Úrskurður yfirskattanefndar

  • Bifreiðagjald
  • Undanþága frá gjaldskyldu

Úrskurður nr. 227/2016

Bifreiðagjald 2015

Lög nr. 39/1988, 4. gr. a-liður (brl. nr. 37/2000, 4. gr.).  

Ríkisskattstjóri synjaði kröfu kæranda um niðurfellingu bifreiðagjalds vegna örorku á þeim grundvelli að kærandi væri ekki skráður eigandi viðkomandi bifreiðar og að samningur milli kæranda og skráðs eiganda, þ.e. föður kæranda, um umráð bifreiðarinnar gæti ekki talist „eignarleigusamningur“ í skilningi laga um bifreiðagjald. Yfirskattanefnd féllst á með ríkisskattstjóra að skilja yrði umrætt hugtak með hliðsjón af lagaákvæðum sem gilt hefðu um slíka gerninga. Var kröfu kæranda hafnað.

Ár 2016, miðvikudaginn 2. nóvember, er tekið fyrir mál nr. 49/2016; kæra A, dags. 25. febrúar 2016, vegna álagningar bifreiðagjalds. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með kæru, dags. 25. febrúar 2016, hefur faðir kæranda, G, skotið úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 8. janúar 2016, til yfirskattanefndar. Með úrskurði þessum, sem stílaður er á föður kæranda, synjaði ríkisskattstjóri erindi kæranda um niðurfellingu bifreiðagjalds af bifreiðinni X vegna 2. gjaldtímabils árið 2015. Beiðni kæranda hér að lútandi barst 9. nóvember 2015 eftir því sem fram kemur í gögnum málsins.

Í úrskurði ríkisskattstjóra kom fram að erindi kæranda hefði fylgt samningur, dags. 9. nóvember 2015, þar nefndur eignarleigusamningur, milli kæranda og G um bifreiðina X, en samkvæmt ökutækjaskrá væri G skráður eigandi bifreiðarinnar. Ríkisskattstjóri tók fram að í 4. málsl. a-liðar 4. gr. laga nr. 39/1988, um bifreiðagjald, væri kveðið á um að réttur til niðurfellingar bifreiðagjalds væri bundinn því skilyrði að bóta- eða styrkhafi væri í ökutækjaskrá annaðhvort skráður eigandi bifreiðar eða umráðamaður bifreiðar samkvæmt eignarleigusamningi. Um væri að ræða undanþágu frá almennri skattskyldu sem bæri að túlka þröngt og yrði í tilfellum sem þessum að uppfylla bæði skilyrði undanþágunnar. Varðandi skilyrði þess að umsækjandi um niðurfellingu væri umráðamaður bifreiðar samkvæmt eignarleigusamningi væri átt við formleg umráð samkvæmt eignarleigusamningi við aðila sem til þess hefði starfsleyfi, sbr. 3. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, eða eignarleiga væri þess eðlis að hún væri á vegum fyrirtækis og teldist ekki meginþáttur í starfsemi þess, sbr. 20. og 21. gr. tilvitnaðra laga. Samkvæmt framansögðu yrði fyrrgreindur samningur frá 9. nóvember 2015 ekki lagður til grundvallar undanþágu frá greiðslu bifreiðagjalda í framangreindum skilningi. Í þessu sambandi mætti vísa til úrskurðar yfirskattanefndar nr. 46/2015. Að mati ríkisskattstjóra yrði ekki talið að samningur einstaklinga sín í milli, svo sem lagður hefði verið fram til grundvallar beiðni kæranda, uppfyllti efnislega eða formlega þau skilyrði sem vísað væri til í tilvitnuðu ákvæði 4. málsl. a-liðar 4. gr. laga nr. 39/1988, um bifreiðagjald. Væru því ekki forsendur fyrir niðurfellingu bifreiðagjalds af bifreiðinni X.

II.

Í kæru til yfirskattanefndar, dags. 25. febrúar 2016, kemur fram að kærandi hafi notið niðurfellingar bifreiðagjalds til margra ára. Komið hafi upp vandamál þegar kærandi skipti um bíl hinn 8. júní 2015 og þá verið skráð sem umráðamaður bifreiðarinnar X. Hafi faðir kæranda boðist til að lána henni kaupverð bifreiðarinnar og síðan útbúið kaupleigusamning milli aðila. Fjármálum kæranda hafi verið þannig háttað að önnur fjármögnun hafi ekki komið til greina. Að mati kæranda sé ekkert í lögum sem banni umrætt fyrirkomulag. Kærandi hafi í þessum efnum farið í einu og öllu eftir skriflegum bindandi leiðbeiningum frá ríkisskattstjóra.

Kærunni fylgir samningur, dags. 9. nóvember 2015, milli kæranda og G, þar sem kemur fram að aðilar geri með sér eignarleigusamning til fimm ára um bifreiðina X. Kaupverð bifreiðarinnar nemi 3.360.000 kr. með vetrardekkjum o.fl. Selji G kæranda bifreiðina samkvæmt eignarleigusamningnum, en kærandi hafi öll afnot af bifreiðinni og beri fulla ábyrgð á henni. Skuli kærandi tryggja bifreiðina á sinn kostnað. G teljist eigandi bifreiðarinnar þar til samningurinn sé að fullu greiddur. Um greiðslur kemur fram að greiddar skuli 50.000 kr. í 60 mánuði, samtals 3.000.000 kr., auk þess sem bifreiðakaupastyrkur TR renni til seljanda. Í niðurlagi samningsins kemur fram að samningurinn hafi verið handsalaður 8. júní 2015 en færður á blað 9. nóvember sama ár.

III.

Með bréfi, dags. 11. apríl 2016, hefur ríkisskattstjóri gert þá kröfu í málinu að hinn kærði úrskurður verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 12. apríl 2016, var föður kæranda sent ljósrit af umsögn ríkisskattstjóra í málinu og honum gefinn kostur á að tjá sig um hana og leggja fram gögn til skýringar.

Með bréfi, dags. 20. apríl 2016 hefur faðir kæranda gert grein fyrir athugasemdum sínum. Er áréttað að beiðni til ríkisskattstjóra hafi lotið að áframhaldandi ívilnun til kæranda vegna bifreiðaskatts.

IV.

Eins og að framan greinir leitaði kærandi til ríkisskattstjóra hinn 9. nóvember 2015 með beiðni um undanþágu frá gjaldskyldu til bifreiðagjalds vegna bifreiðarinnar X, sbr. a-lið 4. gr. laga nr. 39/1988, um bifreiðagjald, með áorðnum breytingum. Samkvæmt ákvæði þessa stafliðar greinarinnar eru bifreiðar í eigu þeirra sem fá greiddan örorkustyrk, örorkulífeyri, bensínstyrk eða umönnunargreiðslur vegna örorku barna frá Tryggingastofnun ríkisins undanþegnar bifreiðagjaldi. Tekið er fram að jafnframt eigi þeir öryrkjar sem notið hafa niðurfellingar skv. 1. málsl. stafliðarins rétt á niðurfellingu ef þeir hafa öðlast rétt til ellilífeyrisgreiðslna eða dveljast á stofnun, sbr. 43. gr. laga nr. 117/1993, um almannatryggingar, sbr. nú lög nr. 48. gr. laga nr. 100/2007, um sama efni. Samkvæmt 4. málslið stafliðarins er réttur til niðurfellingar bifreiðagjalds vegna þeirra sem fá greiddan örorkustyrk, örorkulífeyri eða bensínstyrk bundinn því skilyrði að bóta- eða styrkhafi sé í ökutækjaskrá annaðhvort skráður eigandi bifreiðar eða umráðamaður bifreiðar samkvæmt eignarleigusamningi. Með úrskurði, dags. 8. janúar 2016, synjaði ríkisskattstjóri kröfu kæranda á þeim grundvelli að samningur kæranda og skráðs eiganda bifreiðarinnar X, sem lagður hefði verið fram til grundvallar undanþágubeiðni kæranda, gæti ekki talist eignarleigusamningur í skilningi 4. málsl. a-liðar 4. gr. laga nr. 39/1988. Með eignarleigusamningi væri átt við formleg umráð samkvæmt eignarleigusamningi við aðila sem til þess hefði starfsleyfi, sbr. 3. tölul. 3. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki.

Eins og rakið er að framan er í 4. gr. laga nr. 39/1988, sbr. 4. gr. laga nr. 37/2000, mælt fyrir um fortakslausa undanþágu frá bifreiðagjaldi við þargreindar aðstæður, að uppfylltum tilgreindum skilyrðum. Í tilviki kæranda gildir það skilyrði að hún sé í ökutækjaskrá annaðhvort skráð eigandi bifreiðar eða umráðamaður bifreiðar samkvæmt eignarleigusamningi. Óumdeilt er í máli þessu að kærandi var ekki skráð eigandi bifreiðarinnar X í ökutækjaskrá á þeim tíma sem mál þetta varðar. Í kæru til yfirskattanefndar er byggt á því að kærandi hafi verið umráðamaður bifreiðarinnar samkvæmt munnlegum eignarleigusamningi sem kærandi hafi gert við föður sinn 8. júní 2015 og aðilar hafi fært í letur og undirritað 9. nóvember 2015. Meginatriði samnings þessa eru rakin í kafla II hér að framan. Efni sínu samkvæmt er hér um að ræða kaupsamning um greinda bifreið með eignarréttarfyrirvara seljanda að hinu selda þar til kaupverð, alls 3.360.000 kr., sé að fullu greitt. Getur samningur þessi því með engu móti talist „eignarleigusamningur“ í skilningi 4. málsl. a-liðar 4. gr. laga nr. 39/1988, sbr. 4. gr. laga nr. 37/2000. Hvað snertir umrætt hugtak að öðru leyti verður að taka undir það með ríkisskattstjóra að skilja verður það með hliðsjón af lagaákvæðum sem gilt hafa og gilda um slíka gerninga. Kveðið var á um starfsemi eignarleigufyrirtækja í lögum nr. 19/1989, um eignarleigustarfsemi, en í 1. gr. þeirra laga var að finna skilgreiningar á hugtökunum fjármögnunarleiga og kaupleiga. Síðar voru í gildi lög nr. 123/1993, um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði, en í 9. gr. þeirra laga var að finna skilgreiningu á hugtakinu „eignarleiga“. Lög þessi voru leyst af hólmi með lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, en í 3. tölul. 1. mgr. 3. gr. þeirra laga er hugtakið „eignaleiga“ skýrt og kveðið á um að leyfis þurfi við til að reka megi starfsemi um hana.

Samkvæmt því sem rakið hefur verið verður ekki fallist á það með kæranda að hún geti talist umráðamaður bifreiðarinnar X samkvæmt eignarleigusamningi á þeim tíma sem mál þetta varðar. Hvað sem líður raunverulegu eignarhaldi að bifreiðinni á þessum tíma verður með vísan til fortakslauss áskilnaðar í a-lið 4. gr. laga nr. 39/1988, sbr. 4. gr. laga nr. 37/2000, þess efnis að bóta- eða styrkhafi sé í ökutækjaskrá skráður eigandi eða umráðamaður bifreiðar samkvæmt eignarleigusamningi, að hafna kröfu kæranda, sbr. áður hliðstæðan áskilnað í reglugerðum um bifreiðagjald, sbr. a-lið 5. gr. reglugerðar nr. 359/1998.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kæranda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja