati kæranda eigi það hins vegar ekki að koma að sök, enda komi skýrt fram að einungis sé nauðsynlegt að fá áritun frá vinnueftirlitinu, eins og kærandi hafi gert. Er í þessu sambandi vísað til úrskurðar ríkistollanefndar nr. 2/2011 þar sem niðurstaðan hafi orðið sú að Sempercare Edition Exam-Tex-LF einnota latexhanski til heilbrigðisskoðunar félli undir tollskrárnúmer 4015.1901. Í máli kæranda sé um að ræða sambærilega hanska. Er í þessu sambandi vísað til jafnræðisreglu stjórnsýslulaga. Hanskarnir séu fyrst og fremst hugsaðir fyrir heilbrigðisþjónustu og séu því merktir í Class 1 í samræmi við tilskipun 93/42/EBE um lækningatæki. Tilskipunin hafi verið innleidd hér á landi með lögum nr. 16/2001, um lækningatæki. Í 5. gr. laganna sé tiltekið að áður en lækningatæki séu sett á markað, seld eða tekin í notkun sé skylt að merkja þau í samræmi við reglur Evrópusambandsins um lækningatæki.
Vísað er til þess í kæru að tollskrárnúmer 4015.1901 sé með lýsandi heiti og geri einungis ráð fyrir áritun vinnueftirlitsins. Hinir innfluttu hanskar falli undir reglur nr. 501/1994, um gerð persónuhlífa, sem settar hafi verið vegna tilskipunar 89/686/EBE, sbr. 19. reglnanna. Hanskarnir uppfylli staðla í tilskipun 89/686/EBE, sbr. skjöl um EC vottun og „Declaration of Confirmity“ frá framleiðanda sem fylgja kærunni. Sé tekið mið af skýringum Brusselskrárinnar flokkist hanskarnir undir tollskrárnúmer 4015.1901. Byggt sé á því að þegar vara uppfylli skilyrði tveggja vöruflokka verði að miða við þann vöruflokk sem feli í sér nákvæmari lýsingu. Lýsing á flokki 4015.1901 í tollskrá sé nákvæmari en lýsing á flokki 4015.1909. Í tollskránni komi fram að tollflokkur 4015.1909 sé „annars“, en tollflokkur 4015.1901 sé „öryggishanskar, viðurkenndir af Vinnueftirliti ríkisins samkvæmt reglum nr. 501 31. ágúst 1994“.
Í kæru er á því byggt að Evrópudómstóllinn hafi komist að þeirri niðurstöðu í málum C-260/00 og 262/00 að skilja verði á milli vöru með sérstaka eiginleika og vöru með almenna eiginleika. Velja skuli fyrri kostinn beri varan eitthvað af þeim eiginleikum sem skilja hana frá almennum vörum sama eðlis. Umræddir hanskar séu fyrst og fremst hugsaðir til sölu fyrir heilbrigðisþjónustu. Þá séu þeir notaðir við rannsóknir hjá Háskóla Íslands. Séu hanskarnir þannig fyrst og fremst seldir á staði þar sem öryggi skipti höfuðmáli. Telji kærandi því ljóst að hanskarnir séu öryggishanskar í skilningi reglna nr. 501 frá 31. ágúst 1994.
Varakrafa kæranda er rökstudd með því að verulegir annmarkar hafi verið á meðferð málsins. Vegna þess hversu snúið tollkerfið sé varðandi innflutning á hönskum hafi kærandi haft samband við starfsmann tollstjóra við upphaf innflutnings. Kærandi hafi því fengið áritun vinnueftirlitsins til að tryggja að hanskarnir féllu undir tollskrárnúmer 4015.1901, sbr. fylgiskjöl með kærunni. Með hinum kærða úrskurði sé gefið í skyn að leiðbeiningar starfsmanns tollstjóra hafi verið haldnar verulegum annmörkum og hafi hreinlega verið rangar. Er vísað til leiðbeiningarreglu 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þegar leitað sé eftir leiðbeiningu frá tollstjóra eigi kærandi að geta treyst því að stjórnvald hafi leyst málið á hlutlægan og málefnalegan hátt. Sú staðreynd að tollstjóri endurákvarði aðflutningsgjöld aftur í tímann þvert á ráðgjöf og tilmæli starfsmanns síns sé óvönduð stjórnsýsla. Þá telur kærandi að hin kærða endurákvörðun brjóti gegn meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og réttmætum væntingum kæranda. Ennfremur sé brotið gegn jafnræðisreglu. Réttaröryggi byggi fyrst og fremst á því að löggjöf sé skýr og nákvæm.
Vegna tilvísana tollstjóra til úrskurðar ríkistollanefndar nr. 13/2010 kemur fram í kærunni að ágreiningur í því máli hafi lotið að því hvort fyrirtæki gæti flutt inn vörur undir tollskrárnúmeri 6116.1001, sem sé annað tollskrárnúmer en eigi við í máli kæranda. Í úrskurðinum komi jafnframt fram að kærandi í því máli hafi leitað eftir viðurkenningu vinnueftirlitsins, en ekki fengið. Kærandi hafi hins vegar fengið slíka áritun og sé því ekki um sambærileg mál að ræða. Vísað er til raka tollstjóra um að innflutningsaðili eins og kærandi eigi að fylgjast vel með breytingum á tollflokkun. Í þessu máli hafi hins vegar aldrei átt sér stað nein breyting af hálfu löggjafar- og framkvæmdarvalds. Um sé að ræða breytta túlkun sem mjög erfitt sé fyrir kæranda að átta sig á. Megi nefna að í úrskurði tollstjóra sé vísað til úrskurðar ríkistollanefndar nr. 4/2014 sem ekki sé birtur á vefsvæði tollstjóra.
IV.
Með bréfi, dags. 24. júní 2016, hefur tollstjóri lagt fram umsögn um kæruna og gert þá kröfu að niðurstaða embættisins í úrskurði tollstjóra um endurákvörðun verði staðfest. Í umsögninni kemur fram að tollstjóri telji mjög skýrt af hálfu ríkistollanefndar í úrskurðum nr. 13/2010, 2/2011 og 4/2014 og úrskurði yfirskattanefndar nr. 100/2016 að skilyrði þess að hanskar falli undir tollskrárnúmer 4015.1901 sé að þeir falli í flokk 3 eða Cat. III, sbr. skiptingu persónuhlífa á grundvelli reglna nr. 501/1994, auk annarra skilyrða. Með vísan til úrskurðanna sé það mat tollstjóra að til þess að hanskar flokkist sem öryggishanskar í tollskrárnúmer 4015.1901 þurfi þau skilyrði að vera uppfyllt að umbúðir utan um hanska séu CE-merktar, númer skoðunarstofu þurfi að vera á umbúðum, umbúðir utan um vöru þurfi að vera merktar með Category III og viðeigandi táknmyndir þurfi að vera á umbúðum. Umræddir hanskar í sendingum kæranda uppfylli ekki þessi skilyrði og því beri að flokka þá í tollskrárnúmer 4015.1909. Því er mótmælt að í málinu sé um að ræða sambærilega hanska og fjallað var um í úrskurði ríkistollanefndar í máli nr. 2/2011. Hanskar í því máli hafi uppfyllt öll skilyrði til að flokkast sem öryggishanskar. Hanskar kæranda séu merktir Class I eða einfaldar persónuhlífar.
Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 30. júní 2016, var kæranda send umsögn tollstjóra í málinu og félaginu gefinn kostur á að koma athugasemdum á framfæri.
Með bréfi kæranda, dags. 10. ágúst 2016, er ítrekað að kæranda hafi gert það sem félaginu bar skylda til, þ.e. að fá áritun vinnueftirlits. Eigi kærandi að geta treyst þeim upplýsingum og leiðbeiningum sem félagið fái frá stjórnvaldi, sbr. leiðbeiningarreglu stjórnsýsluréttar. Það sé rétt hjá tollstjóra að hanskarnir séu merktir Class I. Hins vegar verði að horfa til þess hvað slík merking þýði. Er ítrekað að hanskarnir séu merktir Class I í samræmi við tilskipun 93/42/EBE um lækningatæki. Samkvæmt 5. gr. laga nr. 16/2001, um lækningatæki, sé skylt áður en lækningatæki eru sett á markað, seld eða tekin í notkun að merkja þau í samræmi við reglur Evrópusambandsins um lækningatæki, sem séu hluti af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, eða kröfur sem gerðar séu í samningum sem Ísland hefur gert við ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins. Það sé lykilatriði í málinu að hanskarnir séu merktir í samræmi við reglur um lækningatæki.
V.
Kæra í máli þessu varðar úrskurð tollstjóra, dags. 29. febrúar 2016, um endurákvörðun aðflutningsgjalda kæranda vegna tilgreindra vörusendinga á árunum 2013, 2014 og 2015, sbr. 111. gr. tollalaga nr. 88/2005. Var endurákvörðun tollstjóra byggð á því að við innflutning kæranda á hönskum hefði ranglega verið lagt til grundvallar að varan flokkaðist sem öryggishanskar í tollskrárnúmer 4015.1901 í tollskrá. Vísaði tollstjóri til þess að ríkistollanefnd hefði kveðið upp úrskurði í nokkrum málum þar sem reynt hefði á tollflokkun hanska, þ.e. hvort um öryggishanska væri að ræða sem féllu undir þargreind tollskrárnúmer, sbr. úrskurði ríkistollanefndar nr. 13/2010, 2/2011 og 4/2014. Til þess að teljast öryggishanskar sem féllu undir tollskrárnúmer 4015.1901 eða 6116.1001 yrði varan að falla undir Category III (þriðja flokk persónuhlífa), þ.e. teljast flóknar persónuhlífar, varan þyrfti að bera CE-merki, viðeigandi táknmyndir yrðu að vera á umbúðum vörunnar og númer viðurkenndrar skoðunarstofu yrði að koma fram á umbúðunum. Tók tollstjóri fram að skoðun á hönskum sem um ræðir í málinu hefði leitt í ljós að hvergi kæmi fram umbúðum vörunnar að hún félli undir þriðja flokk persónuhlífa. Taldi tollstjóri því að varan félli undir tollskrárnúmer 4015.1909. Af hálfu kæranda er byggt á því að hinir innfluttu hanskar séu öryggishanskar sem merktir séu í samræmi við tilskipun nr. 89/686/EBE, um samræmingu laga aðildarríkjanna um persónuhlífar, og tilskipun nr. 93/42/EBE, um lækningatæki. Skilyrði fyrir flokkun í tollskrárnúmer 4015.1901 sé viðurkenning frá vinnueftirliti samkvæmt reglum nr. 501, 31. ágúst 1994, um gerð persónuhlífa, sem liggi fyrir í tilviki kæranda. Til vara er þess krafist að endurákvörðun tollstjóra taki einvörðungu til vörusendinga sem afgreiddar séu eftir 29. febrúar 2016, enda hafi kærandi byggt tollflokkun á leiðbeiningum tollstjóra sjálfs. Er í því sambandi vísað til leiðbeiningarskyldu stjórnvalda samkvæmt 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og sjónarmiða um réttmætar væntingar.
Rétt þykir að gera nánari grein fyrir vöruliðum sem hér um ræðir.
Vöruliður 4015 skiptist á eftirfarandi hátt:
4015 |
Fatnaður og hlutar til hans (þar með taldir hanskar, belgvettlingar og vettlingar), til hvers konar nota, úr vúlkaníseruðu gúmmíi, þó ekki harðgúmmíi: |
|
|
— Hanskar, belgvettlingar og vettlingar: |
|
4015.1100 |
— — Til skurðlækninga |
|
|
— — Aðrir: |
|
4015.1901 |
— — — |
Öryggishanskar, viðurkenndir af Vinnueftirliti ríkisins samkvæmt reglum nr. 501 31. ágúst 1994 |
4015.1909 |
— — — |
Annars |
4015.9000 |
— Annað |
Í úrskurði ríkistollanefndar nr. 13/2010, svo og í síðari úrskurðum nefndarinnar þar sem fjallað er um tollflokkun persónuhlífa, m.a. úrskurði nr. 4/2014, sbr. ennfremur úrskurð yfirskattanefndar nr. 100/2016, er gerð grein fyrir reglum nr. 501/1994, um gerð persónuhlífa, og byggt á þeim við mat á því hvort hin innflutta vara og vottun hennar uppfyllti kröfur sem gerðar eru til svonefndra flókinna persónuhlífa. Á þetta reyndi einnig í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 26. maí 2016 í máli nr. E-117/2015. Umræddar reglur nr. 501/1994 fela í sér innleiðingu á tilskipun nr. 89/686/EBE um samræmingu laga aðildarríkjanna um persónuhlífar. Fram kemur í umræddum úrskurðum að telja verði prófunarvottorð samþykktra erlendra skoðunaraðila á grundvelli tilskipunar 89/686/EBE á hinni innfluttu vöru jafngilda þeirri viðurkenningu sem gert er ráð fyrir að Vinnueftirlit ríkisins veiti á grundvelli reglna nr. 501/1994 og vísað er til í tollskrárnúmerum 4015.1901 og 6116.1001. Í þessari úrskurðaframkvæmd hefur einnig verið byggt á þriggja flokka skiptingu persónuhlífa á grundvelli reglna nr. 501/1994, sbr. m.a. úrskurð yfirskattanefndar nr. 100/2016, þar sem rakið er að í reglugerðinni sé gert ráð fyrir eftirfarandi skiptingu persónuhlífa:
Flokkur 1 (einfaldar persónuhlífar). Í þennan flokk falla persónuhlífar, þar sem gengið er út frá því að notandinn geti metið þá vernd sem hlífin veitir gegn minniháttar hættum („minimal risk“) og gerir sér örugglega grein fyrir því tímanlega, t.d. uppþvottahanskar og regnfatnaður. Vísað er til þessa flokks persónuhlífa í 2. tölul. 8. gr. reglnanna. Búnaður í þessum flokki ber CE-merki sem framleiðanda sjálfum er heimilt að setja á vöruna á sína ábyrgð. Samkvæmt 2. tölul. 8. gr. reglnanna eru þessar vörur undanþegnar þeirri EB gerðarprófun sem vísað er til í viðauka VI við reglurnar.
Flokkur 2 (hvorki einfaldar né flóknar persónuhlífar). Í þennan flokk falla flestar persónuhlífar, þar á meðal hjálmar, heyrnahlífar og öryggisskór, svo og hlífðarhanskar fyrir málmsuðumenn (rafsuðuhanskar). Í þennan flokk falla persónuhlífar sem hvorki falla í flokk 1 né 3. Þessar persónuhlífar eru gerðarprófaðar og skal það koma fram á viðeigandi vottorði, sbr. 14. gr. reglnanna. Samkvæmt III. kafla reglnanna skulu þessar persónuhlífar bera CE-merki.
Flokkur 3 (flóknar persónuhlífar). Þessar persónuhlífar eru ætlaðar sem vernd gegn lífshættu eða alvarlegri, varanlegri hættu þar sem notandinn getur ekki gert sér grein fyrir hættunni í tíma. Dæmi eru öndunarfærahlífar með síu, fallvarnarbúnaður og persónuhlífar, m.a. hlífðarhanskar fyrir rafmagnsvinnu og til að verjast miklum hita (yfir 100°C). Í þennan flokk persónuhlífa falla þær sem vísað er til í 9. gr. reglnanna. Þær eru gerðarprófaðar og skal það koma fram á prófunarvottorði, sbr. 14. gr. reglnanna. Til viðbótar skal framleiðandi persónuhlífa í flokki 3 sjá til þess að samþykktir aðilar viðhafi sérstakt gæðaeftirlit með framleiðslu þeirra í samræmi við viðauka VII við reglurnar. Persónuhlífarnar bera CE-merki. Áskilið er í 1. tölul. 11. gr. reglnanna að þegar samþykktur aðili tekur þátt í eftirliti með framleiðsluferlinu samkvæmt VII. viðauka beri að bæta kenninúmeri hins samþykkta aðila við CE-merkinguna.
Samkvæmt framangreindu skal búnaður í flokki 1 (Cat. I), 2 (Cat. II) og 3 (Cat. III) bera CE-merkið. Búnað í flokki 3 (Cat. III) skal auk CE-merkis merkja með kenninúmeri samþykkts aðila sem hefur með höndum sérstakt eftirlit, sbr. VI. kafla reglna nr. 501/1994, auk táknmynda til merkis um hve mikla vernd búnaðurinn veitir. Í 2. tölul. 11. gr. reglnanna segir að CE-merkið skuli sett á hverja framleidda persónuhlíf þannig að það sé sýnilegt, læsilegt og óafmáanlegt allan þann tíma sem ætla má að persónuhlífin verði í notkun; sé þetta ekki hægt vegna eiginleika vörunnar megi setja CE-merkið á umbúðirnar.
Í úrskurði ríkistollanefndar nr. 13/2010 kemur fram að líta verði svo á að vottun viðurkenndra vottunarstofa (skoðunaraðila) í samræmi við reglur nr. 501/1994 um að viðkomandi hanskar falli í flokk 3 (þ.e. Cat. III) jafngildi viðurkenningu af hálfu Vinnueftirlitsins í skilningi tollskrár, enda beri varan viðeigandi CE-merki, auk kenninúmers samþykkts aðila og viðeigandi táknmyndir. Var það niðurstaða í þessum úrskurði að flokka bæri þá hanska, sem féllu í flokk 3 (Cat. III) og væru með viðeigandi CE-merkingu, kenninúmeri samþykkts aðila og viðeigandi táknmynd, ýmist undir tollskrárnúmer 4015.1901 eða 6116.1001 eftir því hvort um væri að ræða hanska úr vúlkaníseruðu gúmmíi, þó ekki harðgúmmíi, eða hanska, belgvettlinga og vettlinga, prjónaða eða heklaða, sem gegndreyptir væru og húðaðir eða hjúpaðir plasti eða gúmmíi. Hliðstæð niðurstaða hefur verið í síðari úrskurðum um þetta efni. Er vafalaust að litið hefur verið svo á að þessi tollskrárnúmer taki ekki til hanska eða vettlinga sem ekki uppfylla framangreind skilyrði.
Samkvæmt framansögðu hefur verið byggt á því í úrskurðaframkvæmd að það sé skilyrði fyrir flokkun hanska í tollskrárnúmer 4015.1901 að þeir falli í þriðja flokk persónuhlífa, auk annarra skilyrða. Ekkert þykir hafa komið fram af hálfu kæranda sem gefur tilefni til annars en að leggja þessa úrskurðaframkvæmd til grundvallar í málinu. Fyrir liggur og er óumdeilt að þeir hanskar sem um er deilt í máli þessu voru flokkaðir af framleiðanda þeirra undir öryggisflokk eitt (Cat. I). Samkvæmt þessu verður að hafna aðalkröfu kæranda.
Varakrafa kæranda er eins og fyrr segir byggð á því að kærandi hafi fengið rangar leiðbeiningar frá tollstjóra varðandi tollflokkun vörunnar. Er í þessu sambandi vísað til tölvupóstsamskipta þann 1. september 2010 þar sem starfsmaður tollstjóra hafi staðfest við starfsmann H ehf. að áritun vinnueftirlits þurfi til að hanskar geti fallið undir tollskrárnúmer 4015.1901. Eins og fram kemur í umsögn tollstjóra hefur ríkistollanefnd þrívegis úrskurðað um hvaða skilyrði hanskar þurfi að uppfylla til að geta fallið undir tollskrárnúmer 4015.1901, sbr. úrskurð nefndarinnar nr. 13/2010, sem kveðinn var upp 21. apríl 2012, úrskurð nr. 2/2011, sem kveðinn var upp 23. júlí 2012, og úrskurð nr. 4/2014 sem kveðinn var upp 8. september 2014. Eru tveir fyrrnefndu úrskurðirnir birtir á vefsíðu tollstjóra. Eins og fram er komið varðar mál kæranda innflutning á árunum 2013, 2014 og 2015. Verður því ekki fallist á með kæranda að vegna fyrrgreindra samskipta á árinu 2010 hafi félagið með réttu getað vænst þess að hin innflutta vara félli undir tollskrárnúmer 4015.1901 í tollskrá. Rétt er að taka fram að vottorð, sem fylgir kæru til yfirskattanefndar og stafar frá TÜV SÜD Product Service GmbH, er gefið út til handhafa og rann út þann 26. febrúar 2011. Ber það ekki með sér hvaða framleiðandi er vottaður og ekki verður séð að vottorðið varði nánar tiltekna vöru. Loks verður ekki talið að tollstjóri hafi vanrækt leiðbeiningarskyldu sína, sbr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en ekkert liggur fyrir um að kærandi hafi óskað eftir leiðbeiningum tollstjóra vegna þeirra vörusendinga sem málið snýst um. Verður því ekki fallist á varakröfu kæranda á þeim grundvelli sem hér um ræðir.
Með vísan til þess, sem hér að framan er rakið, verður að hafna kröfum kæranda í máli þessu. Samkvæmt þeim úrslitum málsins eru ekki lagaskilyrði til að úrskurða kæranda málskostnað til greiðslu úr ríkissjóði, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998, um breyting á þeim lögum. Kröfu þess efnis er því hafnað.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Kröfum kæranda í máli þessu er hafnað.