Úrskurður yfirskattanefndar
- Auðlegðarskattur
- Viðbótarauðlegðarskattur
- Áætlun skattstofna
- Skattalegt bókfært eigið fé
Úrskurður nr. 211/2016
Gjaldár 2011 og 2012
Lög nr. 90/2003, 72. gr., 73. gr. 5. tölul., 96. gr. 1. mgr., bráðabirgðaákvæði XXXIII.
Kærendur í máli þessu kröfðust þess að við ákvörðun viðbótarauðlegðarskattsstofns vegna hlutafjáreignar í erlendu félagi bæri að taka tillit til lækkunar á skattalegu bókfærðu eigin fé félagsins sem næmi verðmæti tilfærðrar viðskiptavildar í samstæðureikningi þess. Fram kom í úrskurði yfirskattanefndar að líta yrði svo á að í ákvörðun ríkisskattstjóra, sem byggði eingöngu á upplýsingum í ársreikningi hins erlenda félags þar sem skattframtali var ekki til að dreifa, hefði falist áætlun á raunvirði eignarhlutar kærenda í félaginu. Þar sem ekki var talið að áætlunarfjárhæð ríkisskattstjóra væri úr hófi fram eða byggð á ómálefnalegum forsendum þótti ekki ástæða til að hrófla við henni. Var kæru kærenda vísað frá yfirskattanefnd að svo stöddu.
Ár 2016, miðvikudaginn 19. október, er tekið fyrir mál nr. 27/2016; kæra A og B, dags. 22. janúar 2016, vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárin 2011 og 2012. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur
ú r s k u r ð u r :
I.
Með kæru, dags. 22. janúar 2016, hafa kærendur skotið til yfirskattanefndar úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 5. nóvember 2015, um endurákvörðun opinberra gjalda kærenda gjaldárin 2011 og 2012. Með úrskurðinum hækkaði ríkisskattstjóri stofn kærenda til viðbótarauðlegðarskatts um 89.735.214 kr. gjaldárið 2011 og um 65.816.661 kr. gjaldárið 2012. Voru forsendur þessara breytinga ríkisskattstjóra þær að kærendur hefðu vantalið raunvirði hlutafjáreignar sinnar í erlendu félagi, V, í skattframtölum sínum umrædd ár.
Af hálfu kærenda er þess krafist að við ákvörðun viðbótarauðlegðarskattsstofns þeirra verði bókfært eigið fé V lækkað um verðmæti eignfærðrar viðskiptavildar að fjárhæð 5.050.344 evrur. Samkvæmt því lækki viðbótarauðlegðarskattsstofn kærenda gjaldárið 2012 um 14.221.789 kr. eða um 7.110.894 kr. í tilviki hvors um sig. Þá er þess krafist að kærendum verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með síðari breytingum.
II.
Helstu málavextir eru þeir að skattframtölum kærenda árin 2011 og 2012 fylgdu greinargerðir um viðbót við auðlegðarskattsstofn (RSK 3.23) og gerðu kærendur þar grein fyrir endurreikningi vegna hlutabréfaeignar í árslok 2009 og 2010. Meðal erlendra hlutabréfa í þeirra eigu tilgreindu kærendur eignarhluta í V að raunvirði 0 kr. Við álagningu opinberra gjalda gjaldárin 2011 og 2012 var byggt á þeim upplýsingum við ákvörðun viðbótarauðlegðarskatts.
Í framhaldi af bréfaskiptum, sbr. bréf ríkisskattstjóra til kærenda, dags. 6. febrúar og 3. júní 2015, sbr. tölvupóst 30. sama mánaðar, og svarbréf kærenda, dags. 19. febrúar og 15. júní 2015, svo og tölvupósta dagana 30. júní, 15. júlí og 10. og 24. ágúst 2015, boðaði ríkisskattstjóri kærendum með bréfi, dags. 11. september 2015, endurákvörðun opinberra gjalda gjaldárin 2011 og 2012 þar sem fyrirhugað væri að hækka stofn kærenda til viðbótarauðlegðarskatts um samtals 89.735.214 kr. fyrra árið og um samtals 65.816.661 kr. það síðara, sbr. 4. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Í bréfi sínu rakti ríkisskattstjóri fyrri bréfaskipti í málinu og tók fram að fyrirhugaðar breytingar vörðuðu raunvirði hlutabréfa kærenda í V, svo sem nánar greindi. Kærendum var veittur 16 daga frestur frá dagsetningu boðunarbréfsins til að koma að andmælum vegna boðaðrar endurákvörðunar, en engar athugasemdir voru gerðar. Með hinum kærða úrskurði, dags. 5. nóvember 2015, hratt ríkisskattstjóri hinum boðuðu breytingum í framkvæmd og endurákvarðaði opinber gjöld kærenda til samræmis, sbr. 5. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003.
Í úrskurði sínum um endurákvörðun gerði ríkisskattstjóri grein fyrir upplýsinga- og gagnaöflun í málinu. Þá rakti hann að í skattframtali kærenda árið 2011 væri stofn til útreiknings viðbótarauðlegðarskatts tilgreindur 72.048.086 kr. og í skattframtali þeirra árið 2012 væri stofninn tilgreindur 35.329.750 kr. Þá gerði ríkisskattstjóri grein fyrir helstu réttarheimildum málsins sem væru bráðabirgðaákvæði XXXIII, XXXIX og XLVII í lögum nr. 90/2003.
Ríkisskattstjóri benti á að þar sem hlutabréf í V væru ekki skráð í kauphöll eða á skipulegum tilboðsmarkaði hefði kærendum borið að telja fram til viðbótarauðlegðarskatts hlutdeild sína í skattalegu eigin fé félagsins vegna auðlegðarskatts eins og það hefði verið talið fram í skattframtali félagsins árið á undan. Ríkisskattstjóri hefði óskað eftir upplýsingum frá kærendum um hvort hlutabréfaeign þeirra í V hefði verið skráð á skipulögðum verðbréfamarkaði, á hvaða markaði þá og hvert gengi bréfanna hefði verið í lok áranna 2009, 2010, 2011 og 2012. Hefðu bréfin ekki verið skráð í kauphöll eða skipulögðum tilboðsmarkaði skyldu kærendur leggja fram afrit af ársreikningum og/eða skattframtölum félagsins eða öðrum upplýsingum sem gætu staðfest upplýsingar um raunvirði hlutabréfanna í skattframtölum kærenda fyrir umrædd ár. Þar sem kærendur hefðu ekki undir höndum upplýsingar um raunvirði hlutabréfaeignar sinnar í V hefði ríkisskattstjóri upplýst kærendur í bréfi, dags. 3. júní 2015, um að embættið hefði undir höndum upplýsingar frá öðrum skattaðilum um ætlað raunvirði hlutabréfanna og óskað eftir afstöðu þeirra til upplýsinganna. Hefði ríkisskattstjóri haft undir höndum ársreikning V vegna ársins 2010. Samkvæmt þeim ársreikningi hefði nafnverð hlutafjár í félaginu numið 18.000 evrum. Eigið fé V í árslok 2010 hefði verið 23.384.518 evrur samkvæmt samstæðureikningi félagsins. Samkvæmt þessum sama ársreikningi hefði eigið fé félagsins verið 27.336.178 evrur í árslok 2009. Svo virtist sem um væri að ræða óundirritaðan ársreikning af hálfu stjórnar án áritunar frá endurskoðanda. Miðað við upplýsingar í skattframtölum kærenda virtust kærendur hafa átt 1,83% hlutafjár í V á umræddum árum og miðað við upplýsingar í framangreindum ársreikningi hefði raunvirði eignarhluta kærenda numið 89.985.340 kr. í lok árs 2009 og 65.816.661 kr. í lok árs 2010, væri tekið mið af miðgengi evru í árslok 2009 og 2010. Yrði ekki betur séð en að raunvirði eignarhluta kærenda í hinu erlenda félagi hefði verið vantalið í skattframtölum þeirra árin 2011 og 2012 um framangreindar fjárhæðir. Kærendum hefði verið gefinn kostur á að gera athugasemdir við útreikninga ríkisskattstjóra og forsendur þeirra. Umboðsmaður kærenda hefði við meðferð málsins ekki gert athugasemdir við tilgreinda eignarhlutdeild kærenda í V, en hins vegar byggt á því að ríkisskattstjóri hefði ekki lagalegar forsendur til að reikna út raunvirði hlutabréfanna og að ríkisskattstjóra bæri að byggja á skattframtali félagsins eins og lög gerðu ráð fyrir þegar um væri að ræða félög sem ekki væru skráð í kauphöll eða á skipulegum tilboðsmarkaði. Ríkisskattstjóra væri ekki heimilt að byggja ákvörðun sína á hlutdeild kærenda í eigin fé félagsins eins og það birtist í ársreikningi án þess að viðeigandi leiðréttingar væru gerðar á því. Bæri að telja til eignar annað hvort raunvirði hlutafjár eins og það væri í viðskiptum milli ótengdra aðila eða hlutdeild í skattalegu eigin fé félagsins. Væri raunvirði eignarhluta kærenda í V ofmetið af ríkisskattstjóra, en taka þyrfti tillit til óáþreifanlegra eigna í samstæðureikningum félagsins. Ef V væri íslenskt félag væri líklegt að bókfært verð X Ltd., félags í eigu V, myndi skiptast út fyrir bókfært virði eigna sem ætti að vera lægra en virði óefnislegra eigna.
Vegna framangreindra athugasemda kærenda tók ríkisskattstjóri fram að eins og athugasemdirnar væru settar fram, án tilvísunar til beinna gagna þeim til staðfestingar, þættu þær ekki vera þess eðlis að þær gætu rutt í burt þeim gögnum er fyrir lægju um raunvirði hlutabréfa kærenda í félaginu. Sá ársreikningur sem hefur verið lagður fram af hálfu annarra hluthafa hins erlenda félags sýndi raunvirði hlutabréfa í umræddu erlenda félagi miðað við eigið fé félagsins. Sá ársreikningur hefði ekki verið hrakinn með þeim hætti með gögnum og þætti sú athugasemd að ársreikningurinn væri óundirritaður ekki nægja til að líta bæri framhjá honum við mat á raunvirði hlutabréfanna. Ársreikningurinn hefði borist ríkisskattstjóra frá öðrum hluthafa hins erlenda félags og væri ekki öðrum gögnum til að dreifa sem hrakið gætu þær upplýsingar sem fram kæmu í ársreikningnum. Hefði ríkisskattstjóri því ákveðið, m.a. út frá jafnræði hluthafa, að leggja þær upplýsingar sem fram kæmu í ársreikningnum um raunvirði hlutabréfanna til grundvallar útreikningi viðbótar auðlegðarskatts kærenda í samræmi við b-lið bráðabirgðaákvæðis nr. XXXIII laga nr. 90/2003.
Fram kom að eignarhlutur kærenda í V hefði verið tilgreindur með 654.988 kr. í greinargerðum um viðbót við auðlegðarskattsstofn (RSK 3.23) sem fylgt hefðu skattframtölum kærenda árin 2011 og 2012. Kvaðst ríkisskattstjóri miða við að eignarhlutur kærenda í félaginu næmi 1,83%. Samkvæmt fyrirliggjandi ársreikningi V hefði eigið fé félagsins (,,Equity attributable to shareholders of the parent“) numið 27.336.178 evrum í lok árs 2009 og 23.384.518 evrum í lok árs 2010 eða sem næmi 4.903.563.610 kr. í lok árs 2009 og 3.596.538.868 kr. í lok árs 2010. Hefði raunvirði 1,83% eignarhlutar kærenda samkvæmt þessu numið 89.735.214 kr. í árslok 2009 og 65.816.661 kr. í árslok 2010. Kærendur hefðu hins vegar tilgreint raunvirði eignarhlutans 0 kr. og hefði ríkisskattstjóri því ákveðið að hækka þær fjárhæðir sem kæmu til útreiknings stofns kærenda til viðbótarauðlegðarskatts í samræmi við framangreint, enda yrði ekki annað séð en að stofninn væri vantalinn, sbr. bráðabirgðaákvæði XXXIII og XLVII í lögum nr. 90/2003.
Samkvæmt framangreindu hækkaði stofn kærenda til viðbótarauðlegðarskatts um 89.735.214 kr. gjaldárið 2011 og um 65.816.661 kr. gjaldárið 2012. Skiptist hækkunin jafnt milli kærenda, sbr. e-lið bráðabirgðaákvæðis XXXIII í lögum nr. 90/2003, og hækkaði álagður viðbótarauðlegðarskattur því um 556.751 kr. gjaldárið 2011 og um 493.625 kr. gjaldárið 2012 í tilviki hvors um sig.
III.
Í kafla I hér að framan er greint frá kröfugerð kærenda í kæru til yfirskattanefndar. Í kærunni eru gerðar athugasemdir við útreikning ríkisskattstjóra á raunvirði eignarhluta kærenda í V. Er rakið að ríkisskattstjóri hafi við endurákvörðun sína vísað til bráðabirgðaákvæða XXXIII, XXXIX og XLVII í lögum nr. 90/2003. Samkvæmt b-lið bráðabirgðaákvæðis XXXIII beri við ákvörðun auðlegðarskattsstofns að telja hlutabréf í félögum sem skráð séu í kauphöll eða á skipulegum tilboðsmarkaði fram á markaðsvirði í árslok, en sé félag ekki skráð skuli miða við skattalegt bókfært eigið fé. Sambærilegt ákvæði sé í bráðabirgðaákvæði XLVII. Í þessu tilviki sé um að ræða félag sem ekki sé skráð á markaði auk þess sem ekki liggi fyrir skattframtal félagsins. Við ákvörðun auðlegðarskattsstofns hafi ríkisskattstjóri tekið mið af hlutdeild kærenda í bókfærðu eigin fé félagsins. Bókfært verð og skattalegt bókfært verð sé ekki sami hluturinn, en til þess að nálgast skattalegt bókfært verð þurfi m.a. að gera leiðréttingar á bókfærðu verði hlutabréfaeignar í öðrum félögum. Hlutabréfaeign sé veigamikill hluti efnahagsreiknings V í samræmi við eðli starfsemi félagsins. Framangreind bráðabirgðaákvæði séu skýr um það að til auðlegðarskattsstofns skuli telja óskráð hlutabréf á verði sem nemi hlutdeild í skattalegu bókfærðu eigin fé eins og það birtist í skattframtali viðkomandi. Hafi ríkisskattstjóra því ekki verið heimilt að ákvarða auðlegðarskattsstofn kærenda vegna hins erlenda óskráða félags eingöngu út frá bókfærðu eigin fé heldur hafi honum borið að leggja mat á fyrirliggjandi upplýsingar með hliðsjón af því hvað teldist nær því að vera hlutdeild í skattalegu bókfærðu eigin fé félagsins. Í fyrirliggjandi ársreikningi, sem ríkisskattstjóri hafi byggt ákvörðun sína á, komi fram í skýringum nr. 2, 5 og 7 að eignfærð viðskiptavild hafi orðið til við kaup á X Ltd. 31. desember 2010. Sé viðskiptavildin skilgreind sem mismunur á raunvirði allra annarra eigna og skulda hins keypta félags og kaupverðs þess, sbr. skýringu nr. 2. Viðskiptavild sem þessi sé eingöngu færð til bókar sé hún keypt og þá hjá kaupanda félags en ekki hjá félaginu sjálfu. Myndi hún hluta af bókfærðu virði eignarhlutans og birtist eingöngu í samstæðureikningi kaupanda þegar bókfært verð eignarhlutarins sé leyst upp við gerð samstæðureikningsins. Af því leiði að við framtalsgerð samkvæmt íslenskum lögum falli þessi keypta viðskiptavild niður þegar skattalegt bókfært verð dótturfélags komi í stað bókfærðs verð eignarhlutarins. Myndi skattalegt bókfært eigið fé móðurfélagsins þannig verða lægra en bókfært eigið fé þess sem næmi viðskiptavildinni eða 5.050.344 evrum. Til þess að nálgast skattalegt bókfært eigið fé megi þannig gefa sér að raunvirði eigna og skulda dótturfélagsins X Ltd. sé jafnt skattalegu bókfærðu eigin fé þess félags.
Í niðurlagi kærunnar er gerð krafa um greiðslu málskostnaðar að fjárhæð samtals 278.008 kr. og fylgja kærunni ljósrit af þremur reikningum vegna vinnu umboðsmanns kærenda við málið.
IV.
Með bréfi, dags. 16. febrúar 2016, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn í málinu og krafist þess að úrskurður embættisins verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.
Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 19. febrúar 2016, var kærendum sent ljósrit af umsögn ríkisskattstjóra í málinu og þeim gefinn kostur á að tjá sig um hana og leggja fram gögn til skýringar. Engar athugasemdir hafa borist.
V.
Kæruefni í máli þessu er sú ákvörðun ríkisskattstjóra samkvæmt hinum kærða úrskurði um endurákvörðun, dags. 5. nóvember 2015, að hækka stofn kærenda til viðbótarauðlegðarskatts gjaldárin 2011 og 2012 um 89.735.214 kr. fyrra árið og um 65.816.661 kr. það síðara. Lutu ákvarðanir þessar að hlutafjáreign kærenda í erlendu félagi, V, sem mun vera skráð í Hollandi. Taldi ríkisskattstjóri að kærendur hefðu vantalið raunvirði hlutafjárins í skattskilum sínum greind ár sem leitt hefði til þess að ekki hefði komið til álagningar viðbótarauðlegðarskatts vegna hlutabréfanna við álagningu opinberra gjalda umrædd ár. Í kæru kærenda til yfirskattanefndar er þess krafist að viðbótarauðlegðarskattsstofn kærenda lækki um 14.221.789 kr. frá því sem ríkisskattstjóri ákvað. Telja kærendur að við ákvörðun viðbótarauðlegðarskattsstofns þeirra beri að taka tillit til lækkunar á bókfærðu eigin fé V í árslok 2010 sem nemi verðmæti eignfærðrar viðskiptavildar að fjárhæð 5.050.344 evrur. Verður samkvæmt þessu ekki annað séð en að kæra kærenda taki í reynd einvörðungu til endurákvörðunar opinberra gjalda gjaldárið 2012.
Hlutabréf eru framtalsskyld eign samkvæmt 72. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Um mat framtalsskyldrar hlutabréfaeignar segir svo í 1. málsl. 5. tölul. 73. gr. laga nr. 90/2003: „Hlutabréf skal telja til eignar á nafnverði nema sannað sé að raunvirði eigna félags að frádregnum skuldum sé lægra en hlutafé þess.“ Með lögum nr. 128/2009, um tekjuöflun ríkisins, var bráðabirgðaákvæði XXXIII bætt við lög nr. 90/2003, sbr. d-lið 24. gr. laga nr. 128/2009. Í umræddu ákvæði er mælt fyrir um álagningu auðlegðarskatts á framtalsskyldar eignir samkvæmt 72. gr. laga nr. 90/2003 í lok áranna 2009, 2010 og 2011 við álagningu árin 2010, 2011, 2012 og 2013. Í 2. mgr. b-liðar ákvæðisins kemur fram að við ákvörðun auðlegðarskattsstofns skuli telja hlutabréf í félögum sem skráð eru í kauphöll eða á skipulegum tilboðsmarkaði fram á markaðsvirði í árslok. Sá sem eigi hlut í félagi sem ekki sé skráð í kauphöll eða á skipulegum tilboðsmarkaði skuli telja fram til auðlegðarskattsstofns hlutdeild sína í skattalegu bókfærðu eigin fé félagsins eins og það sé talið fram í skattframtali félagsins samkvæmt 1. mgr. b-liðar bráðabirgðaákvæðisins. Þann hluta virðis eignarhluta í félagi sem reiknað sé á framangreindan hátt sem umfram sé nafnverð eða stofnverð skuli telja fram í skattframtali 2011, 2012 og 2013. Í 3. málsl. h-liðar ákvæðisins kemur fram að auðlegðarskattsstofn vegna áranna 2009, 2010 og 2011 skuli endurreikna við álagningu opinberra gjalda 2011, 2012 og 2013 með tilliti til viðbótareignar samkvæmt b-lið bráðabirgðaákvæðisins. Sá mismunur sem myndist við þann endurreikning og sé umfram ákveðin tilgreind viðmiðunarmörk skuli skattlagður við álagningu opinberra gjalda framangreind ár.
Í athugasemdum með 25. gr. frumvarpsins, sem varð 24. gr. laga nr. 128/2009, kemur fram að lagt sé til að vikið verði frá þeirri meginreglu, sem komi fram í 5. tölul. 73. gr. laga nr. 90/2003, þess efnis að hlutabréf skuli talin til eignar á nafnverði, enda endurspegli nafnverð hlutabréfa mjög illa raunvirði eignarinnar. Því sé lagt til að við ákvörðun auðlegðarskattsstofns verði tekið mið af raunverulegu verðmæti hlutabréfanna. Kemur fram að ef um sé að ræða hlutabréfaeign í félagi, sem skráð sé í kauphöll eða á skipulegum tilboðsmarkaði, skuli miða við markaðsverðmæti í lok viðmiðunarárs, en ella skuli miða við hlutdeild í skattalegu bókfærðu eigin fé viðkomandi félags. Gert sé ráð fyrir að framteljendur geri grein fyrir eign sinni í hlutafélögum og einkahlutafélögum með framangreindum hætti, enda séu heildareignir þeirra þannig metnar umfram fyrrgreind fjárhæðarmörk.
Í bráðabirgðaákvæði XXXIII í lögum nr. 90/2003 eru engin sérákvæði um mat hlutabréfa í erlendum félögum. Í ákvarðandi bréfi ríkisskattstjóra nr. 5/2010 frá 6. júlí 2010 kemur fram það álit embættisins að í tilviki hlutabréfa í erlendum félögum, sem ekki séu skráð í kauphöll eða á skipulegum tilboðsmarkaði, skuli því við ákvörðun auðlegðarskattsstofns miða við hlutdeild skattskylds aðila í skattalegu bókfærðu eigin fé félagsins eins og það sé talið fram í skattframtali félagsins í heimalandi þess, sbr. ákvæði b-liðar umrædds bráðabirgðaákvæðis, þó með þeim fyrirvara að skattframtalið sé byggt á sambærilegum reglum og gildi í þessum efnum hér á landi. Séu skattareglur verulega frábrugðnar því sem gildi hér á landi, eða séu miklir annmarkar á því að nálgast þessar upplýsingar, telji ríkisskattstjóri unnt að fallast á að byggja á ársreikningi viðkomandi félags, enda sé hann byggður á almennum reikningsskilareglum. Er tekið fram í bréfinu að sé um að ræða félag, sem sjálft eigi hluta í öðrum félögum, beri að leiðrétta eignfært virði á sama hátt með tilliti til raunverulegs virðis þeirra félaga, sbr. 1. mgr. b-liðar ákvæðis til bráðabirgða XXXIII.
Fallast má á með ríkisskattstjóra að í tilviki erlendra félaga geti verið tækt að byggja ákvörðun auðlegðarskattsstofns á upplýsingum í ársreikningi viðkomandi félags sé skattframtali ekki til að dreifa, eins og hér á við. Er það raunar ágreiningslaust í málinu og verður að byggja á því að hin kærða ákvörðun ríkisskattstjóra sé þannig í samræmi við skattframkvæmd í hliðstæðum tilvikum. Verður að líta svo á að í ákvörðun ríkisskattstjóra hafi falist áætlun á raunvirði eignarhlutar kærenda í V, sbr. 1. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003, enda lágu skattframtöl hins erlenda félags ekki fyrir og kærendur urðu ekki við áskorun ríkisskattstjóra um framlagningu gagna til staðfestingar tilfærðu raunvirði, sbr. bréf ríkisskattstjóra, dags. 6. febrúar og 3. júní 2015, og tölvupóst 10. ágúst 2015.
Í kæru til yfirskattanefndar er tekið fram að við skattframtalsgerð samkvæmt íslenskum reglum kunni að koma til ýmissa leiðréttinga sem ýmist myndu leiða til lækkunar eða hækkunar á skattalegu bókfærðu verði kæranda. Allt að einu er eingöngu krafist lækkunar á áætlunarfjárhæð ríkisskattstjóra vegna tilgreindrar viðskiptavildar í samstæðureikningi V sem kærendur telja að hafi myndast við kaup á X Ltd. í árlok 2010. Þrátt fyrir rökfærslu kærenda fyrir því að taka beri tillit til greinds eignaliðar, sem ríkisskattstjóri hefur naumast mótmælt efnislega, verður að líta til þess að í málinu er um að tefla áætlun skattstofns á framangreindum grundvelli. Miðað við fyrirliggjandi gögn og upplýsingar verður ekki talið að áætlunarfjárhæð ríkisskattstjóra sé úr hófi fram og ekki verður séð að ríkisskattstjóri hafi byggt áætlun sína á ómálefnalegum forsendum. Því verður ekki talin ástæða til að hrófla við henni. Samkvæmt því og eins og málið liggur fyrir að öðru leyti þykir rétt að vísa kærunni frá yfirskattanefnd að svo stöddu.
Umboðsmaður kæranda hefur gert kröfu um að kærendum verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998, um breyting á þeim lögum. Samkvæmt úrslitum málsins eru ekki lagaskilyrði til að ákvarða kærendum málskostnað. Kröfu þess efnis er því hafnað.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Kærunni er vísað frá yfirskattanefnd. Málskostnaðarkröfu kærenda er hafnað.