Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 53/1990

Gjaldár 1988

Lög nr. 73/1980 — 36. gr. — 37. gr.   Lög nr. 75/1981 — 96. gr. 3. og 4. mgr. — 99. gr. 1. mgr. 4. ml. — 106. gr. 1. mgr.  

Aðstöðugjald — Aðstöðugjaldsstofn — Aðstöðugjaldsskylda — Lögaðili — Sjálfstæður skattaðili — Aðstöðugjaldsskyldur aðili — Samstarfsfélag — Útboð — Tilboðsverk — Rökstuðningur — Rökstuðningur ákvarðana skattstjóra — Rökstuðningi áfátt — Síðbúin framtalsskil — Álag — Álag vegna síðbúinna framtalsskila — Vítaleysisástæður

Kæruatriðin eru sem hér greinir:

1. Kærð er sú ákvörðun skattstjóra að hækka tilfærðan aðstöðugjaldsstofn kæranda um 458.110 kr., sem skattstjóri hafði fært frá X. Af hálfu kæranda er þessari ákvörðun skattstjóra mótmælt og þess krafist, að hún verði felld úr gildi. Þá kröfu rökstyður kærandi í fyrsta lagi með því, að skattstjóri hafi ekki rökstutt „ákvörðun sína með tilvísun til laga eins og honum er þó skylt sbr. 3. og 4. mgr. 96. gr. laga nr. 75/1981.“ Þá telur hann ekkert tilefni hafa verið til þessarar breytingar skattstjóra og um ótvíræða tvísköttun sé að ræða. Í því sambandi gerir hann svofellda grein fyrir X:

„X er samstarfsfélag þriggja aðila á Y í byggingariðnaði, og er stofnað til þess að gera sameiginleg tilboð í útboðsverkefni. Félagið er því ekkert annað en hagkvæmt uppgjörsform milli ótengdra aðila, sem gera sameiginleg tilboð í verk. Félagið er ekki sjálfstæður skattaðili. Hver aðili um sig leggur fram vinnu samkvæmt reikningi, og er það hans hlutdeild í viðkomandi tilboðsverki, og myndast af því aðstöðugjaldsstofn hjá hverjum aðila fyrir sig. Ekki er um endursölu á vinnu að ræða. Því er ekki um að ræða aðstöðugjaldsstofn í skilningi 37. gr. laga nr. 73/1980. Hinsvegar eru gerð sameiginleg innkaup (efni og þjónusta) til verksins og mynda þau að sjálfsögðu aðstöðugjaldsstofn, sem ásamt hagnaði/tapi er skipt milli samstarfsaðilanna eftir umsaminni skiptingu tilboðsins. Jafnframt er á sama hátt skipt þeim eignum og skuldum, sem kunna að myndast í tengslum við verkið.“

2. Í öðru lagi er kærð sú ákvörðun skattstjóra að bæta 25% álagi á gjaldstofna vegna síðbúinna framtalsskila, sbr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Skattframtal kæranda árið 1988 barst skattstjóra þann 27. október 1988 sem rökstuðningur fyrir kæru, dags. 26. ágúst 1988, vegna álagningar opinberra gjalda árið 1988. Krefst kærandi þess, að álagið verði fellt niður, en ástæður síðbúinna framtalsskila verði raktar til þess aðila, er tók þau að sér, og eru gefnar skýringar á þeim af hans hálfu.

Með bréfi, dags. 20. desember 1989 gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í máli þessu fyrir hönd gjaldkrefjenda:

„a) Kærandi hefur í reikningsskilum sínum þegar tekið tillit til sinnar hlutdeildar í rekstri X og er því fallist á kröfu hans varðandi þennan kröfulið.

b) Gerð er krafa um staðfestingu á álagsbeitingu skattstjóra. Kærendur geta ekki öðlast rýmri rétt til undanþágu frá beitingu álags þó þeir fái aðstoð við framtalsgerðina. Með því að ekki hefur verið sýnt fram á að 3. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981 eigi við er ítrekuð krafan um að hið kærða álag standi óhaggað.“

Um 1. Fallist er á kröfu kæranda undir þessum kærulið.

Um 2. Eftir atvikum er einnig fallist á þessa kröfu kæranda.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja